Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:16:01 (8616)

2002-05-02 11:16:01# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg bráðnauðsynlegt að hv. þm. setjist nú við lestur. Hún skilur greinilega ekki það sem hér er sagt. Kannski botnar hún betur í því þegar hún les textann.

Hafi hún haldið það, formaður nefndarinnar sjálf, að hér séum við að fjalla um einkaframkvæmd per se þegar frv. snýst um það hvort Hafnfirðingar eigi að njóta þess sama og önnur sveitarfélög á landinu þegar kemur að stuðningi fjármuna úr ríkissjóði, þá bara veit ég ekki á hvaða ferðalagi hún er. Ég hef sagt það trekk í trekk, síðast við 2. umr. málsins, og við 1. umr. málsins, að auðvitað yrði að koma málum þannig fyrir að Hafnfirðingar fengju þessa fjármuni enda þótt flokkssystkini hv. þm. hafi farið fram í Hafnarfirði eins og raun ber vitni.

Ég er á móti einkaframkvæmd, ég er á móti rekstrarleigu þegar kemur að grunnskólum. (ArnbS: Um það snýst málið.) Nei. Það snýst um ... (Gripið fram í.)

Herra forseti. Það er augljóst mál að formaður félmn. áttar sig ekki á því að hér hefur björgunarleiðangur verið í gangi til að koma fjármunum suður í Hafnarfjörð sem ella að óbreyttum lögum hefðu ekki farið þangað. (ArnbS: Ég hvet hv. þm. til að lesa frv. og ... brtt.) Það er af þeim ástæðum sem ég er nauðbeygður til að styðja efni máls, innihald málsins. Það breytir því ekki að vandamálin eru til staðar eins og ég er búinn að fara rækilega yfir ræðu eftir ræðu. Það er alveg greinilega eins og að tala við vegginn þegar kemur að hv. þm. Hún hefði betur --- og orðið maður að meiri væntanlega --- beðist afsökunar á að fara með rangt mál og skrökva í ræðustóli.