Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 15:15:49 (8647)

2002-05-02 15:15:49# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, EOK
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Sú vegáætlun sem hér liggur fyrir er til staðfestingar á þeim niðurskurði til vegamála sem ákveðinn var á fjárlögum fyrir þetta ár. Það er mjög slæmt til þess að vita að við þurfum að grípa til þeirra aðgerða að skera niður í vegamálum. Því miður hefur það komið oft fyrir áður á Alþingi. Menn hafa ekki gegnum árin og áratugina sýnt það þrek sem þarf til að halda niðri rekstrarkostnaði ríkisins og þá er oftast gripið til þess ráðs, sem er ákaflega óheppilegt og vont, að skera niður opinberar framkvæmdir í samgöngumálum.

Ef við lítum á Ísland, stöðu þess og Íslendinga, getum við með sanni sagt að við stöndum fullkomlega jafnfætis öllum þjóðum heimsins að öllu leyti nema einu. Það eru íslensku vegirnir. Þar erum við langt á eftir öðrum þjóðum. Við þyrftum nánast að fara til Afríku til að finna sambærilega vegslóða og troðninga og enn eru til á Íslandi. Hér eigum við við það að etja að þetta er langsamlega brýnasta málið sem ríkisstjórn á hverjum tíma verður að vinna að, samgöngur Íslands, þá fyrst og fremst vegakerfið. Vegakerfið er líka fjárfesting sem skilar bæði Íslendingum í dag og Íslendingum á morgun ríkulegum ávexti. Það er mikill arður sem fylgir því að fjárfesta í vegagerð. Það er grunnforsenda þess að okkur takist að byggja þetta land og því verðum við að heita okkur því að reyna af fremsta megni að láta það ekki gerast aftur og aftur að í tímaþröng komumst við í þá stöðu að geta ekki sparað eins og við eigum að geta gert í opinberum framkvæmdum og hlaupum í að skera niður vegi, höggva þar sem síst skyldi. Þetta er mjög slæmt, herra forseti.

Ég þekki sérstaklega vel til á norðvesturhorni Íslands. Mér er sagt, og hef líka séð það, að á norðausturhorninu sé svipað ástand. Það er gríðarlega þýðingarmikið að taka þessi landsvæði til sérstakrar umfjöllunar og átta sig á því að það er upp á líf og dauða að tefla að koma þar vegasambandi við. Í Barðastrandarsýslu er t.d. ekkert vegasamband nema hluta úr ári. Við erum að vísu að fara að hefja þar miklar framkvæmdir núna, við Klettsháls, sem er mikið fagnaðarefni. Þegar sá vegur verður kominn erum við miklu nær því að geta horft fram á veginn varðandi það að Barðastrandarsýsla verði í vegasambandi við Ísland allt árið. Þó vantar verulega mikið á. Ég tel að veginn megi þó laga eða gera þetta nokkurn veginn kleift fyrir 250 millj. kr., og heildarframkvæmdir við það að gera heilsársveg eftir Barðaströnd, sem tryggir mjög góðar samgöngur sem er hægt að halda opnum allt árið, mundu kosta líklega milli 900 og 1.000 millj.

Fyrir um 15 árum stóðu samtök sveitarfélaganna á Vestfjörðum og þingmenn á Vestfjörðum, úr öllum flokkum, saman að því að menn gripu til þeirra samgöngubóta að koma á ferju yfir Breiðafjörð. Þessi ferja var barn síns tíma og skiljanlegt að menn vildu grípa til þeirra ráða vegna þess að menn töldu þá ekki í sjónmáli neinn möguleika á að gera heilsársveg um Barðaströnd. Þetta hefur gjörbreyst. Bæði hefur það fjármagn sem við höfum til vegagerðar aukist stórlega á undanförnum árum í takt við þær framfarir sem hafa orðið á Íslandi og það aukna fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar vegna mjög góðrar afkomu þessa þjóðarbús, og svo er líka tæknin í vegagerð stórlega breytt, bæði flutningatæknin og ég tala ekki um sprengjutækni, sem gerir þetta allt saman mjög vel mögulegt. Það er hægt að gera þetta á nokkrum árum.

Þessi ferja fullnægir alls ekki því sem hún þarf að gera í dag, langt frá því, enda hafa svo miklar breytingar orðið síðan þessar ákvarðanir voru teknar að það er engu saman við að jafna, t.d. hafa strandsiglingar mjög lagst niður en það sáu menn ekki fyrir þegar þeir áætluðu að þeir gætu leyst málið með þessari ferju. Hún fullnægir alls ekki þessum þörfum.

Ég ætla að ég fari nokkuð rétt með það að rekstrarstyrkir sem Vegagerðin veitir þessari ferju séu milli 50 og 60 millj. kr. á ári plús það að Vegagerðin þarf að standa undir vöxtum og afborgunum af skipinu. Það liggur alveg ljóst fyrir að fátt mundi vera jafnarðsamt fyrir Vegagerðina og að flýta því að leggja vegi um Barðaströnd og geta lagt þessari ferju. Við getum sparað tugi milljóna á hverju ári þegar við leggjum ferjunni, og að því eigum við að keppa. Menn verða að gera sér grein fyrir hversu hörmulegt ástand veganna er á Norðaustur- og Norðvesturlandi og hversu gríðarlega brýnt það er að það hafi forgang. Ég vil sérstaklega vara við hugmyndum sem eru að koma hér upp. Maður veit ekki alveg hvað menn eru að hugsa sem koma opinberlega fram, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórninni, og ræða um að leggja milljarða og aftur milljarða í einhverjar vegbrautir upp á Sprengisand á sama tíma og stór byggðarlög hafa ekki vegasamband. Menn verða að halda hugsun sinni í því sem við erum að gera og verðum að gera og eigum að láta hafa forgang.