Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:07:31 (8621)

2002-05-02 12:07:31# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. beindi til mín spurningu um það hvað átt væri við í frv. þar sem talað er um að íbúðir hefðu staðið ,,lengi`` auðar. Í rauninni er ekki skilgreining á því heldur er um það að ræða, eins og þarna kemur fram, að rekstrarframlögin til sveitarfélaganna eiga að koma vegna hallareksturs félagslegra leiguíbúða og íbúða sem staðið hafa lengi auðar. Miðað er við það í frv. að sérstakt reiknilíkan finni út úr því hvað sá hallarekstur er mikill og hvað er eðlilegt að sé komið til móts við þann hallarekstur. Reyndar er í niðurstöðum nefndarinnar gert ráð fyrir ákveðnu formi á þessu reiknilíkani og félmn. gerði það einmitt að tillögu sinni að sett yrði sérstök reglugerð um þetta reiknilíkan þar sem fram kæmi hversu mikið ætti að koma til móts við þann hallarekstur. Grunnforsendan er sú að hallarekstur er á þessum íbúðum sem hafa staðið auðar og auk þess hallarekstur á þeim leiguíbúðum sem hefur ekki tekist að leigja út á eðlilegu kostnaðarverði frá sveitarfélögunum vegna þess að markaðsleiga í einstökum sveitarfélögum er það lág að sveitarfélögin verða að fylgja því eftir og geta ekki leigt á fullu verði.