Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:48:34 (8669)

2002-05-02 17:48:34# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get lofað hæstv. samgrh. því að nýr meiri hluti jafnaðarmanna mun bregðast hratt við núna að loknum sveitarstjórnarkosningum og ljúka þessu skipulagi því að það gengur auðvitað ekki þegar verið er að fara í vegabætur á leiðinni Keflavík--Reykjavík að ákveðnir bútar séu ófrágengnir og meiri hluti sveitarstjórnar hafi ekki klárað heimavinnu sína hvað það varðar þannig að það vanti heila búta í skipulagið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera það að neinu aðalatriði en mér hefði þótt eðlilegra að hæstv. ráðherra bæðist einfaldlega afsökunar á því að vera að gera að umtalsefni ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar sem ég hef fylgst vel með í allan vetur. Hann hefur verið virkur í umræðum um samgöngumál þó að sum viðhorf hans hafi nokkuð farið í taugarnar á hæstv. ráðherra, þá finnst mér eðlilegra að hann lýsi viðhorfum sínum í hans garð augliti til auglitis en sé ekki að fara þessar Krýsuvíkurleiðir til þess.