Umhverfisstofnun

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:06:40 (8697)

2002-05-02 20:06:40# 127. lþ. 135.13 fundur 711. mál: #A Umhverfisstofnun# frv. 90/2002, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þá spurningu sem hér kom fram eru henni gerð nokkur skil í nál. meiri hlutans. Ég get stiklað á stóru í því og er sammála því sem þar kemur fram. Varðandi það sem hér hefur verið kallað hagsmunaárekstrar, þ.e. þegar Náttúruverndin gefur út álit um t.d. starfsleyfisveitingar, verður það þannig í nýju stofnuninni að náttúruverndarsjónarmiðin verða tekin til athugunar strax í upphafi og felld inn í starfsleyfistillöguna. Í staðinn fyrir að menn séu því að senda þetta á milli stofnana mun fagleg ráðgjöf Náttúruverndar ríkisins koma fyrr inn í vinnsluferlið og skila sér í betur útfærðum tillögum í starfsleyfi. Með þessu nýja fyrirkomulagi ættu starfsleyfistillögurnar að vera betur undirbúnar frá byrjun og hafa í för með sér aukna skilvirkni.

Hér kom fram að málið væri illa undirbúið. Ég er ósammála því. Ég tel eðlilegt að nefnd þeirra aðila sem hafa mesta og besta þekkingu á starfsemi stofnananna, þ.e. forstöðumennirnir sjálfir og fulltrúar frá umhvrn., setji upp skipuritið að þessari nýju stofnun. Það mun örugglega breytast í framtíðinni og menn setja ekki almennt lög um skipurit á hinu háa Alþingi. Það er alveg ljóst hvaða málaflokkar tilheyra hinni nýju stofnun. Það eru málaflokkarnir sem tilheyra Náttúruverndinni, Hollustuverndinni, dýraverndarráði, veiðistjóraembættinu og hreindýraráði. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni. Þetta er tiltölulega einfalt frv. Tæknilega séð er verið að sameina stofnanir sem eru með alveg ákveðið hlutverk í dag. Nýja stofnunin mun halda því meginhlutverki sem þar fer fram auk þess að bæta við sig að fara með alþjóðasamninga sem núna eru t.d. líka hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.