Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:13:16 (8666)

2002-05-02 17:13:16# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:13]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar umræður um vegáætlun fyrir árið 2002. Alveg sérstaklega þakka ég hv. samgn. fyrir ágæta vinnu og tillögur sem hér liggja fyrir.

Ég má til með að byrja á því að segja að ég sakna þess að hv. 5. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, skuli ekki vera hér í salnum og sömuleiðis hv. 6. þm. Reykn., Guðmundur Árni Stefánsson. Þessir ágætu þingmenn fluttu ræður sem vöktu athygli mína. Og fyrir hvað skyldi það vera? Hér hafa verið fluttar margar góðar ræður í dag. En þær vöktu athygli mína fyrir það hvaða breyting hefur orðið á málflutningi hv. þingmanna Samfylkingarinnar sem eru talsmenn í samgöngumálum hér í dag frá því sem verið hefur með hv. þm. Lúðvík Bergvinsson í broddi fylkingar. Ég vil vekja athygli á þessu alveg sérstaklega því að þessir hv. þingmenn hafa flutt hér málefnalegar ræður um samgöngumál. Það sama verður hins vegar ekki sagt um hv. 6. þm. Suðurl. þegar hann hefur fjallað um samgöngumál á þessum vetri.

[17:15]

Vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er gengin í salinn endurtek ég þakkir mínar fyrir málefnalegar umræður af hálfu Samfylkingarinnar. Það bregður nýrra við þegar talsmenn Samfylkingarinnar eiga í hlut og verið er að fjalla um samgöngumál.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson var síðasti ræðumaður á undan mér og fór yfir mörg athyglisverð efni. Eitt af því vildi ég taka út úr sem ég held að þurfi að gaumgæfa mjög rækilega, þ.e. þetta með að auka ökuhraðann á þjóðvegum landsins. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétta leiðin í kjölfar þess að við samþykkjum hér sérstaka umferðaröryggisáætlun til næstu ára (GAK: Ég var að tala um tvær brautir í báðar ...) já, í þeim tilgangi að draga úr slysum. Ég held að það sé alveg ljóst að við þurfum að huga mjög vel að umferðaröryggismálunum og það gerum við að sjálfsögðu með uppbyggingu vegakerfisins alveg sérstaklega.

Að öðru leyti get ég verið sammála hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni um mjög margt af því sem hann sagði um þörf á uppbyggingu vegakerfisins á Vestfjörðum, bæði um Barðaströndina, í Djúpi og víðar. Sannarlega er af mörgu að taka þegar við fjöllum um vegakerfið á Vestfjörðum sem um margt er mjög á eftir. Það þarf mikla fjármuni til að ná árangri og að sjálfsögðu þarf að taka tillit til þess.

Hv. þm. Jón Bjarnason fór yfir vegáætlun og þær tillögur sem eru til umfjöllunar og hélt, rétt eina ferðina enn, ræðu um að ekki mætti tengja saman framkvæmdaáform í vegagerð og tekjur af sölu ríkiseigna. Mér finnst hv. þm. Jón Bjarnason stundum tala eins og fjármunum rigni af himnum ofan. Við höfum takmarkaðar tekjur. Við höfum látið meira fé í samgöngumál og vegamál á þessu kjörtímabili en nokkru sinni áður. Það er raunveruleikinn. Við höfum hins vegar gert ráð fyrir því að í þeim tilvikum þegar við seljum ríkiseignir nýtum við þær til að lækka skuldir í fyrsta lagi, og í annan stað höfum við lagt áherslu á að nýta fjármuni vegna sölu ríkiseigna til uppbyggingar vegakerfisins. Það held ég að sé af hínu góða, hið besta mál. Ég held að það sé mjög skynsamleg fjárfesting að færa þannig ríkiseign úr einu formi í annað og þá í afar arðbært form því að framkvæmdir í vegagerð eru í langflestum tilvikum mjög arðbærar framkvæmdir.

Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um frestun framkvæmda við brúargerð. Ekki er miklu til að dreifa í þeim efnum. Það er að sjálfsögðu sameiginleg ákvörðun þingmanna viðkomandi kjördæmis, væntanlega á grundvelli tillagna frá Vegagerðinni, sem slík áform eru uppi. En við höfum verið að gera stórátak í því að byggja upp brúarkerfið í landinu og fækka í þjóðvegakerfinu einbreiðum brúm sem eru miklar slysagildrur. Samkvæmt þessari áætlun sem hér er til umfjöllunar eru mikil áform um það.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson minntist á að af mörgu er að taka, að mikil þörf er fyrir fjármuni til uppbyggingar vegakerfis og slæmt að þurfa að draga úr framkvæmdum. Það er alveg ljóst að ég er hv. þm. og varaformanni fjárln. innilega sammála í því. En þetta er hinn kaldi veruleiki sem við stjórnmálamenn þurfum að glíma við. Byr verður að ráða í þessum efnum. Verkefni okkar núna er að fella vegáætlun að fjárlögum. Það er það sem ekki verður undan vikist. Ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að erum við enn langt á eftir í vegamálum að ýmsu leyti. Við höfum samt verið að vinna stórvirki í þeim síðustu áratugi, vil ég segja, og fram undan eru áform, m.a. samkvæmt þeirri vegáætlun sem við erum að fjalla um í dag.

Hv. þm. nefndi ferjurekstur. Auðvitað á að leggja áherslu á uppbyggingu vegakerfisins um Barðaströnd og þar er af mörgu að taka eins og komið hefur fram í þessari umræðu. En ég tel að á meðan ferja er rekin á Breiðafirði til að þjóna Vestfirðingum þurfi að gera það myndarlega. Ég hef lagt áherslu á að nýta þurfi ferjuna til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins og aðra þá sem nota hana þannig að flutningaþjónusta inn á svæðið og út af því sé sem allra best. Á meðan ferju er þarna yfirleitt þörf þarf að standa þannig að málum. Þess vegna þurfum við að huga að breytingum á rekstri hennar með það fyrir augum að bæta þjónustuna. Það er nauðsyn vegna þess að við eigum svo langt í land, bæði með tenginguna milli suður- og norðurfjarða og að ljúka framkvæmdum á veginum um Barðaströnd. Það verður því ekki undan því vikist að reka þessa ferju enn um sinn.

Hálendisvegi bar á góma og ég ætla að fara nokkrum orðum um þá. Ég fagna því að fram fari umræða um áform um framkvæmdir við hálendisvegi. Þær umræður hafa komið í þingið, m.a. vegna þáltill. um hálendisveg sem mundi liggja skemmstu leið milli höfuðborgarsvæðisins, væntanlega upp úr Borgarfjarðardölum, og til Akureyrar. Með sama hætti hefur að undanförnu orðið umræða í kjölfar þess að í tillögu stýrihóps, sem vann skýrslu og tillögur um samræmda samgönguáætlun, er fjallað um hálendisvegi. Þar er gerð tillaga að grunnneti samgöngukerfisins, hvaða vegir teljist til þessa grunnnets, meginumferðarnets vegakerfisins. Þar eru nefndir til sögunnar fjórir hálendisvegir sem hluti af þessu grunnneti. Út af fyrir sig eru ekki gerðar tillögur um að á næstu 12 árum eigi að byggja þessa hálendisvegi upp sem hraðbrautir enda teldi ég það algerlega af og frá. Það yrði framkvæmd upp á tæpa 10 milljarða kr. ef úr yrði, þ.e. vegur um Kaldadal yfir til Húsafells, vegur um Kjalveg, Sprengisandsleið og Fjallabaksleið nyrðri.

Áður en teknar eru ákvarðanir um uppbyggingu þessara leiða sem hraðbrauta held ég að mikil umræða þurfi að fara fram og mikið samráð við þá sem vinna að ferðamálum og markaðssetningu landsins sem ferðamannalands fyrir utan það að slíkar framkvæmdir þyrftu að sjálfsögðu að fara í umhverfismat. Miðað við hversu strangar kröfur eru gerðar í byggð er ég ekki alveg sannfærður um að allt næðist fram hvað varðar framkvæmdir uppi á hálendinu þegar kæmi að því að byggja hálendisvegi upp sem hraðbrautir. Ég tel að við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á að byggja upp vegakerfið í byggð og inn til landsins þar sem umferðin er mest en jafnframt þurfum við að sjálfsögðu að bæta þessa hálendisvegi skipulega og leggja á ráðin um það í þeirri samgönguáætlun sem verður til umfjöllunar í þinginu í haust. Þetta vildi ég segja um hálendisvegi og undirstrika að af minni hálfu eru ekki uppi tillögur um að þessar fjórar leiðir verði á næstunni byggðar upp sem hraðbrautir, hvaða ákvarðanir sem Alþingi kann að taka að öðru leyti um aðrar hálendisleiðir. Auðvitað þarf samt að fjalla um þetta allt saman og gera sér grein fyrir því hvaða áfanga á að taka og hvaða leiðir á að velja til að tryggja sem best uppbyggingu vegakerfisins í landinu. Þetta er það sem ég vildi gera að umtalsefni í framhaldi af því sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði um uppbyggingu hálendisvega.

Hins vegar vil ég segja að ég tel að við þurfum að skoða þessa kosti alla, gera áætlun um það hvernig við eigum að stytta leiðir á milli landshluta og að sjálfsögðu er ég reiðubúinn til að leggja á ráðin um það og fela Vegagerðinni að vinna að slíkum verkefnum, hvernig við getum byggt upp vegakerfið þannig að það nýtist okkur sem best og verði sem hagfelldast í bráð og lengd.

Hv. þm. Þuríður Backman ræddi nokkuð um framkvæmdir við jarðgöng, nauðsyn þess að verktökum yrðu boðnir margir kostir og að fráviksheimildir yrðu í útboðum. Um þetta er ekki verið að fjalla núna þannig að ekki kemur til kasta þingsins að taka afstöðu til þess með hvaða hætti útboð eiga sér stað í einstökum verkefnum.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson velti fyrir sér hvaða áætlun yrði í gildi á næstunni. Það er ekki óeðlilegt. Við erum að fjalla um árið í ár. Í gildi er hins vegar vegáætlun til fjögurra ára, og nær þannig til lengri tíma. Til þess að taka af öll tvímæli fylgir með brtt. meiri hluta samgn. listi yfir þau verk sem eru í gangi og gert er ráð fyrir að bjóða út. Það á ekki að fara á milli mála hvaða verk við gerum ráð fyrir að vinna á þessu ári. Sum þeirra verka þarf að bjóða út á þessu ári og ganga inn í næsta ár þannig að gildandi fjögurra ára áætlun gildir að sjálfsögðu með þessari breytingu sem varðar árið í ár. Síðan þekkjum við að langtímaáætlunin frá 1998 er að sjálfsögðu í fullu gildi að því marki sem fjögurra ára áætlunin hefur ekki yfirtekið hana.

Hvað varðar Reykjanesbrautina í gegnum Hafnarfjörð sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi liggur alveg ljóst fyrir að við gerum ráð fyrir að bjóða þá framkvæmd út á þessu ári. Þar er hægt að taka nokkuð stóran áfanga. Til eru allnokkrir fjármunir sem hafa safnast upp á síðasta og þessu ári. Um er að ræða býsna snúið verkefni, að leggja brautina þarna í gegn, og að sjálfsögðu hafa bæði Vegagerðin og bærinn komið að. En ég geri ráð fyrir því að í haust, þegar samgönguáætlunin verður lögð fram, verði tekin afstaða til þess hvernig við fjármögnum á næsta og þarnæsta ári þessa framkvæmd í heild sinni. En það verður, og gert er ráð fyrir því að bjóða verkið út á grundvelli þeirra fjármuna sem við höfum nú þegar, og þá verður að sjálfsögðu ekki undan því vikist að gera ráð fyrir því að á næsta ári verði tekið frá fjármagn. Þess vegna er þetta fskj. með brtt. meiri hluta samgn. til að leggja áherslu á að þetta verk er inni.

[17:30]

Um ofanbyggðarveg hefur ekki náðst samkomulag þannig að hann er ekki á áætlun hjá okkur. Hann bíður síns tíma. Hann bíður þess að landsmönnum fjölgi, umferðin aukist og að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu komi sér saman um hvernig þessi leið eigi að byggjast upp.

Hins vegar er alveg ljóst að skipulag þessara umferðarmannvirkja í gegnum höfuðborgarsvæðið hefur leitt til þess að áætlaður kostnaður er mun meiri við þessi verk en við höfðum gert ráð fyrir í þeim áætlunum sem við vinnum að. Það er vegna þess að gerðar eru miklu meiri kröfur til þessara framkvæmda en áður var, bæði vegna umhverfismála og vegna þess að gönguleiðir og frágangur allur er miklu kostnaðarsamari en við höfðum gert ráð fyrir.

Hv. þm. fjallaði nokkuð um mislæg gatnamót á Reykjanesbrautinni. Ég lít svo á að það séu gagnlegar ábendingar fyrir okkur, ekki síst fyrir þingmenn Reykn. sem þurfa að taka afstöðu til skiptingar þeirra fjármuna sem koma inn á svæðið. Vel kann að vera að hægt sé að taka þetta í einhverjum áföngum og það verður skoðað.

Hv. þm. talaði um að hér stæðum við frammi fyrir þessum breytingum vegna þess að samgrh. hefði tapað í fjárlagaslagnum í fyrrahaust. Ef við lítum aðeins á það vil ég benda hv. þm. á að líta á skýrslu samgrh. um framkvæmd vegáætlunar árið 2001. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ætti að huga að þeirri skýrslu einnig vegna þess að þar kemur fram, þegar gerð er grein fyrir framlögum til vegamála á föstu verðlagi ársins 2001, að aldrei hefur meira verið lagt til vegamála, og þá er ég að tala um á föstu verðlagi, en á þeim tíma sem núv. samgrh. hefur setið. Ef við dyttum nú í það að bera þetta saman við önnur kjörtímabil, t.d. tímabilið 1987--1992 þá er þess að geta að á (Gripið fram í.) árunum 1987--1988 voru þetta 6,8 og upp í 7 milljarðar á ári. Á árinu 1999 voru þeir 9,9, 10,3 árið 2000 og 11,4 árið 2001. Þeir eru enn fleiri á þessu ári þrátt fyrir þessar frestanir. Ég vil því bara vekja athygli hv. þingmanns á hinni miklu sókn á þessari tíð og því að miklu meiri fjármunir hafa farið til samgöngumála en nokkru sinni áður. Það er af hinu góða og ég á von á því að hv. þingmenn geti fagnað því.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var hins vegar að vekja athygli á því að kökunni væri illa og misjafnt skipt. Þetta er ræða sem við þekkjum afskaplega vel. Mjög er alið á því að höfuðborgarsvæðið verði út undan. Ef við lítum á það úr hvaða áttum þessar tekjur koma þá skiptast hinar mörkuðu tekjur á milli bensíngjalds og þungaskatts. Það þekkja nú ýmsir sem taka þátt í umræðunni um dreifbýismálin að hann þykir allnokkur skattur, þ.e. þungaskatturinn sem leggst á alla flutninga út á land, af landi og hingað suður. Meginflutningur á fiski er af landsbyggðinni og út um hafnir hér. Allt kostar þetta fjármuni og er partur af útgjöldum landsbyggðarinnar.

Ef við lítum á þetta þá er bensíngjaldið á árinu 2001 5,4 milljarðar á meðan þungaskatturinn sem að verulegum hluta kemur af flutningum og akstri út á land, 4,8 milljarðar. Ég held því að þegar hv. þm. tala um að aðalþunginn af tekjum Vegasjóðs komi frá bíleigendum á höfuðborgarsvæðinu sé það ekki alls kostar rétt. Þetta er nokkuð sem þarf að huga að. Auðvitað er vandi okkar þingmanna sá að skipta þessum fjármunum Vegasjóðs milli verkefna miðað við þá miklu þörf sem vissulega er til staðar. Þá get ég komið aðeins að því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi.

Það er hárrétt hjá þingmanninum að vegáætlun þarf að taka tillit til samþykktar Alþingis sem birtist í umferðaröryggisáætlun. Vegagerðin leggur mjög mikla áherslu á að taka einmitt tillit til þess. Við höfum samþykkt umferðaröryggisáætlun með mjög háleitum markmiðum og þau áform birtast í tillögum Vegagerðarinnar um fækkun einbreiðra brúa, um að breikka vegi, lækka brekkur, leggja slitlag á vegi o.s.frv. og leggja betri vegi í mesta þéttbýlinu, koma á mislægum gatnamótum og greiða úr flækju umferðarinnar. Þetta er allt saman partur af þeim skyldum sem umferðaröryggisáætlunin leggur okkur á herðar.

Hv. þm. nefndi að vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu annaði ekki umferðinni. Á vissum tímum dagsins og sólarhringsins þrengir nokkuð um þar. En ég held að hvergi nærri sé hægt að segja að það sé stórfellt vandamál. Því miður verður mikið af alvarlegu slysunum úti á þjóðvegunum á mjóum og erfiðum vegum. Ég held því að það sé ofsögum sagt að mestu slysagildrurnar eða vandræðin í vegakerfinu séu á höfuðborgarsvæðinu.

Engu að síður er þar af mörgu að taka. Hv. þm. nefndi gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og spurði um afstöðu mína til framkvæmda þar. Ég vil hvetja hv. þm. til þess að fylgjast með því sem ég segi núna. Ég hef áður lýst þeirri afstöðu minni hér úr þessum ræðustól að ég tel að framkvæmdir við mislæg gatnamót eða viðunandi úrlausn á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar sé afar mikilvæg og hljóti að vera framarlega í röð þegar við endurskoðum vegáætlunina í sumar og leggjum fram tillögur í haust. Það er óhjákvæmilegt. Hins vegar hefur ágreiningur verið innan borgarkerfisins um það, eða hjá stjórnmálamönnunum í borginni, hvaða lausnir ætti að velja þar. En nú hillir undir niðurstöðu og vonandi verður ekki mikil breyting á því.

Hins vegar hafa komið upp tillögur sem eru alveg nýjar og út af fyrir sig mjög athyglisverðar, þ.e. að tengja inn á þessi gatnamót þjónustustöð eða skiptistöð almenningssamgangna, þ.e. að strætisvagnarnir yrðu þarna neðanjarðar með þjónustustöð. Ef það ætti að verða þá breytir það náttúrlega mjög miklu og yrði að skoða það sérstaklega. Ég hef raunar ekki séð neinar tillögur aðrar en þær sem komu frá forsvarsmönnum Strætisvagna Reykjavíkur. En þetta er eitt af því sem þarf að skoða auk þess sem mótmæli hafa borist frá eigendum Kringlunnar sem sjá ekki að mislæg gatnamót verði lausn á þessu mikla umferðarhorni. Þetta þarf allt saman að skoða áður en við leggjum á ráðin um framkvæmdir, en þetta eru gatnamót sem óhjákvæmilegt er að fara í framkvæmdir við.

Hv. þm. spyr hver afstaða ráðherra sé til Sundabrautar og hvert arðsemismat þeirra framkvæmda sé. Ég hef svarað fyrirspurnum hér um Sundabrautina. Í langan tíma hefur undirbúningur staðið vegna þeirrar mikilvægu framkvæmdar að tengja þessi byggðasvæði, Grafarvog og þar vestur af. Tillögur um nokkrar leiðir hafa verið lagaðar fram. Mér skilst að lengi vel hafi embættismenn borgarinnar verið sammála vegargerðarsérfræðingunum um að skynsamlegast væri, ekki síst þegar litið er til kostnaðar, að fara svokallaða landmótunarleið, sem er innri leiðin, fremur en að fara á hábrú langt úti á sundunum nánast og skapa þá óvissu fyrir höfnina. Það er alveg ljóst að taka yrði tillit til Sundahafnarinnar. Svo kann hins vegar að vera að menn sjái svo langt að gera ráð fyrir því að byggja þurfi nýja vöruhöfn vegna Sundabrautarinnar ef þessi brú kæmi. En hvað um það.

Þessir kostir liggja ekki fyrir enn þá. Mér hefur ekki gefist tækifæri til að taka afstöðu til þessara tillagna vegna þess að þær liggja ekki formlega fyrir. Það þarf einmitt að fara yfir arðsemismat beggja þessara leiða. Talið er að það sé mikill kostnaðarmunur, það geti verið á bilinu 5 milljarðar sem ... (GÁS: Björn Bjarnason ... undir alla peningana.) Já, hv. þm. veit að þeir vaxa á trjánum hjá okkur, peningarnir. (GÁS: Björn heldur það.) Milli þessara tveggja leiða þarf að velja og það þarf að leggja mat á arðsemi þessara framkvæmda. Þar verður af mörgu að taka auk þess sem endanlegt umhverfismat þarf auðvitað að liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar.

Niðurstaða er sem sagt ekki fengin enn þá en ég tel að sjálfsögðu að miklu máli skipti hver afstaða borgaryfirvalda sé til þessara leiða. Ég er svo mikill sveitarstjórnarmaður í mér að ég tel það að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Hins vegar geta sveitarstjórarmenn ekki sent reikning til ríkisins hvað sem verkið kostar. (Gripið fram í.) Ég held að það hljóti að vera á ábyrgð okkar þingmanna að taka einhverja afstöðu til (Gripið fram í.) slíkra tillagna.

En hvað um það. Ekki er tímabært að lýsa skoðunum á þessum tveimur leiðum vegna Sundabrautarinnar. Þegar þar að kemur mun ekki standa á mér að taka afstöðu til þeirra.

Herra forseti. Ég held að ég sé búinn að fara yfir þær spurningar sem sérstaklega var beint til mín. Ég vil bara endurtaka þakkir fyrir mjög málefnalegar umræður hér í dag.