Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:17:53 (8704)

2002-05-02 20:17:53# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, SvH
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:17]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Sjálfsagt er ekki þörf á málalengingum úr því sem komið er í þessu máli. Vafalaust verður stjórnarliðinu ekki talið hughvarf héðan í frá, og raunar er illt við að eiga að hafa um þetta mál mörg orð vegna þess að það vantar orð í málið til að lýsa þessum málatilbúningi eins og vert væri. Það má kannski orða það svo að stjórnarliðar kasti sér fyrir borð þótt sjáist ekki til lands, eða mætti kannski öllu heldur orða það svo að þeim væri hrint fyrir borð, flestum, þótt ekki sæist til lands.

Efh.- og viðskn. hefur haft málið til meðferðar, og hér á dögunum heyrði ég formann nefndarinnar lýsa þeim vinnubrögðum sem þar hefðu verið höfð í frammi. Upp var talinn í nál. fjöldi stofnana, fyrirtækja og einstaklinga sem hefðu sótt fund nefndarinnar og sagt henni frá áliti sínu. Ekkert orð var um hvað hefði verið sagt þar og hvert innihald álitanna var, ekki eitt einasta orð. Yfirheyrslur fóru fram og þær fregnir hafa borist að alls ekkert hafi komið fram hjá þeim sem þar voru teknir til yfirheyrslu sem mælti með þessu máli, ekki eitt einasta atriði. Og við höfum séð afstöðu fyrirtækja og samtaka í þjóðfélaginu. Hvaðan eru meðmæli þá komin ef þau eru finnanleg í þessu máli? Hvaða marktæk stofnun, fyrirtæki eða samtök hafa mælt með þessu máli? Það væri mjög nauðsynlegt að fá upplýst.

Við höfum séð að ungliðahreyfingar í öllum flokkum gera ströngustu ályktanir gegn þessari ósvinnu. Þjóðhagsstofnun mælti gegn henni þótt kannski sé varhugavert að nefna snöru í hengds manns húsi.

Ég hef hér blaðaúrklippur með áliti sérfræðinga á málinu þar sem hagfræðingar og forsvarsmenn samtaka vinnumarkaðar eru gagnrýnir á ríkisábyrgðina vegna skuldabréfaútgáfu þessarar. Þar segir, með leyfi forseta, fyrir neðan fyrirsögn: ,,Hagfræðingar innan Háskóla Íslands og forsvarsmenn samtaka á vinnumarkaði eru gagnrýnir á fyrirhugaða 20 milljarða ríkisábyrgð deCODE Genetics. Þeir telja í samtölum við Ómar Friðriksson blaðamann að um mikla áhættu sé að ræða og aðgerðin feli í sér mismunun gagnvart fyrirtækjum.`` Fyrst er svo vitnað í Ágúst Einarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, varaþingmann Samfylkingarinnar og fyrrv. formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, og við skulum vænta þess að formaður fylkingarinnar taki mark á þeim manni. Hann er mjög gagnrýninn á þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita deCODE, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, ríkisábyrgð vegna nýrrar lyfjaþróunardeildar og telur hana ekki skynsamlega. Orðrétt sagði hann: ,,Bæði vegna þess að þetta mismunar fyrirtækjum, auk þess sem ríkið á ekki að veita slíkar ábyrgðir, nema þegar einhverjar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Það er ekki í þessu tilviki,`` segir hann. Og áfram tilvitnun, með leyfi forseta:

,,,,Það eru fjölmörg fyrirtæki með sambærilega starfsemi og það er algjört einsdæmi að veitt sé ríkisábyrgð fyrir svona sprotarekstur. Hér er því um pólitíska ákvörðun að ræða. Það er ekki hægt að styðja þessa ákvörðun með hagfræðilegum rökum en ríkisstjórnir á hverjum tíma bera vitaskuld ábyrgð á pólitískum ákvörðunum. Þetta getur haft í för með sér verulegan réttarágreining vegna mismununar,`` segir Ágúst.``

Má ég skjóta því hér inn í að lærðir lögfræðingar og þekktir fitja upp á því hvort þessi lagasetning muni ganga gegn ákvæðum stjórnarskrár, og það má mikið vera vegna samkeppnislaga að ekki komi til að hæstv. ríkisstjórn verði dregin fyrir lög og dóm vegna þessa máls. --- Og áfram heldur Ágúst, með leyfi forseta:

,,,,Það sem verra er, er að þessi ríkisábyrgð getur dregið úr almennum stuðningi við starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar, sem er mjög mikilvæg íslensku samfélagi, og þessi aðferð að ábyrgjast af hálfu ríkisins er frekar til þess fallin að vekja tortryggni um starfsemi þessa fyrirtækis. Þá er verr af stað farið en heima setið,`` segir hann.``

Ég hlýt að vitna áfram í þennan sérfræðing og varaþingmann og helsta frammámann Samfylkingarinnar sem virðist í þessu máli rótklofin og er það svo sem ekki nýlunda í hinum mikilvægustu málum þar á bæ. Með leyfi forseta:

,,Ágúst segir einnig aðspurður að sú áhætta sem hér er um ræðir sé veruleg. ,,Þótt ég telji að það hafi verið skynsamlegt af Íslenskri erfðagreiningu að hasla sér völl í lyfjaþróun og lyfjaframleiðslu, þá eru engin sérstök rök fyrir því að þessi verksmiðja sé flutt til Íslands á þessu stigi málsins. Það er miklu mikilvægara að styrkja fjárhagslega stöðu og starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar hérlendis. Markaðurinn þolir ekki þessa stóru viðbót við eftirspurn eftir þeim vel menntuðu mönnum sem þurfa að starfa þarna.`` --- Þetta er ekki lítið atriði. Og áfram segir hann: ,,Ég tel þá ákvörðun vera misráðna af hálfu fyrirtækisins að vilja flytja fyrirtækið til Íslands með þessum hætti, enda virðist það hafa verið notað sem tilefni til þess að fá ríkisábyrgðina. Það segir sig sjálft að ríkisábyrgðin mun fyrst og fremst fara í að styrkja almennan fjárhag félagsins og það er allt annað mál. Það má vel vera að þörf hafi verið á því en ríkisvaldið á ekki að koma að því. Ríkisvaldið hefur stutt dyggilega við bakið á þessu fyrirtæki og við það átti að sitja. Núna er það komið út á mjög hættulega braut, og þetta minnir á fyrri afskipti opinberra aðila af atvinnurekstri fyrr á árum, þegar ríki og sveitarfélög voru í atvinnurekstri, svo sem bæjarútgerðum og öðru af því tagi. Það er víti til varnaðar.````

Þá heyra menn það, og það sem aðallega skortir á er að gegn þessum fullyrðingum --- köllum þær svo --- gegn þessari málafærslu eru engin gagnrök, engin, alls engin. Það er mikið rétt sem segir í Fréttablaðinu í dag að þingmenn svari, þegar þeir eru spurðir um rök fyrir þessu, út úr og segi: Af því bara. Og það verða víst þingmenn að láta sér lynda.

Hér er einnig rætt við Ara Edwald, og Samtök atvinnulífsins mótmæla þessu harðlega. Alþýðusambandið mótmælir þessu. Verslunarráðið hefur sagt sitt orð undir forustu formanns efh.- og viðskn. Alþingis. Hann tjáði sig þar og þá, á þeim vettvangi, að hann væri andvígur þessu máli. Þetta er eitt ömurlegasta dæmið sem ég kann um upplit á þingmanni fyrr og síðar. Þegar svo var farið að ganga á hann á öðrum vettvangi lýsti hann því yfir að af því að þetta væri stjórnarmál hlyti hann að fylgja því. Þvílíkir taglhnýtingar eru fáheyrðir.

Hér er einnig viðtal við Gylfa Arnbjörnsson, framkvæmdastjóra ASÍ. Hann hefur ýmislegt við fyrirhugaða ríkisaðstoð að athuga og segir svo, með leyfi forseta:

,,Það er engin launung á því að í umræðunni um lækkun skatta á fyrirtæki var það upplegg ríkisstjórnarinnar að sú breyting mundi leiða til þess að Ísland yrði ákjósanlegasti staður í heimi fyrir fyrirtæki. Meginrökin fyrir þeirri breytingu voru þau að hún mundi valda straumhvörfum í nýsköpun og uppbyggingu atvinnulífsins. Nú skilst okkur að það sé ljóst að þetta fyrirtæki [lyfjaþróunardeild deCODE] verði í Bandaríkjunum ef ekki komi til opinberrar aðstoðar.`` --- Áfram heldur Gylfi, framkvæmdastjóri ASÍ, og minnir á að ,,þegar skattalagabreytingarnar voru til umræðu hafi ASÍ talið skynsamlegra að í stað þess að lækka skatta á fyrirtæki úr 30% í 18% mótaði ríkið almennar reglur, í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins, um styrki til niðurgreiðslu á stofnkostnaði fyrirtækja. ,,Við vildum að það yrði gert með almennum hætti, þar sem gerð yrði mjög stíf krafa um arðsemi og áhættu þeirra sem réðust í slík verkefni. Það er alveg ljóst að deCODE og þessu fyrirtæki sem deCODE hyggst setja á laggirnar gagnast ekki lækkun tekjuskatta fyrr en það er búið að sýna að það standi sig og geti framleitt og selt þau lyf sem um ræðir. Áhættan fram að því er mjög mikil,`` segir hann. ,,Ég verð að viðurkenna að það hafði aldrei hvarflað að mér að eitt fyrirtæki gæti fengið ríkisábyrgð fyrir 20 milljarða. Vafalaust hefði verið hægt að hafa áhrif á þetta verkefni með beinni hætti og án þess að ríkið þyrfti að taka svona mikla áhættu.````

[20:30]

Það er sama hvar borið er niður í álit þessara sérfræðinga. Það ber allt að sama brunni. Þjóðhagsstofnun segir að engin rök hnígi að ríkisábyrgð og segir líklegt að inngrip í markaðinn komi niður á lífskjörum til lengdar. Ekki þarf að minna á að þessi aðferð, þessi lagasetning er þverbrot á þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa haft uppi í þessu efni og stefnir þvert á gildandi lög um ríkisábyrgðir þar sem þau eru gerð að engu, höfð að engu. Nýleg lög þar sem átti að sigla fyrir gömlu skerin sem menn strönduðu á varðandi misnotkun á ríkis\-ábyrgðunum. Þessi stefna hafa stjórnarflokkarnir margítrekað að væri eindregin stefna þeirra. En svo þegar þetta rakalausa mál kemur upp, þá er haft hægt um hönd og gengið þvert á fyrri lög, stefnu og yfirlýsingar.

Því hefur verið haldið fram að þetta mundi veita fordæmi fyrir önnur fyrirtæki. Það eru orð, innantóm orð og merkja enga guðs grein. Auðvitað hlýtur þetta að vera fordæmi. Ég sá þá frétt eigi alls fyrir löngu að Íslensk lyfjaþróun hefði sent inn umsókn um ríkisábyrgð. Og hvernig farið verður að að neita því fyrirtæki en vinna þetta verk fyrir ameríska fyrirtækið deCODE er mál sem maður á eftir að sjá hvernig fer úr hendi.

Hvaða upplýsingar höfum við um þetta fyrirtæki þar sem á að afhenda ábyrgð upp á 20 þúsund millj. kr.? Ekkert nema það sem við höfum séð til þess á markaði. Hvað hefur gerst þar á rúmum þremur árum? Þetta fyrirtæki kom til landsins og barst mjög á. Fjármálamarkaðurinn brást þannig við að það væri gulls ígildi að ná eignarhlut í fyrirtækinu. Mér er fullkunnugt um að Landsbanki Íslands narraði einn af viðskiptamönnum sínum til að kaupa hlut í félaginu á genginu 65 og þannig fóru fjármálastofnanir að að gylla þetta fyrir mönnum til þess að fá illa setta menn til að lagfæra stöðu sína með þessum hætti.

Hvaða upplýsingar höfum við og hvað segir markaðurinn okkur núna? Hann segir okkur að fyrirtækið slær undir 5, genginu 5. Hvað má lesa af þeim upplýsingum? Að fyrirtækið stefni þráðbeint á höfuðið. Ekkert annað verður lesið. Hvaða íslenskt fyrirtæki mundi verða talið gjaldgengt sem hefur hrapað úr genginu 60 í 4 komma eitthvað á þessum skamma tíma? Auðvitað er það svo að fyrirtækið fær ekki vegna fjárhagsaðstöðu sinnar neina fyrirgreiðslu í Bandaríkjunum. Þess vegna er leitað hingað eftir ríkisábyrgð, til þessa litla lands.

Hver skyldi svo þróunin verða, herra forseti, án þess að ég ætli að hafa uppi miklar málalengingar? Hver er líkleg þróun mála þegar að því kemur að deCODE veltur um hrygg? Líklega mundi, ef sömu stjórnarherrar verða við völd, reynt til við að taka málið allt að sér, ganga undir þetta jarðarmen til að reyna að bjarga einhverju af þessum 20 þús. millj. kr. og þá mundi auðvitað, ef þessir sömu menn sætu við völd, formaður Sjálfstfl. hafa uppi sinn vana áróður og vaðal um að hér væri allt í besta gengi, raunar í allra besta gengi eins og hann hefur viðhaft hvenær sem eitthvað kemur upp á sem til ófarnaðar stefnir. Það yrði strax og þetta lægi fyrir boðað til blaðamannafundar í Vatnsmýrinni þegar deCODE væri þar kominn í tálgrafirnar, og þar mundi verða upplýst að þeir væru á næsta leiti með það að finna krabbameinslyf, lyf við sykursýki, hjartveiki yrði náttúrlega fljótlega úr sögunni og stórmerkilegt, það mundi verða ýjað að því vafalaust að þeir væru að finna meðal við ellihrumleika, kannski smátt í sniðum til að byrja með en kannski skammta fyrir eins og tólf menn. Það hefur verið siðurinn þegar fréttir hafa borist um að það hallaði á deCODE. Þegar gengið fellur í fyrirtækinu, þá hefur verið skotið á fundi hjá Íslenskri erfðagreiningu og upplýst um það að nú væri fyrirtækið að finna ný og ný gen hvort heldur er við hjartveiki eða einhverju öðru.

En hér birtust skrif í Morgunblaðinu í gær þar sem líffræðingur spyr: Hvar eru þessi gen? Hvar eru genin sem þeir þykjast hafa fundið? Og hann rekur það í mjög ljósu máli að þetta eru ekkert nema ýkjur og orðaskvaldur. Þessi grein á erindi í þingtíðindi, herra forseti, og með leyfi hans ætla ég að kynna þingheimi innihaldið því að það er óvíst að menn lesi allar greinar sem í Morgublaðinu koma því að það mun vera svo að meðallesning greina í Morgunblaðinu mun leika einhvers staðar á bilinu 3--4%. En það þykir mikið þegar sá sem hér stendur mun hafa upp undir 8%. En svo segir, með leyfi forseta, og ég bið leyfis hans með þessa grein eins og hún leggur sig og það er ekki langtímamál að lesa hana upp. Árni Alfreðsson líffræðingur, segir svo:

,,Í umræðunni um ríkisábyrgð til handa deCODE-ÍE hefur hinn ,,mikla árangur`` á sviði erfðarannsókna og ,,forskot`` fyrirtækisins borið á góma. Þetta er nefnt sem ein grunnforsendan fyrir velgengni á sviði væntanlegrar lyfjaþróunar. Þjóðinni hefur verið talin trú um að fyrirtækið hafi ,,fundið`` fjöldann allan af genum (erfðavísum). Þetta hefur verið gert með miklum lúðrablæstri og hafa fjölmiðlar hvergi dregið af sér í herferðinni. Sannleikurinn er hins vegar sá að ÍE hefur ekkert meingen einangrað svo vitað sé.

Að einangra gen er venjulega notað yfir það þegar gen hefur verið staðsett nákvæmlega, það klónað og raðgreint. Í kjölfarið fylgja svo rannsóknir á starfsemi þess. Fyrirtækið segist hafa fundið eða staðsett fjöldann allan af genum og einangrað a.m.k. þrjú.

Í mars árið 2000 lýsti fyrirtækið því yfir að það hefði staðsett gen sem tengdist heilablóðfalli. Ári síðar (maí 2001) var sagt frá því að tekist hefði að einangra þetta gen. Enn ári síðar (mars 2002) birtist grein í vísindatímaritinu American Journal of Human Genetics um rannsókn ÍE á þessu geni. Þá kemur í ljós að ekkert gen hefur verið einangrað, heldur sé búið að afmarka svæði á litningi sem tengist sjúkdómnum. Rannsóknin á erfðum heilablóðfalls er eitt þeirra verkefna sem virðast hvað lengst komin hjá fyrirtækinu og ein af fáum sem birst hafa í vísindatímariti. Ef fyrirtækinu endist aldur til verður vonandi einangrað eitt eða fleiri gen á áðurnefndu litningasvæði.``

Hvað er verið að segja hérna? Verið er að rekja í smáatriðum að allt er þetta skrum sem fram hefur verið sett um þann árangur sem þeir þykjast hafa náð og oftast farið með þetta skrum þegar hallað hefur á fjármagnsfyrirtækið, móðurfyrirtækið deCODE. Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Flestar yfirlýsingar fyrirtækisins hljóma á þann veg að fundist hafi gen eða staðsett hafi verið gen. Það sem þarna virðist á ferðinni er að fundist hefur útslag (lod-score) á einhverjum litningi, með öðrum orðum fundist hefur svæði á litningi sem tengist hugsanlega einhverjum sjúkdómi. Þá er eftir gríðarmikil vinna við að finna genin sem eru á svæðinu, klóna þau og raðgreina og kanna starfsemi þeirra til að ganga úr skugga um að raunverulegt stökkbreytt meingen sé til staðar. Þetta hefur ÍE enn ekki tekist.

Orðalag það sem notað er í yfirlýsingum fyrirtækisins er bæði loðið og tvírætt. Væri ekki heiðarlegra að segjast hafa fundið svæði á litningi sem tengist sjúkdómi þegar það á við í stað þess að að segjast hafa fundið gen? Líklega hljómar útgáfa ÍE-manna betur og nýtist betur í áróðrinum.

Að segjast hafa fundið gen þegar það er í raun alls ekki fundið orkar vægast sagt tvímælis. Ekki er heldur ólíklegt að ÍE hafi einhverja aðra skilgreiningu á hugtakinu að einangra gen þegar það hentar.

Að leggja mat á árangur fyrirtækisins út frá yfirlýsingum þess um stórkostlega áfangasigra á vísindasviðinu og eigið ágæti er ekki rétt nálgun. Grein í vísindatímariti er það eina sem staðfest getur árangur á þessu sviði og skýrt hvað fundist hefur í raun. Það er a.m.k. nokkuð ljóst að erfðarannsóknir ÍE ganga mun hægar en fyrirtækið lætur í veðri vaka. Rýrar árangurstengdar greiðslur frá Hoffmann-La Roche styðja því miður þennan grun. Með ekkert einasta meingen upp á vasann á svo að leggja af stað í óvissuferð í lyfjaþróun.``

Svo mörg voru þau orð. En ég þykist vita að það sé heldur ekkert mark tekið á þeim enda þótt allt bendi til að hér sé þetta sannleikanum samkvæmt. Auðvitað væntum við þess að starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar skili sem bestum árangri. Við bindum mjög miklar vonir við það fyrirtæki og við höfum líka stutt það eftir fremstu getu. En að freista gæfunnar með þessum hætti sem menn ætla að gera nú er algerlega óforsvaranlegt hvernig sem á það er litið.

Hæstv. fjmrh. rifjaði upp orðtak á dögunum sem mér mun af og til eða löngum hafa um munn liðið, að svo liggur hver sem hann hefur um sig búið. Ég kann að vísu betur við útfærsluna: Svo liggur hver sem lund er til, og mundi einkar vel hæfa hæstv. forsrh. þegar hann er búinn að skrifa upp á Vatnsmýrarábyrgðina. Einu rökin ef rök skyldi kalla eru að menn langar ákaflega til þess að þarna rísi upp lyfjaframleiðslufyrirtæki sem við getum stórgrætt á. En líkurnar á gjaldþroti móðurfélagsins eru yfirgnæfandi.

Fróður maður sem ég get ekki nefnt gerði ráð fyrir að það væru líkur upp á 80--90%. Við óvissuna bætist svo að lyfjaframleiðslan, sá iðnaður, er talinn þrefalt áhættusamari en annar iðnaður að meðaltali. Hvar erum við þá staddir í þessu máli? Þetta er langt handan við það sem stjórnvöldum á að leyfast og þetta er langt, langt fyrir neðan virðingu Alþingis. Þetta er frámunalegasta glapræði sem framið hefur verið í sögu Alþingis, verði þetta ráðstjórnarfrv. að lögum.

Mann undrar og spyr sjálfan sig: Hvernig má það vera að mennirnir freisti þess arna? Eru þeir ekki í leiðinni að búa til pólitískan banabita fyrir sjálfa sig ef þetta fer á þann veg sem allar líkur benda til? Ekki er það út af fyrir sig harmsefni mitt. En mér þykir það allt of dýrt.