Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:23:24 (8618)

2002-05-02 11:23:24# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:23]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara þessum spurningum og hann hefur gert það að verulegu leyti og raunar fallist á þau rök sem ég hef haldið fram að alltént verði þá að vera samræmi og eitthvert skipulag í þessum efnum. Hann hefur upplýst að þannig verði það að þeim greiðslum verði að dreifa og færa yfir í rekstur alveg eins og útgjöldum. Síðan megi þetta vera einnig eignamegin sem útistandandi tekjur en á sama hátt útistandandi gjöld á eignarhluta ársreiknings. Það er þó komin einhver mynd á þennan þátt málsins og ég fagna því þó að seint sé að það sé upplýst.

Ég heyri það alveg á hæstv. ráðherra að hann deilir áhyggjum mínum í þessum efnum og er ekki manna hrifnastur af þessari einkaframkvæmdarleið þegar kemur að grunnskólum og því fagna ég alveg sérstaklega þó að það hefði kannski verið betra að Framsfl. hefði staðið fastar í báða fætur þegar kom að hinum stóru ákvörðunum í þá veruna.

Hæstv. ráðherra sagði sem rétt er að það sé aðeins eitt sveitarfélag og hann stóð frammi fyrir því eins og ég við afgreiðslu þessa máls hvort Hafnfirðingar eigi að njóta hins sama í styrk frá ríkissjóði og íbúar annarra sveitarfélaga þótt þeir hafi farið þessa vitlausu leið. Ég hlýt að svara því játandi að lyktum og hef raunar sagt við allar umræður málsins að meiri hagsmunirnir eru þeir að hafnfirskir skattgreiðendur fái það sama frá ríkissjóði þótt meiri hluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hafi farið þessa arfavitlausu og rándýru leið við uppbyggingu skólamannvirkja þannig að það er af þeim ástæðum einum sem ég styð þetta mál, þ.e. styð lyktir málsins að peningar renni suður í Hafnarfjörð eins og á aðra staði á landinu.