Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:09:47 (8612)

2002-05-02 11:09:47# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:09]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við ættum auðvitað ekki að vera að ræða bæjarmálin á hv. Alþingi, en kannski er það ekkert óeðlilegt því að hafa menn ekki verið dögum saman að ræða málefni Skagafjarðar vegna steinullarverksmiðju og eru ekki menn til hægri og vinstri að ræða um borgarmál í Reykjavík? Ekki ætla ég að víkjast undan því.

Hæstv. forseti. Hv. þm. var í lokin farinn að hræra saman eplum og appelsínum. Enn þá hef ég ekki farið svo langt í umræðunni að koma inn á þann þátt skólamála í Hafnarfirði sem lýtur að einkarekinni kennslu og af því að hv. þm. hvatti mig til þess að kynna mér gang mála á þeim vettvangi, þá hef ég einmitt gert það. Því miður hefur á fyrsta ári þar sem einkaaðilar hafa haft með höndum kennslu í Áslandsskóla í Hafnarfirði allt verið í fári, allt í fullkomnu fári, hjá starfsfólki, kennurum og með afleiddum hætti hjá nemendum. Menn eru með böggum hildar yfir ýmsu því sem þar hefur gerst. Því miður, segi ég.

Ég hefði í sporum hv. þm. ekki hætt mér svo langt að fara að ræða um innra starf í einkareknum skólum. Þá er ég að tala um starfsemi skólanna. Ég hef af tillitssemi við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn aðeins haldið mig við formið og byggingarnar sem slíkar. Hér standa þeir saman hlið við hlið, fulltrúar félagshyggjunnar í Framsfl. sem hafa tölt á eftir íhaldinu, þegar kemur að því að leyfa frjálshyggjunni að ríða húsum í skólamálum, í grunnskólamálum í Hafnarfirði og fleiri bæjum. Það er afrekalisti þeirra eftir að hafa gengið í björg með íhaldinu og verið þar í umliðin þrjú ár.