Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 14:54:46 (8645)

2002-05-02 14:54:46# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, Frsm. meiri hluta GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004 frá meiri hluta samgn.

Sú vegáætlun sem hér er til umræðu er frábrugðin fyrri áætlunum eins og flugmálaáætlunin að því leyti að hún tekur eingöngu til eins árs. Ástæður þessa eru raktar í frhnál. meiri hluta nefndarinnar með frv. til laga um breytingar á laga\-ákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl., 385. mál, og vísast til þess sem þar segir, en samhliða því áliti leggur nefndin til breytingu sem veitir Alþingi heimild til að samþykkja vegáætlun í því formi sem hér er lagt til.

Í fjárlögum fyrir árið 2002 er gert ráð fyrir frestun stofnkostnaðarframkvæmda fyrir 1.519 millj. kr. á þessu ári. Við þessa fjárhæð bætist frestun framkvæmda á árinu 2001 að fjárhæð 700 millj. kr. Nefndin hefur tekið málið til skoðunar í samstarfi við Vegagerðina og þingmenn einstakra kjördæma og birtist niðurstaða meiri hluta nefndarinnar á frestun framkvæmda og sundurliðun útgjalda í brtt. meiri hlutans.

Samkvæmt niðurstöðu meiri hlutans deilist frestun á framkvæmdum milli einstakra landshluta þannig:

1. Suðurland 76 millj. kr.

2. Reykjanes 20 millj. kr.

3. Vesturland 79 millj. kr.

4. Vestfirðir 75 millj. kr.

5. Norðurland vestra 55 millj. kr.

6. Norðurland eystra 76 millj. kr.

7. Austurland 79 millj. kr.

8. Höfuðborgarsvæðið 329 millj. kr.

Að auki er lögð til frestun á framkvæmdum í einstökum flokkum framkvæmda, sbr. sundurliðun framkvæmda í brtt.:

1. Brúarframkvæmdir 60 millj. kr.

2. Jarðgangaframkvæmdir 1.150 millj. kr.

3. Orku- og iðjuvegir á Austurlandi 200 millj. kr.

4. Landsvegir 10 millj. kr.

5. Safnvegir 10 millj. kr.

Sundurliðun útgjalda samkvæmt brtt. meiri hlutans er í samræmi við þetta en jafnframt hefur verið tekið tillit til frestunar framkvæmda 2001 fyrir 700 millj. kr. og endurgreiðslu þeirra.

Í fylgiskjali með nál. er listi yfir skuldir og skuldbindingar sem mæta þarf á árunum 2003 og 2004. Þetta er nauðsynlegt með hliðsjón af því að vegáætlun sú sem hér um ræðir nær aðeins til eins árs.

Meiri hlutinn telur að stefna skuli að því að bjóða út fyrirhugaða breikkun á Reykjanesbraut í stærri áföngum en áætlað hefur verið til að auka hagkvæmni framkvæmdarinnar og draga úr slysahættu. Ljóst er að á móti verður að draga úr öðrum framkvæmdum á svæðinu. Endanleg ákvörðun Alþingis um þetta atriði bíður næsta hausts.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali.

Þetta er undirritað 18. apríl af meiri hluta samgn., þ.e. hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, Hjálmari Árnasyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Magnúsi Stefánssyni, Þorgerði K. Gunnarsdóttur og Sigríði Ingvarsdóttur.