Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:04:24 (8637)

2002-05-02 14:04:24# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:04]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þáltill. um flugmálaáætlun liggur fyrir til síðari umr. og hefur hv. formaður samgn. Guðmundur Hallvarðsson mælt fyrir meirihlutaálitinu.

Eins og fram kom í máli hans er breyting á framsetningu á flugmálaáætlun frá því sem hefur tíðkast á undanförnum árum, þ.e. að flugmálaáætlun hefur verið lögð fram til annars vegar tveggja og hins vegar fjögurra ára og stóð til nú að endurskoða flugmálaáætlun einmitt til þess tíma. Hér er aðeins lagt til að flugmálaáætlun gildi fyrir árið í ár og er vísað til þess að til samþykktar eru á Alþingi tillögur um breytingar á skipan þessara mála með samþykkt laga um samgönguáætlun þar sem gert er ráð fyrir heildstæðu skipulagi fyrir áætlanagerð í samgöngum í lofti, láði og legi. Það er gott mál að að því skuli stefnt að vinna þessi mál heildstætt. En þau ákvæði koma í sjálfu sér ekki til framkvæmda fyrr en á næsta ári. Því hefði að mínu mati átt að vinna flugmálaáætlun hér með hefðbundnum hætti til annars vegar tveggja og hins vegar til fjögurra ára þannig að þetta væri í þeirri eðlilegu samfellu sem málin voru komin í.

Við endurskoðun á næsta ári og í kjölfar nýrrar lagasetningar um samgönguáætlanir hefði þá verið hægt að breyta flugmálaáætlun í samræmi við það. Komið var gott skipulag á tilhögun þessara mála með því að gera áætlanir til nokkurra ára í senn sem síðan var bara breytt í ljósi mjög brýnna aðstæðna. En að öðru leyti lá fyrir áætlun. Mér finnst skammsýnt að vinna áætlun til eins árs. Það hefði átt að gera þetta á hinn veginn þannig að hér væri unnið til lengri tíma.

Ég vil að öðru leyti gera að umtalsefni áætlun um aðgerðir á Ísafjarðarflugvelli varðandi næturflug eða blindflug, þ.e. hvernig sé hægt að lenda á Ísafjarðarflugvelli í myrkri eða við þær aðstæður að ekki er full dagsbirta eða skyggni nægilegt. Flugmálastjórn og samgn. hafa um nokkurra ára bil skoðað þær aðgerðir, þ.e. hvort hægt sé að koma upp búnaði við Ísafjarðarflugvöll til að gera það kleift að lenda þar þó að myrkt væri orðið.

Nú virðist hafa komið í ljós að kostnaðarsamt eða illframkvæmanlegt muni reynast að gera það á Ísafjarðarflugvelli. Reynist svo vera hefði mér fundist vera næsta skref að kanna hratt hvort menn ættu að koma slíku á við flugvöllinn á Þingeyri sem er steinsnar frá Ísafirði. Það hefði verið mikil bót ef því hefði verið hægt að koma þar við. Það er mikið hagsmunamál fyrir þetta svæði að þangað sé hægt að fljúga með eðlilegum hætti þó svo myrkt sé orðið svipað og til annarra staða á landinu.

Ég spurði í samgn. hvort þetta væri í bígerð. Talið var eðlilegt að skoðað það, en ekki var upplýst að nein framkvæmd eða aðgerðaáætlun væri tilbúin. Ég vil því spyrja hv. formann samgn. hvort hann viti til þess að verið sé að vinna að áætlun um skoðun á möguleikum á þessu flugi á Þingeyrarflugvöll. Skoðun mín er sú að mjög brýnt sé að vinda sér í það. Ísafjarðarflugvöllur hefur verið í skoðun á undanförnum árum hvað þetta varðar og svo virðist vera af því sem hv. samgn. hefur verið kynnt að illleysanlegt sé að koma því við á Ísafjararflugvelli, en þó sé alls ekki fyrir fram útilokað að það sé framkvæmanlegt við flugvöllinn á Þingeyri. Ég tel því mjög brýnt að ganga í að skoða þetta mál og ítreka spurningu mína til hv. formanns samgn. um hvort hann viti nokkuð um stöðu þessa máls.

Síðan vil ég árétta að í þessari þáltill. er í sjálfu sér verið að ganga út frá fjárupphæðum sem voru afgreiddar á fjárlögum þannig að það þarf að breyta fjárlögum ef það á að fara að hreyfa þarna til eða bæta við mannvirkjagerð. Auðvitað finnst okkur í ýmsu þröngur stakkur skorinn því þarna er um að ræða mörg brýn verkefni sem ekki eru á dagskrá þessarar framkvæmdaáætlunar. Ég vil þó aðeins nefna Reykjavíkurflugvöll. Þar tel ég afar brýnt að snyrta og ganga frá umhverfi, t.d. varðandi aðstöðu fyrir farþega, fyrir fólk, fyrir bíla og ekki hvað síst líka umhverfið og umgjörðina, útlit og ásigkomulag húsa á þessu svæði sem hefur drabbast niður og er ókræsilegt. Það er óeðlilegt að íbúar þessa svæðis sem hafa þetta reglulega fyrir augum og farþegar sem um Reykjavíkurflugvöll fara þurfi hálfpartinn að leggja hönd fyrir auga til þess að sjá ekki hversu mikið skortir á þarna í bættri og betri umgengni og hvað lagfæringar varðar. Ég á við hús, land og svæði þarna í kring. Það er eðlileg krafa að þessu verði komið í fallegt og gott horf þannig að við getum öll verið stolt af flugvellinum á þessu svæði hvað þetta varðar. Hversu lengi svo sem hann verður við lýði verður öll umgjörð um flug sá Reykjavíkurflugvelli að vera okkur til sóma. En þar skortir verulega á. Í tillögunum sem hér liggja fyrir er lagt til að heimila fjárveitingu til þess að gera það að hluta. En að hluta er það til þess að greiða skuld sem komin er á verkið. Mér finnst því að kveða mætti enn sterkar og ákveðnar að orði um fegrun, snyrtingu og frágang allan á Reykjavíkurflugvelli. Svo hefði mátt vera. Í samgn. var þetta rætt. Nefndarmenn voru sammála um að þetta væri brýnt verkefni og hefði svo sannarlega mátt árétta það í nefndarálitinu að það væri áhersluatriði og skoðun nefndarinnar að þetta ætti að gera.

Virðulegi forseti. Ég mátti til með að nefna þetta því að flugvellir hvar sem þeir eru, hvort sem þeir eru úti á landi eða á Reykjavíkursvæðinu, ég tala nú ekki um Reykjavíkurflugvöll, verða að líta vel út og vera okkur til sóma hvað þetta varðar þannig að við getum öll verið stolt af þeim. Það er líka hluti af því að byggja upp metnaðarfulla og góða þjónustu.

Herra forseti. Annars hef ég ekki mikið meira um þessa þáltill. um flugmálaáætlun að segja. Þetta liggur fyrir. Við hefðum viljað að tekið væri á fleiri málum og bætt úr fleiru á flugvöllum vítt og breitt um landið. Hér er nánast fylgt þeirri flugmálaáætlun sem líklega var samþykkt fyrir tveimur árum á Alþingi. Henni er fylgt eftir í öllum megindráttum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka áhuga minn á því að bætt verði úr og kannaðir möguleikar á næturflugi eða flugi í myrkri að flugvellinum á Þingeyri.