Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 11:25:46 (8619)

2002-05-02 11:25:46# 127. lþ. 135.8 fundur 616. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (grunnskólabyggingar) frv. 60/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[11:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Sjónarmið okkar hafa komið mjög skýrt fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem flutti brtt. við frv. ráðherra. En það vekur athygli að mjög mismunandi áherslur eru uppi, annars vegar af hálfu hæstv. félmrh. Páls Péturssonar og hins vegar af hálfu formanns nefndarinnar, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir leggur áherslu á að hér sé að finna almenna stefnumörkun varðandi stuðning við einkaframkvæmd í skólakerfinu á meðan hæstv. ráðherra leggur hins vegar áherslu á að hér sé um tímabundna ráðstöfun að ræða. Hann lýsti því einnig yfir að hann hafi haft miklar efasemdir um að veita eigi yfirleitt stuðning einkareknum skólum sem munu ekki hafna í eigu sveitarfélaganna þegar upp er staðið og undir þetta sjónarmið vil ég taka.

Brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar gengur út á að: ,,Aðeins er heimilt að veita styrki til stofnframkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, sem þegar hafa verið gerðir og eru frágengnir við gildistöku laga þessara.``

Með þessari brtt. á að vera girt fyrir það að stuðningur verði veittur til aðila sveitarfélaga sem ætla að fara út á einkaframkvæmdarbrautina. Það er alveg morgunljóst að afstaða okkar er sú að við erum andvíg því að farið verði með skólakerfið inn á braut einkaframkvæmdar og einkavæðingar og út á það ganga tillögur okkar og gildir einu (KPál: Eruð þið andvígir öllum breytingum á þessu sviði?) Hv. þm. Kristján Pálsson vill leggja sitt af mörkum til umræðunnar úr sæti sínu og spyr hvort við séum andvíg öllum breytingum á þessu sviði. Nei, við erum mjög fylgjandi breytingum í skólakerfinu, í heilbrigðiskerfinu og í velferðarþjónustunni almennt sem eru til hagsbóta fyrir þá sem njóta þjónustunnar. Ef hins vegar sýnt er að kostnaðurinn fyrir samfélagið og skattborgarann verði meiri vegna breytinganna, þá erum við að sjálfsögðu andvíg því ef þar að auki sýnt er að þjónustan versnar. Við höfum sýnt fram á það í ítarlegu máli og er alveg guðvelkomið að skýra það fyrir hv. þm. nánar á hverju við byggjum þá afstöðu okkar. Það er alveg guðvelkomið að gera það ef hv. þm. óskar eftir því og ég legg til að hann komi þá hingað í pontu og óski eftir nánari útlistunum á því. Þær hafa hins vegar verið veittar og ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að endurtaka það sem oft hefur verið sagt. Afstaða okkar er skýr og gildir okkur einu hverju aðrir stjórnmálamenn halda fram, hvort sem þeir eru borgarstjórar í Reykjavík eða einhverjir aðrir.