Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 17:54:32 (8672)

2002-05-02 17:54:32# 127. lþ. 135.11 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna vegna ræðu hv. þm. að framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru og hafa verið allmiklar ef við lítum til þeirra dýru umferðarmannvirkja eins og mislægu gatnamótanna í Mjóddinni þar sem tengd er saman Breiðholtsbrautin og Reykjanesbrautin. Sömuleiðis Vesturlandsvegar- og Víkurvegargatnamótin sem eru í gangi núna. Ég geri ráð fyrir að mislæg gatnamót um Stekkjarbakka/Reykjanesbraut verði til meðferðar á þessu ári og vonandi tekst að setja þá framkvæmd af stað þannig að það er af mörgu að taka á þessu svæði þar sem Vegasjóður greiðir eins og eðlilegt er.

En hvað varðar Sundabrautina og arðsemismat hennar, þá get ég ekki svarað því hvenær það liggur fyrir en til skamms tíma var verið að vinna í því að meta og leggja á ráðin um hvernig umferðarspá er fyrir þær brautir en umferðarspá er afar mikilvægur þáttur í hönnun slíkra mannvirkja. Nú liggur hún fyrir eða forsendur hennar og í framhaldi þess verður hægt að vinna áfram fullum fetum að þessu stóra og mikilvæga máli sem Sundabrautin er. Ég geri ráð fyrir að þegar kemur að umhverfismatinu og því að velja á milli þessara tveggja leiða muni arðsemisþættirnir sömuleiðis liggja fyrir þannig að áður en langt um líður höfum við þetta allt saman fyrir okkur og getum að sjálfsögðu tekið afstöðu til þess.