Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 16:52:35 (8665)

2002-05-02 16:52:35# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GAK
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins að taka þátt í þessari umræðu um vegáætlun. Ég hef samt ekki hugsað mér að halda langa ræðu sérstaklega um þetta, þó í nokkrar mínútur.

Það sem mér finnst að þurfi sérstaklega að ræða til framtíðar er að taka frekari afstöðu til þess hvernig menn hugsa sér varanlegar framtíðarlausnir í vegagerð. Þegar ég tala um varanlegar framtíðarlausnir í vegagerð á ég m.a. við jarðgöng, brýr yfir firði eða þveranir fjarða þar sem það á við, þar sem því verður við komið og þar sem það telst hagkvæmt til framtíðar litið.

Auðvitað hefur umferðin á vegum landsins aukist mikið á undanförnum árum. Að mínu viti mun svo verða áfram. Ég tel að ekkert lát verði á því til framtíðar. Það er líka alveg ljóst að um leið og vegakaflar batna eða vegalengdir styttast þá hvetur það þá sem þurfa að ferðast til þess að nota þjóðveginn. Allt samanlagt gerir þetta það að verkum að umferðarþungi mun halda áfram að vaxa og vafalaust fer fólk eftir því sem vegalengdir styttast og þjóðvegir batna að setja það minna og minna fyrir sig að ferðast milli landshluta eða svæða á þjóðvegum landsins. Hér verður örugglega sama þróun og hefur orðið víða úti í Evrópu, að mönnum þyki ekki neitt tiltökumál, innan nokkurra ára hygg ég, þó að ferðalög af einhverjum orsökum, hvort sem það er vegna atvinnu eða annarra verkefna, taki eins og kannski eina klukkustund. Ég hygg að sú verði þróunin og við sjáum þegar vísbendingu í þessa veru.

Á Stór-Reykjavíkursvæðinu er fólk farið að velja sér búsetu þó nokkuð utan þess sem almennt hefur verið skilgreint sem Stór-Reykjavíkursvæðið, þ.e. Kjalarnes og suður fyrir Hafnarfjörð. Menn eru í raun farnir að tala núna um Akranes, jafnvel Borgarfjörð og austur á Hellu.

Í mínum huga mun þróunin örugglega verða sú, hygg ég, að innan mjög skamms tíma mun fólk sækjast eftir því að búa jafnvel nokkuð fjarri höfuðborginni ef það hefur á annað borð efni á því vegna launa sinna og atvinnu og ferðast til atvinnusvæðisins jafnvel þó að vegalengdin sé allt að 100 km. Þetta mun gerast með batnandi vegakerfi og auðvitað kallar það á, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, breytingar á vegakerfinu inn til höfuðborgarasvæðisins, úr báðum áttum vafalaust, eftir Reykjanesbrautinni, austan frá Hveragerði, Hellisheiði og síðan Vesturlandsvegi. Þetta hlýtur að liggja nokkuð ljóst fyrir eins og þróunin hefur verið. Engin líkindi eru til þess að þróunin hér á landi verði öðruvísi en hún hefur orðið erlendis, þ.e. með batnandi vegakerfi og betri og hraðskreiðari bílum. Það fer venjulega saman. Ef vegirnir verða nógu góðir og tvær aðskildar akreinar í báðar áttir þá geri ég ráð fyrir því að það komi að því að hér á landi að leyfður verði hámarkshraði umfram 90 km. Ef við værum með alvöruvegakerfi eða alvöruhraðbrautir sé ég ekki hvers vegna hraði á Íslandi mætti ekki vera 120 km eins og víða erlendis, þ.e. ef vegakerfið á annað borð býður upp á það. Auðvitað hlýtur að koma að því einhvern tíma í framtíðinni að svo verði. Ef við horfum til þess að þannig verði það þá stækka svæðin þar sem menn treysta sér til þess að stunda atvinnu. Þetta vildi ég sagt hafa almennt um suðvesturhornið.

Auðvitað mun það líka verða svo úti á landi að þegar vegalengdir styttast og vegir verða öruggir þá hverfur sú hugsun að langt sé á milli staða og menn fara að stunda atvinnu, þjónustu, skemmtan og menningartengsl á milli byggðakjarna og byggðastaða. Þetta sést mjög vel á Vestfjörðum t.d. eftir að Vestfjarðagöngin komu.

Þá er ég kominn norður á firði sem ég vildi aðallega ræða um þó að ég kæmi að málinu með þessum hætti. Auðvitað mun sú þróun líka verða annars staðar á landinu að ef vegirnir batna mun fólk ekki setja það fyrir sig að ferðast einhverja kílómetra til og frá vinnustað eða til og frá þeim stað sem það hyggst sækja sér þjónustu eða afþreyingu ef því er að skipta. Í sambandi við það vil ég vekja athygli á því að á landsvæði eins og Vestfjörðum verða varanlegar lausnir, sem ég kalla, víða ekki í sjónmáli nema því aðeins að teknar verði um það ákvarðanir að fara undir fjöllin á nokkrum stöðum. Þegar hefur verið sett inn á jarðgangaáætlun að einhvern tíma í framtíðinni, vonandi sem fyrst, muni koma jarðgöng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð.

[17:00]

Núna erum við sennilega um 35 mínútur að keyra milli Ísafjarðar og Þingeyrar. Ef göng koma úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð erum við orðin 35 mínútur vestur í Mjólká, fyrir þá sem ferðast hafa um Vestfirði. Það verður orðin nánast sama vegalengd að fara örlítið inn Dýrafjörðinn og í gegnum fjallið og vestur í Mjólká eins og að keyra út Dýrafjörðinn að vestanverðu og út á Þingeyri. En þá eigum við auðvitað eftir einn fjallveg til að tengja saman norður- og suðursvæði Vestfjarða, Dynjandisheiðina. Ég hygg samt að með lagfæringum á veginum þar og öðruvísi aðkomu upp á heiðina, sérstaklega að norðanverðu, megi með góðu lagi halda Dynjandisheiðinni akfærri yfir vetrarmánuðina. Örugglega er Dynjandisheiðin snjóléttara svæði en t.d. Steingrímsfjarðarheiðin. Ég held að á því leiki ekki nokkur vafi. En það kostar örugglega að breyta vegarstæðinu eins og það er í dag og fara annars staðar upp, upp með Svínánni að vestanverðu, koma veginum undan fjallshlíðinni og breyta auðvitað vegarstæðinu á heiðinni að öðru leyti, eða jafnvel fara út fyrir Dynjandisvog og annars staðar upp á heiðina, vestar og sunnar, þ.e. ef niðurstaðan er sú að fara þar áfram yfir fjöllin. Eins og menn þekkja er miklu snjóléttara á sunnanverðum Vestfjörðum en norðanverðum. Munar þar bara þó nokkuð miklu. Jafnvel ef menn bera saman tvær leiðir í Ísafjarðardjúpi, annars vegar Steingrímsfjarðarheiði og hins vegar Kollafjarðarheiði, þó að þar sé eingöngu sumarvegur í dag og ekki nema jeppafær, eru minni snjóalög eftir því sem vestar kemur þótt ekki sé lengra á milli en á þessum tveimur stöðum.

Ég var búinn að ræða fyrr um flugmálaáætlun og kom þá örlítið inn á vegagerð, m.a. inni í Djúpi. Ég ætla ekki að endurtaka það en vil víkja örstutt að vegagerðinni um Barðaströnd. Þar er núna fyrirhugað að fara í verulegar framkvæmdir og lagfæringar á veginum, og var ekki vanþörf á. Þar ætlum við að fara með nýjan veg yfir Klettsháls. Eftir því sem ég kemst næst mun vegurinn liggja upp að norðanverðu á mjög svipuðum stað og hann liggur í dag, örlítið innar á fjallinu, yfir það og síðan niður fjallshlíðina hinum megin.

Því miður er Klettshálsinn, þótt ekki sé hann hár, bölvað veðravíti. Það skefur eftir honum úr norðaustan- og suðvestanáttum þannig að mér finnst það ekki nein sérstök lausn að hafa tekið þá ákvörðun að fara yfir Klettshálsinn. En við það verður auðvitað að búa um einhver ár. Það er búið að taka ákvörðun um það. Ég hefði talið miklu nær að fara inn í dalina beggja vegna, inn í Skálmardal að vestan og síðan inn í dalinn sem gengur norðvestur úr botni Kollafjarðar og fara þar undir Klettshálsinn, t.d. í 100 eða 150 metra hæð yfir sjó. Þá held ég að menn hefðu verið algerlega lausir við hann sem farartálma til langrar framtíðar. Það verður örugglega gert einhvern tíma síðar. Ef svo fer að vegurinn yfir Klettsháls reynist mjög erfiður yfirferðar eða ekki fær kemur að því innan ekki margra áratuga að menn leysa þetta mál.

Síðan eru eftir á Barðaströndinni aðrir áfangar til að tengja suðurfirði Vestfjarða við þjóðvegakerfi landsins. Það er mjög brýnt að því verði fylgt fram.

Eins og margir vita, og samgrh. örugglega, hafa komið margar hugmyndir um það með hvaða lagi eigi að leggja veginn um Barðaströndina, m.a. um að fara með veginn út á nes og fara yfir firðina, jafnvel með einni brú. Mönnum hefur þótt það svolítið glannalegt. Það gæti verið mjög dýr framkvæmd. En það er ekki spurning að ef menn færu þá leið að fara frá Reykhólum og með veginn þar beint yfir fyrir firði væru þeir að gera mikla samgöngubót og alveg geysilega styttingu. Mér finnst að sú hugmynd eigi virkilega að koma til skoðunar, þá kannski líka vegna þess að sá möguleiki sem annars er, þ.e. að fara þvert fyrir tvo firði og síðan yfir Þorskafjörð, er hæpinn. Menn hafa bent á að örðugt gæti reynst að fara þá leið vegna náttúruverndarsjónarmiða og ef menn ætla að vernda fjöruna og lífríkið í þessum fjörðum. Það kæmi hins vegar ekki til álita, finnst mér, ef farið væri þvert yfir á Reykhóla. Þá tel ég að við værum laus við að fara út fyrir firðina en hefðum þá sumarveg, ef menn vildu, með eitthvað svipuðu sniði og hann er í dag þó að sjálfsagt þyrfti að laga þarna eins og eina brekku sem allir þekkja sem hafa farið þar um. Hún er ansi brött og kröpp.

Þetta vildi ég sagt hafa. Síðan þarf að tæpa á fjöldamörgu öðru. Ég vil aðeins í lokin víkja að veginum norður Strandir. Ég tel að vel sé hægt að leggja veg norður Strandir þannig að hann geti orðið fær meginhluta ársins, að öllu eðlilegu. Vegurinn liggur að stærstum hluta með ströndinni nema þegar kemur inn í Veiðileysufjörð, þá fer vegurinn inn í fjarðarbotn og það sem meira er, hann fer algerlega upp í hlíðina og hangir utan í hlíðinni þar sem snjóþyngst er. Þetta veit ég að samgrh. veit og þekkir. Með breyttu vegarstæði þar væri örugglega hægt að færa veginn verulega undan þeim snjóþyngslum sem þar eru og með uppbyggingu yfir háls og niður í Reykjarfjörð. Ég tel því að vel megi laga þann veg til framtíðar þannig að hann geti orðið vetrarfær, og að með eðlilegum snjómokstri megi halda þeim vegi færum. Samt eru auðvitað ákveðin svæði sem þarf virkilega að huga að þegar verið er að lagfæra þann veg. Til framtíðar litið hlýtur þó sú að verða raunin að vegurinn norður á Strandir verði einnig lagfærður þannig að hann geti orðið fær meginhluta ársins og honum megi halda opnum með eðlilegum snjómokstri einhverja daga í viku.

Þetta held ég að séu brýnustu verkefnin sem við stöndum frammi fyrir á Vestfjörðum fyrir utan þau sem ég vék að í fyrri ræðu minni þegar ég blandaði saman flugmálaáætlun og vegagerð í Djúpi.

Að endingu vil ég hins vegar segja að miðað við umferðarþungakannanir yfir Þorskafjarðarheiði finnst mér, hæstv. samgrh., að ekki verði undan því vikist að gera einhverja bragarbót á þeirri heiði, a.m.k. setja í hana tvö, þrjú ræsi og taka af eina eða tvær stórhættulegar beygjur. Ef vegurinn yrði hækkaður upp um einn metra þar sem ræsin yrðu sett í hann yrði þessi vegur örugglega miklu fyrr fær á vorin og miklu lengur fram eftir hausti.

Það er ekkert launungamál að hinn almenni ferðamaður sem ferðast yfir sumartímann á Vesturlandi annars vegar og norður á Vestfirði hins vegar ekur geysilega mikið um Þorskafjarðarheiðina þótt vegurinn þar sé nánast fjallagata. Það er samt 70 kílómetra hámarkshraði á honum ef ég veit rétt þó að það sé ekki nema 90 kílómetrar þegar komið er niður í Ísafjörðinn á nýlagðan veg með tveimur akreinum, þ.e. einni í hvora átt. Maður furðar sig oft á þessum reglum okkar, að mönnum leyfist að aka svo greitt, þó að mér sé fullkomlega ljóst að auðvitað eiga menn að keyra eftir aðstæðum. Svona eru reglurnar samt og menn þurfa að hafa sig alla við til að keyra á 70 km hraða yfir Þorskafjarðarheiði, og þarf dálítið lag til. Það tekst auðvitað stundum þegar vegurinn er nýheflaður. Hins vegar er mjög létt verk að keyra á 90 km hraða niður í Ísafjörð, og þarf lítið að hafa fyrir því. Ég segi þetta vegna þess að mér finnst stundum gæta svolítils ósamræmis í því hvernig við tölum um hraða þó að hann eigi auðvitað alltaf að vera miðaður við aðstæður. Ég verð að segja að mönnum finnst kannski svolítið skrýtið að hraðinn geti einungis aukist um 20 km frá því að koma ofan af Þorskafjarðarheiði og niður á malbikaðan veginn, ekki síst þegar menn sjá inn og út fjörðinn beggja megin og vita að það er ekki einn einasti bíll á ferðinni. Þetta vekur upp annað sem ég hef stundum velt fyrir mér: Er ásættanlegt eða eðlilegt að velta upp þeirri spurningu að hraði á þjóðvegum landsins geti verið annar á sumrin en á veturna, og hann fari eftir gerð veganna miðað við umferðarþunga? Þetta er nokkuð sem mér finnst að við getum spurt okkur. Þó að það sé auðvitað álitamál með tilliti til slysahættu og annars hversu mikið við megum auka hraðann er það ekki spurning að þær bifreiðar sem við notum í dag eru miklu öruggari en þær sem menn notuðu fyrir 25--30 árum. Ég held að það fari ekkert á milli mála og það vita sjálfsagt allir sem keyra bíla. Við getum því alveg talað af hreinskilni um að 70 km hraði fyrir 30 árum er örugglega eins og 90 km hraði í dag miðað við aksturseiginleika bifreiðanna. Það breytir ekki því að það er nánast stórhættulegt að vera á 90 km hraða þegar akreinarnar eru ekki aðskildar. Það er ekki langt á milli tveggja bíla sem mætast á 90 km hraða. Lítið þarf út af að bera og af því hljótast auðvitað stórslys ef svo illa fer að menn rekast á á þeim hraða.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti.