Flugmálaáætlun árið 2002

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:41:05 (8643)

2002-05-02 14:41:05# 127. lþ. 135.10 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:41]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil við lok umræðu um flugmálaáætlun þakka hv. samgn. fyrir ágæta vinnu við meðferð frv. og þær brtt. sem hér liggja fyrir til afgreiðslu. Sömuleiðis vil ég eins og formaður samgn. taka undir mjög málefnalega ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar þar sem hann fór yfir mikilvægi þess að við lítum sameiginlega á þau verkefni í samgöngumálum sem lúta bæði að vegum og sérstaklega þá vegum og flugvöllum.

Ég vil koma að nokkrum atriðum sem hafa komið fram í umræðunni og þá fyrst varðandi það sem hér var rætt um næturflug til Ísafjarðar. Okkur er öllum ljóst að afar mikilvægt er að flugsamgöngur við Vestfirði séu traustar og þar er auðvitað lykilatriði að flugvellirnir séu búnir þeim öryggistækjum og þeim búnaði sem nauðsynlegt er. Hugmyndir höfðu legið fyrir um að koma upp búnaði til þess að hægt væri að fljúga að nóttu til inn á Ísafjarðarflugvöll. Í gildandi flugmálaáætlun var fjárveiting og fjárframlög til þess að undirbúa það og hefja framkvæmdir ef leiðir fyndust til þess að leysa það flókna úrlausnarefni.

Niðurstaða sérfræðinga liggur hins vegar fyrir í öllum meginatriðum og það er ekkert sem bendir til þess að hægt sé að setja upp búnað á Ísafjarðarflugvelli sem uppfylli þær kröfur sem þarf að gera til aðflugs og á það bæði við um þær kröfur sem flugmálayfirvöld gera og sömuleiðis þau flugfélög sem að sjálfsögðu þurfa að sætta sig við þann búnað sem flogið er eftir inn á flugvöllinn. Það eru engar líkur á því miðað við núverandi tækni að hægt sé að koma upp næturaðflugsbúnaði á Ísafjarðarflugvöll. Ég hef sagt sem svo að ekki sé hægt að afskrifa það um aldur og ævi því að tækninni fleygir auðvitað fram þannig að það verður að bíða betri tíma og huga að því í framtíðinni.

Þá kemur að því sem fjallað er einmitt um í flugmálaáætluninni núna: Hvað er þá til ráða? Það skiptir miklu máli að hægt sé að nýta flugið fyrir norðanverða Vestfirðina og þá hefur verið litið til Þingeyrarflugvallar. Ég undirstrika það og ég vil að það komi fram hér að minn vilji stendur til þess að hefja framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli, hann verði lagfærður og settur upp búnaður á honum þannig að hann nýtist sem best á móti flugvellinum á Ísafirði. Þess vegna er það að hér er gert ráð fyrir fjárveitingu til undirbúnings og hönnunar á Þingeyrarflugvelli og það er þá gert ráð fyrir því að lengja hann lítillega þannig að hann geti nýst, en að öðru leyti er sá flugvöllur ágætur. Í framhaldinu þarf að setja slitlag á flugbrautina og lýsingu þannig að flugbrautin nýtist til fullnustu. Þetta er sú áhersla sem ég vil leggja þar, en fyrst þarf að undirbúa þetta og finna bestu leiðir til þess að koma þeim framkvæmdum fyrir þannig að þær uppfylli þær ströngu kröfur sem þarf að gera til flugvalla. Þetta var varðandi Þingeyrarflugvöll og Ísafjarðarflugvöll.

[14:45]

Nokkuð var rætt um Reykjavíkurflugvöll. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdum við hann á þessu ári, allt umhverfi hans, og ganga frá eins og eðlilegt er. Við fórum rækilega yfir það við fyrri umr. þannig að ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það en við stefnum að því að framkvæmdum ljúki í haust og þá getum við með sanni sagt að flugvöllurinn sé fullbúinn og allt umhverfi vallarins frágengið að öðru leyti en hvað varðar flugstöð. Þá kemur að því sem hv. þm. Þuríður Backman velti fyrir sér í ræðu sinni um hvernig mætti bæta flugstöðvaraðstöðuna. Það liggur ekki fyrir en unnið hefur verið að því að leggja á ráðin um hvernig við komum upp samgöngumiðstöð, þjónustumiðstöð við flugvöllinn, sem gæti sinnt bæði innanlandsfluginu og sérleyfisbílaþjónustunni, og þá flutningum með rútum milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar og síðan annarri þjónustu við landsbyggðina á einum og sama stað. Tillaga frá nefnd sem hefur starfað að þessu er langt komin og ég vona að innan tíðar verði hægt að taka á því máli.

En það er auðvitað háð því hver framtíð Reykavíkurflugvallar verður. Við getum ekki lagt í milljarðafjárfestingu til viðbótar í þjónustuaðstöðu á Reykjavíkurflugvelli ef flugvöllurinn verður síðan að fara innan skamms. Það liggur fyrir að eftir 2016 verður hann að fara. Svo ég rifji það upp rétt eina ferðina: Þegar við tókum ákvarðanir og gerðum samninga við Reykjavíkurborg um uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar voru áætlanir okkar miðaðar við að fjárfestingin sem þarna væri lagt í yrði afskrifuð á 25 árum. Ég hef sagt það áður að ég efast um að menn hefðu tekið ákvörðun um að endurbyggja flugvöllinn hiklaust ef legið hefði fyrir að hann yrði ekki nýtanlegur nema í þennan stutta tíma. En hvað um það. Við þurfum að huga að þeim málum.

Ég vil síðan nefna að hv. þm. Þuríður Backman spurðist fyrir um hvort til greina kæmi að breyta gjaldtöku vegna millilandaflugs á alþjóðaflugvelli aðra en meginflugvelli okkar, Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll. Um þetta hefur engin ákvörðun verið tekin. Hins vegar þarf auðvitað að huga að því hvernig við gætum reynt að auka nýtingu Egilsstaðaflugvallar og Akureyrarflugvallar, ekki síst yfir jaðartímana á haustin og vorin og jafnvel vetur, og ef það gæti gerst með breytilegri gjaldtöku þarf að sjálfsögðu að skoða það. Í samgrn. höfum við verið að fara yfir þessa hluti en þarna þarf að gæta jafnræðis og gera ekki upp á milli flugfélaga. Þetta mál erum við sem sagt að fara yfir og skoða með það í huga að reyna að auka flugið á þessa velli.

Aðeins út af Reykjavíkurflugvelli aftur. Eins og hv. þm. þekkja og vita gerir nýsamþykkt aðalskipulag fyrir Reykjavík ráð fyrir einni flugbraut á Reykjavíkurflugvelli. Bæði formaður skipulagsnefndar og borgarstjóri hafa talað um að hægt sé að reka flugvöll með einni flugbraut. Það stangast hins vegar á við það sem sérfræðingar í flugöryggismálum og alþjóðastofnanir segja. Það kom fram hjá borgarstjóra nýverið að það hlyti að vera hægt að nýta Reykjavíkurflugvöll með einni flugbraut vegna þess að hann hafi ekki verið lokaður þegar framkvæmdir stóðu yfir og aðeins ein flugbraut opin. Til þess að þingmenn velkist ekki í vafa um hvað þarna var á ferðinni er nauðsynlegt að geta þess að það var yfir besta og blíðasta tíma ársins, hásumarið, sem var ein flugbraut í notkun, í stuttan tíma einungis, þannig að það er allt annað en að hafa flugvöllinn opinn allan ársins hring í alls konar veðrum. Það er óðs manns æði og fullkomið ábyrgðarleysi að ætla að bjóða upp á flugvöll með einni flugbraut og ætlast til þess að flugfélög taki þá áhættu --- sem auðvitað enginn gerir og enginn mundi gera --- sem fylgir því að nýta flugvöll hér við þessar aðstæður þar sem blæs úr ýmsum áttum, ekki bara á pólitíska sviðinu heldur sér náttúran um það einnig. Það er algerlega óásættanlegt og ómögulegt að gera ráð fyrir einni flugbraut. Það er einungis ávísun á að völlurinn verði lagður niður ef borgaryfirvöld ætlast til þess að það verði ein flugbraut, austur/vestur flugbrautin, sem þar að auki yrði þá að lengjast. Hana yrði að leggja yfir Suðurgötuna og út í Skerjafjörð með allri þeirri umhverfisröskun sem því fylgdi. Þarna verða allir aðilar að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna okkar Íslendinga sem búum í stóru landi og þurfum mjög á því að halda að nýta innanlandsflugið, og nýta það til hagsbóta fyrir notendur.

Þetta vildi ég undirstrika alveg sérstaklega en að öðru leyti þakka ég fyrir mjög málefnalegar umræður og góða meðferð í hv. samgn. á því mikilvæga máli sem flugmálaáætlun er.