Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:02:16 (8695)

2002-05-02 20:02:16# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:02]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, að tryggt verði að starfshópurinn fari vel og vandlega yfir þær hugmyndir sem fram hafa komið um að hreindýraráð eða einhvers konar ráðgjafarnefnd verði starfandi áfram. Ég vil hins vegar leiðrétta hæstv. ráðherra, eða leiðrétta misskilning hafi einhver skilið orð mín svo áðan að ég væri að tala um að starfsmaðurinn sem hefur starfað á vegum hreindýraráðsins yrði fluttur suður til stofnunarinnar. Það var alls ekki ætlun mín að skiljast svo. Mér er fyllilega ljóst og það kemur fram í greinargerðinni að gert er ráð fyrir því að starfsemin haldi áfram að vera með svipuðum hætti en hæstv. ráðherra ýjaði einmitt að því að möguleiki væri á að efla það starf og skapa meiri fjölbreytni í því. Það er vonandi að svo verði.

Því miður verð ég að segja, að gefnu tilefni, að við höfum einmitt æðioft heyrt þennan vilja í orði en það hefur æðimikið skort á að hann kæmi fram í verki. Við munum væntanlega ræða það örlítið betur síðar í kvöld eða nótt þegar hér verður umræða um byggðaáætlun. Það er plagg sem við höfum oft fjallað um. Þar er bent á ýmislegt og loforð jafnvel margs konar en efndir hafa verið mun minni.

Það sem ég gagnrýndi hins vegar var að verið væri að færa ákvarðanatökuna um hreindýraveiðarnar, um ráðgjöfina og yfirstjórnina á málinu, burtu úr landshlutanum, færa hana suður. Ég vænti þess að flestir sjái hversu fjarstæðukennt það er, ef ég tek dæmi úr frammíkalli við mig áðan, að það yrði samþykkt á hinu háa Alþingi að öll ákvarðanataka um krókódíla --- hugmynd hins ágæta fólks á Húsavík --- skyldi fara undir Umhverfisstofnun ef þau dýr yrðu flutt til landsins. Á svipaðan hátt er auðvitað hægt að líta á hreindýrin því að þar er um að ræða staðbundinn stofn sem eingöngu er til í einum landshluta og er mjög lítt tengdur meintri staðsetningu stofnunarinnar. Ég trúi því vel að okkur sé treystandi til þess á Austurlandi að taka ákvarðanir sem tengjast hreindýrum.