Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:46:48 (8668)

2002-05-02 17:46:48# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður kannski ekki mikið að því gert þó að hv. þm. séu ekki mættir, en hinar málefnalegu umræður sem hér fóru fram í dag af hálfu hv. þingmanna Samfylkingarinnar vöktu alveg sérstaka athygli mína. Ég vakti athygli á því að svo hefði ekki verið í vetur. Það eru skilaboð sem hv. þm. sem eru viðstaddir umræðuna nú gætu borið inn í sinn þingflokk.

Hv. þm. segir að við séum á seinni skipunum með samgönguáætlun. Þannig er að í síðustu viku voru afgreidd lög um samgönguáætlun, það er því fyrst núna sem formlega er hægt að leggja af stað með þá vinnu og hún verður unnin í sumar og lögð fram í haust og ég á von á því að umræður geti orðið þá.

Hvað varðar skipulag á Straumsvíkursvæðinu, þá hef ég ekki upplýsingar um það við höndina, en það er alveg ljóst að uppi eru áform um að skapa rými til stækkunar álverinu og nauðsynlegt er að taka afstöðu til þess þannig að ég á ekki von á öðru, svo mikilvæg framkvæmd sem þar er á ferðinni, en að sveitarfélagið Hafnarfjörður bregðist hratt og vel við þegar að því kemur að breyta þarf skipulagi og leggja á ráðin um færslu Reykjanesbrautarinnar þess vegna.