Húsnæðismál

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 12:43:54 (8628)

2002-05-02 12:43:54# 127. lþ. 135.9 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[12:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í lok þessarar umræðu. Ég vil árétta að ekki er verið að taka neina peninga af Reykjavík eða öðrum sveitarfélögum. Einungis er verið að taka fé úr sameiginlegum sjóðum sem sveitarfélögin eiga, varasjóði viðbótarlána og tryggingarsjóði vegna byggingargalla, og síðan mótframlag frá ríkinu.

Í frv. er getið um það að stjórn Íbúðalánasjóðs fær heimild til að afskrifa þar sem húsnæðið er ónýtt. Viðkomandi sveitarfélag leggur fram a.m.k. jafnháa upphæð og Íbúðalánasjóður. Þetta segir í 2. gr. frv. Og ef Reykjavík þarf að eyðileggja eitthvað af leiguíbúðum getur komið til þess að borgin þurfi að leggja fram fé, annars ekki.

[12:45]

Hvað varðar um þetta loðna orðalag, ,,lengri tíma``, þá geri ég ráð fyrir því að ráðgjafarnefndin geri tillögu um það og að kveðið verði á um hvaða mat verður lagt á þetta orðalag þegar þar að kemur við reglugerðarsetningu.

Spurt hefur verið um þóknun stjórnarmanna. Ég hygg að þetta hafi verið sett í frv. með hliðsjón af stjórn Íbúðalánasjóðs. Sami háttur er hafður á um laun stjórnar Íbúðalánasjóðs. Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur lengst af verið talsvert lægra launuð en t.d. bankaráðin. Ég lagði til hækkun fyrir örfáum mánuðum og núna eru laun almennra stjórnarmanna í kringum 70--75 þús. kr., ef ég man rétt. Mig minnir að formaður sé með 50% hærra.

Ég geri ráð fyrir því að laun stjórnar þessa sjóðs verði lægri en stjórnar Íbúðalánasjóðs enda eru henni ekki ætluð eins mikil umsvif. Ég geri ráð fyrir því að ráðgjafarnefndin setji sér verklagsreglur um hvernig staðið verði að framkvæmd þessa verkefnis. Það kom í ljós að ódýrara var fyrir ríkið að greiða niður vexti en að greiða stofnstyrki eða hækka húsaleigubætur. Þegar við vorum búnir að velta þessu lengi fyrir okkur og setja upp mikið af dæmum og reiknimódel var horfið að því að fara heldur í að greiða niður vexti en að greiða stofnstyrki eða hækka húsaleigubæturnar. Líka var vandasamt að hækka húsaleigubæturnar því að ekki hefðu nema sumir átt rétt á hækkun á bótunum.

Þegar ég vissi seinast voru leigugreiðslur hjá Félagsbústöðum hf. fyrir meðalíbúð lægri en 50 þúsund þannig að það er ekki rétt sem hér kom fram um húsaleigu hjá borginni. Hins vegar er maður að heyra ótrúlegar tölur um leigufjárhæðir hjá einstaklingum.

Varðandi þetta með vextina þá vildi ég auðvitað sjá sem allra lægsta vexti á leiguíbúðalánum. Mér er engin launung á því. En þegar lífeyrissjóðirnir neita að kaupa húsbréf nema fá vexti á þau fyrir 6,1% eins og nú er, þarf náttúrlega töluvert til að greiða niður. Þetta eru miklar fjárhæðir sem þarf til að greiða niður vextina. Þessar 400 íbúðir sem ákveðið var að lána út á í ár eru gengnar út. Það er búið að veita lánsloforð fyrir þeim að ég hygg öllum. Reyndar er líka búið að leggja inn pantanir í lán fyrir þessum 600 í sérstaka átakinu. Búseti mun byggja 300 af þessum 600 íbúðum og önnur leigufélög eru búin að leggja inn pantanir fyrir flestöllum hinum.

Síðan Íbúðalánasjóður tók til starfa er hann búinn að lána eða gefa lánsloforð á líklega milli 1.400 og 1.500 leiguíbúðir samtals. En á 17 ára tímabili, bara til samanburðar, frá 1981--1997 var lánað út á 2.620 leigu- og kaupleiguíbúðir. Bara á þessum þremur og hálfa ári sem Íbúðalánasjóður hefur starfað er búið að lána út á 1.500. Búið er að veita viðbótarlán fyrir 5.000 íbúðum á þessum þremur og hálfa ári sem Íbúðarlánasjóður hefur starfað, en samtals á 17 ára tímabili Húsnæðisstofnunar voru þær ekki nema 3.690. Menn sjá því að félagsleg aðstoð hefur stóraukst.

Sátt var um að niðurgreiða vexti, sagði hv. 5. þm. Reykv. Sáttin fólst í því að éta upp Byggingarsjóð ríkisins. Byggingarsjóður ríkisins var bókfærður á 25 milljarða. En þegar búið var að sameina hann Byggingarsjóði verkamanna og þeim undirballans sem honum fylgdi var heimanmundurinn einungis 6 milljarðar. Þessi stóri og ríki sjóður var sem sagt étinn upp með því að lána svona langt neðan við það sem þurft hefði að vera.

Ég vil svo ítreka það að hér er um að ræða samkomulag við sveitarfélögin um fyrirkomulag þessa máls og það var prentað með nefndaráliti hv. félmn., undirritað af formanni Sambands ísl. sveitarfélaga, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, framkvæmdasstjóra sambandsins, Þórði Skúlasyni og svo fjmrh. og mér. Þarna er fengin niðurstaða um fimm ára plan. Það varð að reyna að klára þetta mál fyrir þinglokin og sem betur fer virðist það ætla að takast.

Varðandi spurningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um biðreikningana þá léttir á biðreikningunum hjá Vestfirðingunum. Að vísu er skynsamlegt fyrir þá að halda eftir fjármunum til þess að taka þátt í niðurfærslunni þar sem um verður að ræða að eyðileggja íbúðir, þar sem sveitarfélagið á að leggja upphæð á móti afskriftum Íbúðalánasjóðs. En talandi um sveitarfélögin á Vestfjörðum þá er búið að ganga frá samningum við þau öll eftir því sem ég best veit og þau eru öll komin í ágætlega rekstrarhæft form, Vesturbyggð líka.