Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:05:38 (8610)

2002-05-02 11:05:38# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Vegna lokaorða hv. þm. um fyrirkomulag mála í Reykjanesbæ, þá man ég það satt að segja ekki. En hitt veit ég að langflestir þeir samningar sem gerðir hafa verið í heimabæ mínum eru þess eðlis að sveitarfélagið mun aldrei eignast svo mikið sem eina ljósaperu í viðkomandi húsnæði. Það er einfaldlega rekstrarleigusamningur til 25 ára og þá eru menn á byrjunarreit á nýjan leik þannig að það er grundvallaratriði.

En feginn vildi ég, herra forseti, ekki þurfa að standa í þessum ræðustól og ræða um sveitarfélag mitt, heimabæ minn, Hafnarfjörð, í þessu samhengi. Feginn vildi ég vera laus við það. Fyrst hv. þm. vill leggja þá lykkju á leið sína og fara til gamalla tíma í Hafnarfirði þegar við jafnaðarmenn réðum þar ríkjum, þá fagna ég því alveg sérstaklega þar sem öflug uppbygging átti sér stað fyrir eigið aflafé og menn byggðu upp öflugan og góðan bæ fyrir skatttekjur sem inn komu. Því er ekki að heilsa núna. Það lýtur ekki að neinum bókhaldslegum, tæknilegum atriðum þegar um það er spurt hvort þriðja stærsta bæjarfélag á landinu skuldi 10 milljarða kr. eins og er í bæjarreikningum ellegar 15 milljarða þegar þessar skuldbindingar vegna einkaframkvæmdar eru taldar með. Munurinn er þriðjungur. Það skiptir öllu máli því að ef þetta væri fært eins og vera ber, þá væri þetta sveitarfélag komið á válista og þá ætti hæstv. ráðherra að setja nefnd til höfuðs flokksbræðrum hv. þm. í Hafnarfirði til að hjálpa þeim til að landa þessum málum og koma þeim í viðunandi horf.

Það er auðvitað of seint núna. Við björgum þessu máli 25. maí með því að breyta um meiri hluta.