Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 19:41:36 (8690)

2002-05-02 19:41:36# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[19:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál því að sjónarmiðum hefur verið ítarlega lýst af hálfu stjórnarandstöðunnar og fyrir okkar hönd hefur hv. þm. Þuríður Backman talað. En við fyrri umræður málsins hefur fulltrúi okkar í umhvn., hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, gert ítarlega grein fyrir afstöðu sinni sem annars birtist í minnihlutaáliti.

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að mótmæla vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í málinu og þá sérstaklega hæstv. umhvrh. Það á ekki að þekkjast að róttækar breytingar séu gerðar í stjórnsýslunni með þessum hætti. Hér er sett inn á borð alþingismanna rétt fyrir þinglok frv. sem felur í sér uppstokkun á stjórnsýslunni. Ekki gefst tími til að senda frv. til umsagnar heldur eru kallaðir inn þeir aðilar sem málið snerta til þess að fjalla um það án þess að þeim gefist tóm og kostur til að kynna sér málið til hlítar. Síðan er það borið á milli manna hver afstaðan sé og hvernig hún kunni að hafa breyst. Þessi vinnubrögð eru mjög ámælisverð og skrifast algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, í þessu tilviki hæstv. umhvrh.

Frumvarpið felur að auki í sér kerfisbreytingar sem við teljum vera mjög vafasamar. Þær munu leiða til aukinnar miðstýringar, þær munu hafa það í för með sér að störf sem eru og hafa verið á landsbyggðinni munu flytjast á suðvesturhornið. Það er staðreynd. Ég vil einnig leggja áherslu á að það er mjög slæmt þegar verið er að hringla til í stjórnsýslunni eins og hér hefur verið gert á þessu málasviði. Komið hefur verið á fót ákveðnu skipulagi sem hefur tekið sinn tíma að festa sig í sessi og skjóta rótum og það hefur gefist ágætlega. Það á enn eftir að koma reynsla á annað og að rífa þá starfsemi upp með rótum eins og hér er lagt til er mjög ámælisvert og mér finnst það hryggilegt að slíta þinginu, sem er fyrirsjáanlegt að verði í allra næstu framtíð, það styttist í þinglokin, það gera sér allir grein fyrir því. Við erum komin marga daga fram yfir áætluð þinglok og ljóst er að ríkisstjórnin ætlar með offorsi að keyra þetta mál í gegn. Það er mjög gagnrýnivert. Þótt hæstv. umhvrh. hlæi að þessu máli, þá gera starfsmenn sem þetta snertir það ekki. Það er mjög ámælisvert að gera þetta svona. Og þegar menn nota sér síðan starfsmenn sem skálkaskjól eins og gert hefur verið í umræðunni og sagt hefur verið að þeir þoli ekki biðina, að sjálfsögðu þolir fólk biðina ef það veit að taka á málefnalega á málum þeirra og á vandaðan hátt. En það er ekki gert með þessum vinnubrögðum. Á þeirri forsendu lýsi ég yfir mikilli andstöðu við þetta lagafrv.