Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 16:35:47 (8663)

2002-05-02 16:35:47# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef allan skilning á því að hv. þm. hrökkl\-ist inn í Hafnarfjörð og frá Reykjanesbrautinni í málsvörn sinni. En það er óþarfi fyrir hann að endurtaka ræðu mína varðandi þau vandamál sem skapast og þá svakalega dýru framkvæmd sem um ræðir innan bæjarmarkanna í Hafnarfirði með gerð skurðs, gjáar og mislægra gatnamóta. Það er alveg ljóst og var markviss stefna jafnaðarmanna þegar þeir réðu ríkjum í Hafnarfirði að Reykjanesbrautin yrði innanbæjarvegur. Það var algerlega markviss stefna jafnaðarmanna og er enn og þar verði hæg og örugg umferð, en hraðaumferðin og þungaumferðin fari ofanvert við bæinn. Það hefur ekki breyst. En ef flokkssystkini hv. þm. vilja endilega lemja sig í gegnum miðjan bæinn á 100 km hraða með kostnaði upp á 6 milljarða kr., þá verður hann að bera ábyrgð á því. Það geri ég ekki. (Gripið fram í.) En yfir í Reykjanesbrautina því að menn sleppa ekki svona billega frá veruleika hlutanna: Ber að skilja það svo að hv. þm. sé með fyrirvara fyrir þeirri tillögu sem hér liggur fyrir? Hann hefur ekki fyrirvara þannig að hann með öðrum orðum samþykkir það þegjandi og hljóðalaust að verja eigi á næstu þremur árum 800 millj. kr. til breikkunar og tvöföldunar Reykjanesbrautar þegar verkið kostar 3 milljarða.

Þessi hv. þm. var á 800 manna fundi í Reykjanesbæ, í Stapanum, fyrir sex eða átta mánuðum þar sem hann lofaði því, og lét klappa fyrir sér, að hann mundi skaffa peninga til að ljúka verkinu á árinu 2005. Með þessu áframhaldi verður tvöföldun Reykjanesbrautar lokið árið 2012. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að berja sér á brjóst annað slagið en láta síðan stinga ofan í sig allt öðrum hlutum í hópi þingmanna Sjálfstfl. og Framsfl. Það þýðir ekkert að tala tungum tveimur. Það þýðir ekkert að bera kápuna á báðum öxlum. Menn verða að standa sig og horfast í augu við þennan veruleika. Það er veruleiki hlutanna.