Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 15:23:09 (8648)

2002-05-02 15:23:09# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Hún var kröftugleg, ræða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, að venju. Ég vildi þó aðeins brýna það sem mér finnst vanta í hana. Það er líklega ekki lengra síðan en 1972 sem menn óku á malarvegum þegar þeir skruppu út fyrir borgarmörk Reykjavíkur. Ég minnist þess sjálfur að 1975 var ekið undir Ingólfsfjalli á klöpp og malarvegi. Ég vil bara taka það fram að frá 1970 hafa gerst undur og stórmerki í vegagerð þrátt fyrir að ég sé sammála hv. síðasta ræðumanni um að vegagerð á Íslandi sé nokkuð aftur úr miðað við aðrar þjóðir. Ég get alveg tekið undir það með honum.

Það sem menn mega ekki gleyma er að mikið fjármagn hefur verið lagt til vegagerðar en betur má ef duga skal. Síðan koma jafnvel þingmenn og segja að hér hafi verið sett metnaðarfull vegáætlun sem sé búið að draga verulega úr af því að sala ríkisfyrirtækja gekk ekki fram sem skyldi. En látum gott heita. Ég get tekið undir að það þarf að horfa til hinnar dreifðu byggðar en það eru samt fleiri aðilar sem gera kröfur til ríkisins, til vegagerðar, og þá benda þeir á hvar umferðin er mest. Það þarf auðvitað að vinna að því líka.

Varðandi hálendisvegina er ég hjartanlega sammála hv. þm. um að auðvitað er mál málanna að koma þjóðvegi númer 1 í skikkanlegt horf. Þeir aðilar sem tala um hálendisvegina segja að við þurfum að búa betur að erlendum ferðamönnum sem koma hingað til landsins. Við erum ekki einu sinni búin að klára þjóðveg númer 1 áður en menn vilja fara að hoppa til fjalla til að ganga þar frá vegaframkvæmdum. Það er full ástæða til þess, ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að vel takist til um rétta niðurröðun og hvernig eigi að halda á því máli.