Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:14:18 (8638)

2002-05-02 14:14:18# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það í fyrsta lagi að hann væri ósáttur við að hér væri aðeins áætlun til eins árs. En það liggur í því sem áður hefur komið fram, að fyrir liggur samræmd samgönguáætlun sem verður skoðuð og lögð fram núna í haust með þá framkvæmdaáætlunum og tölum. Ef við færum að vinna í þessu máli núna væri það raunverulega tvíverknaður fyrir þingið. Ég held að allir séu sammála um að þetta sé hinn eðlilegi framgangsmáti í málinu.

Varðandi það sem sagt var um Reykjavíkurflugvöll þá vildi ég aðeins vitna til þess sem kemur fram í fylgiskjali með nefndarálitinu, með leyfi forseta:

,,Samningar eru í gangi um uppkaup á húsum til niðurrifs [á Reykjavíkurflugvelli]. Nú þegar liggur fyrir heimild fjármálaráðuneytisins til kaupa á byggingunum.``

Ég kom áðan inn á lántökuheimildir upp á 125 millj. sem m.a. eru til þess að ganga frá og snyrta í kringum flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli. Ég er sammála hv. þm. um að það hefur legið of lengi í láginni að takast á við þau verkefni að snyrta vel í kringum flugvöllinn, að ég tali ekki um flugstöðina. En það er líka í undirbúningi og vonandi hefst sú vinna svo fljótt sem verða má.

Varðandi Þingeyrarflugvöll og Ísafjarðarflugkvöll þá er það rangt hjá þingmanninum að tala eins og hann vissi ekki hvort þarna væri um mikinn kostnaður að ræða eða hvort þetta væri óframkvæmanlegt. Málið er að næturflug á Ísafirði er óframkvæmanlegt hvað þetta varðar. Þetta hefur líka verið skoðað varðandi Þingeyrarflugvöll en ýmis ljón eru á veginum einnig þar við að taka upp næturflug. Þetta mál þarf allt rækilegrar skoðunar við og þess vegna hljótum við báðir, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, að vera sammála um að gott sé að leyfa þessu máli anda fram á haust. Þá munu væntanlega liggja frekari upplýsingar fyrir um hvernig megi leysa næturflug til Vestfjarða. Það þýðir ekki Þingeyri. En það mætti kannski skoða aðra staði. Þetta mál allt er í skoðun.