Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:04:38 (8696)

2002-05-02 20:04:38# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:04]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði að þetta mál væri ekki illa undirbúið. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það vera illa undirbúið. Ég var í þessari nefnd og mér finnst líka það sem hæstv. ráðherra sagði um leið segja sína sögu. Hér er tekin ákvörðun um að stofna umhverfisstofnun. Með hvaða hætti? Það er í raun og veru bara ákvörðun um að stofna þessa stofnun. Síðan er kosin nefnd sem á að sitja yfir því í sumar að búa til skipurit fyrir stofnunina. Það er verið að fjalla um þetta í Alþingi án þess að menn viti nokkuð meira um málið en það litla sem kemur fram í þessu frv. Ég tel ekki heppilegt að undirbúningi mála sé hagað með þessum hætti.

Mér finnst líka að hæstv. ráðherra hefði átt að svara einhverju um það sem kom fram í framsögu 2. minni hluta áðan, í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, hvernig eigi að fara með hagsmunaárekstra sem verða innan þessarar stofnunar. Það er augljóst að þegar Hollustuvernd þarf að gefa út starfsleyfi og takast á við það að Náttúruvernd hafi lagst gegn einhverju tilteknu máli eru þessir hagsmunaárekstrar komnir inn í stofnunina. Ekki hefur verið hægt að upplýsa í umfjöllun nefndarinnar hvernig eigi að taka á svona málum.

Ég verð líka að segja alveg eins og er að mér verður á að spyrja: Hvernig hefði þessi stofnun farið með þau átakamál sem hafa verið í gangi að undanförnu, t.d. Kárahnjúkamál og önnur slík? Hvernig hefði þeim reitt af í gegnum stofnun af því tagi sem hér er á ferðinni? Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér?