Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:31:01 (8626)

2002-05-02 12:31:01# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemdir við þessa síðustu setningu, ,,fyrir þá einstaklinga sem vilja losna úr félagslegum eignaríbúðum``. Samkvæmt þeim lögum sem áður giltu gat fólk hreyft sig, hvort sem var innan félagslegs húsnæðis eða farið út úr félagslegu húsnæði. Það er búið að breyta lögum núna og eins og ég benti á áðan gerðu gallar á þeirri löggjöf það að verkum að sumt fólk læstist inni. Það er verið að lagfæra það. En á grundvelli þess sem formaður félmn. áréttaði hér, að fyrir liggur undirritað samkomulag milli ríkisins og Sambands ísl. sveitarfélaga, tekur Samfylkingin sína jákvæðu afstöðu í þessu máli. Það breytir því þó ekki að það er afskaplega óþægilegt ef einhverjir í þessum geira eru síðan að senda frá sér eða gefa frá sér þær upplýsingar að þarna sé öðrum hlutum ábótavant, að þetta sé hluti af stærra dæmi og komi ekki að gagni ef dæmið leysist ekki allt. Þess vegna er mjög mikilvægt að því verði svarað í þessari umræðu. Ég vakti fyrst og fremst athygli á því en ég tek mína afstöðu á grundvelli þess samkomulags sem hér liggur fyrir, á grundvelli þess sem ég veit að þarf að lagfæra fyrir fólkið í þessu húsnæði, fyrir það fólk sem þarf að fá góð félagsleg úrræði í húsnæðismálum og til að hægt sé að koma til móts við vanda sveitarfélaga án þess að ég falli í þá gryfju að ergja mig yfir því hvernig sá vandi varð til í mörgum tilfellum.

Ég þakka góðar upplýsingar formanns félmn. og tek undir orð hennar.