Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 20:46:15 (8705)

2002-05-02 20:46:15# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 1. minni hluta JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[20:46]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það er alltaf að koma betur í ljós, eftir því sem það er skoðað lengur, hve vanbúið þetta mál er til afgreiðslu og hve mikið vantar á að þingið hafi fjallað eðlilega um það og fengið þau gögn og álitaefni sem uppi hafa verið í því.

Við höfum farið í gegnum það hér, herra forseti, að þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað, meira að segja beðið um það í trúnaði, hefur efh.- og viðskn. ekki fengið viðskiptaáætlanir fyrirtækisins eða mat á gjaldþrotalíkum. Lögum um ríkisábyrgð hefur verið vikið til hliðar. Við fórum aftur yfir þann þátt málsins á fundi efh.- og viðskn. í dag ásamt fleiri þáttum. Þar kom í ljós, svo ég taki það fyrir strax, að einn af gestum nefndarinnar, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, upplýsti að skoðun hans á þessu máli væri sú að það gengi ekki að víkja til hliðar ríkisábyrgðalögum að því er varðar ríkisábyrgðagjaldið en ætla sér svo á síðari stigum, í samningum við fyrirtækið, að taka upp ríkisábyrgðagjald. Hann var sérstaklega spurður hvort það mundi ekki nægja sem stendur í frumvarpsgreininni sjálfri að fjmrh. veiti ábyrgðina að uppfylltum þeim skilyrðum sem hann metur gildar. Taldi Ragnar Aðalsteinsson að það væri fjarri því að nægja og þyrfti a.m.k. að koma fram í frv. sjálfu á hvaða bili mætti taka slíkt ríkisábyrgðagjald. Það hefur ekki unnist tími, herra forseti, til að skoða þetta nánar í nefndinni og fara yfir skoðun hæstaréttarlögmannsins. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði þurft að skoða þetta miklu betur. Með því fyrirkomulagi sem hér á að viðhafa varðandi þessa ríkisábyrgð er 4. gr. ríkisábyrgðalaganna, ef ég man númerið rétt, vikið til hliðar.

Á fundi þeim sem við vorum á í dag var líka farið yfir það sem áðurnefndur hæstaréttarlögmaður hefur sett fram, að það gangi gegn stjórnarskránni að veita einum aðila ríkisábyrgð upp á 20 milljarða kr. með þeim hætti sem hér á að gera. Rökstuddi Ragnar Aðalsteinsson það mjög vel að hann teldi það ganga gegn stjórnarskránni að fara þannig að. Hann taldi líka, eins og reyndar hefur komið fram í grein í Morgunblaðinu í gær, að þetta kæmi í veg fyrir sá aðili sem teldi á rétt sinn gengið, vegna þess að brotið væri gegn jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar, gæti sótt rétt sinn. Hann er sviptur vernd dómstóla.

Ragnar Aðalsteinsson telur að sá sem telur á rétt sinn gengið, t.d. aðili sem starfar á sama sviði, gæti að vísu farið í viðurkenningarmál vegna brots á jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar og ef það mál ynnist fyrir dómstólunum væri Alþingi þvingað til að setja almenn lög um málið. En það gæti tekið langan tíma. Jafnframt taldi lögmaðurinn að bæði lögfræðileg og siðferðileg sjónarmið, eins og hann orðaði það, stæðu til þess, þar sem 63 þingmenn væru settir í þá stöðu að taka út eitt fyrirtæki og veita forgang umfram annað, að þingmenn gerðu grein fyrir því hvort þeir hefðu hagsmuna að gæta við afgreiðslu málsins og upplýstu t.d. um hvort þeir eigi hlut í fyrirtækinu. Allt það sem þarna kom fram hjá lögmanninum átti að kalla á ítarlegri skoðun nefndarinnar á þessu máli en til þess gafst ekki tími.

Ég vil sérstaklega taka upp annað sem við ræddum í nefndinni, þ.e. hvort Íslensk erfðagreining hefði vegna samninga um gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem samþykktur var fyrir nokkrum árum og samningar og kostnaðargreiðslur sem þeim tengdust, greitt kostnaðargreiðslu til ríkissjóðs eins og henni ber að gera.

Eftirfarandi kom fram, herra forseti, í því máli: Ekki hafa náðst samningar við Sjúkrahús Reykjavíkur og ekki var hægt að upplýsa nákvæmlega á hverju stæði í því efni, hvort það væri Íslensk erfðagreining eða viðsemjendurnir, þ.e. forsvarsmenn heilbrigðiskerfisins. Hins vegar er greinilegt að þar hafa ekki náðst samningar um greiðslur að því er þann þátt varðar. Hæstv. heilbrrh. gerði jafnframt samning upp á 70 millj. kr. greiðslu á ári sem ekki á að ganga fram fyrr en gagnagrunnurinn verður tekinn í notkun. Þar er skýringin á því að slík greiðsla hefur ekki verið greidd.

Síðan koma greiðslur sem ég tel gjaldfallnar og ekki fékkst skýring á hvort hefðu verið greiddar eða ekki. Eftir því sem ég kemst næst hafa þær ekki enn verið greiddar. Þar eru greiðslur vegna undirbúnings kostnaðar við að safna upplýsingum í gagnagrunninn, m.a. vegna nefndar sem hefur eftirlit með höndum varðandi grunninn, mig minnir að hún sé kölluð starfrækslunefnd. Síðan á Íslensk erfðagreining að greiða þann þátt í starfsemi Persónuverndar sem lýtur að persónuvernd og þeim lögum. Síðan er starfandi þverfagleg vísindanefnd. Nefndirnar sem ég nefndi, ásamt kostnaði við persónuverndina, hafa verið í gangi í a.m.k. 2--3 ár og á þær er fallinn kostnaður. En ekki hefur tekist að fá upplýsingar um hve mikill sá kostnaður er. Það var meira að segja upplýst að ríkisféhirðir hefði fengið reikningana til innheimtu en ekki tókst, á þessum stutta tíma sem við höfðum á þessum degi, að staðfesta það.

Mér er skapi næst að ætla, miðað við þær upplýsingar sem ég hef getað fengið í þessu máli, að hér sé um að ræða einhverja tugi milljóna kr. sem út af standa og Íslensk erfðagreining skuldar ríkissjóði. Mér kæmi ekki á óvart að hér væri um að ræða skuld á bilinu 50--100 millj. kr. Í ríkisábyrgðalögum, sem að vísu er vikið til hliðar, segir, með leyfi forseta:

,,Ríkissjóði er óheimilt að takast á hendur ábyrgð fyrir aðila sem er í vanskilum við ríkissjóð eða Ríkisábyrgðasjóð.``

Ef það er rétt að Íslensk erfðagreining er í vanskilum upp á tugi milljóna við ríkissjóð er með ólíkindum að þessi ábyrgð skuli veitt, ekki síst þegar þetta stendur í lögum um ríkisábyrgðir, sem að vísu er vikið til hliðar. Lögin um ríkisábyrgðir, sem eru nýleg, frá 1997, voru einmitt sett í því skyni að vandað yrði til þess þegar grípa þarf til að veita ríkisábyrgð. Því væri mjög gott ef hæstv. fjmrh. gæti svarað, áður en þessari umræðu lýkur, hvort hann hafi kannað hvort Íslensk erfðagreining er í skuld við ríkissjóð svo að nema kann tugum milljóna kr. Það er mjög alvarlegt ef veita á fyrirtækinu 20 milljarða kr. ríkisábyrgð meðan skuld upp á einhverja tugi milljóna kr. er útistandandi. Þetta kom fram á fundi efh.- og viðskn. í dag, þeir þættir sem ég nefndi. Þetta er eitt af mörgum atriðum sem ég hefði viljað skoða nánar áður en frv. verður afgreitt frá þinginu.

Frá því að við fjölluðum um málið við 2. umr. hefur ýmislegt verið rætt og ritað um það. Í fjölmiðlum hafa komið fram ýmsar nýjar upplýsingar í þessu máli sem eru verulegt innlegg í umræðuna og styðja það sem við, sem erum í andstöðu við þetta frv., höfðum sagt. Ríkisstjórnin er á miklum villigötum ef hún veitir slíka ríkisábyrgð. Það er ekki hlutverk ríkisvaldsins. Þetta eru vinnubrögð sem vissulega tíðkuðust en þó ekki með svo eintækum hætti sem hér er gert ráð fyrir. Menn voru að feta sig út af þessari braut. Það er almennt viðurkennt að það sé hlutverk ríkisvaldsins að skapa fyrst og fremst eðlilegt umhverfi á jafnræðisgrundvelli fyrir atvinnulífið en standa ekki í sértækum aðgerðum eins og hér á að gera.

Það er alveg ljóst, ég fór í gegnum það við 2. umr. málsins, margar leiðir eru til ef ríkisvaldið á annað borð er á þeirri skoðun að styðja eigi við þekkingariðnaðinn og fjölga hátæknistörfum. Þá eru margar leiðir miklu eðlilegri í því sambandi en sú sem hér er lögð til. Ég fór yfir það að ríkisvaldið hefur ekki veitt mikla peninga í hátæknigeirann, a.m.k. mjög lítið samanborið við þá fyrirgreiðslu sem hér á að veita einu fyrirtæki. Fyrir skömmu var t.d. upplýst hver veltan væri í upplýsingatækninni og í hugbúnaðariðnaðinum. Þar var fróðlegt að sjá að áætluð heildarvelta greinarinnar var tæplega 20 milljarðar í fyrra og störfin um 2.900. Þeim hafði fjölgað verulega eða um 1.300 frá 1997.

[21:00]

Það er ýmislegt í gangi í þjóðfélaginu til að styðja við þekkingariðnaðinn og hátæknina og hefði verið eðlilegra að fara þá leið en að fara í svona sértækar aðgerðir. Ríkisvaldið á fyrst og fremst að skapa hér eðlilegt umhverfi fyrir fyrirtæki. Það getur það gert á skattasviðinu og hefur svo sannarlega gert vegna þess að skattar hér eru með því lægsta sem þekkist í löndum OECD, ef ekki þeir lægstu. Ríkisstjórnin á að gera það á samkeppnissviðinu með því að hlúa að Samkeppnisstofnun og skapa henni þau tæki og tól með löggjöf sem hún þarf til að samkeppnisumhverfi sé eðlilegt. En hún á ekki að ganga þann þrönga stíg sem hún gerir hér með því að láta eitt fyrirtæki hafa forgang umfram önnur með slíkri aðstoð. Það er fullkomlega óeðlilegt að mínu viti að þingmenn séu settir í þá stöðu að þurfa í efh.- og viðskn., ef vel hefði átt að vera, að fara raunverulega í hlutverk markaðarins og vega og meta hvort eitt fyrirtæki á þessu sviði á að hafa forgang umfram önnur. Það er fullkomlega óeðlilegt að mínu mati að setja þingmenn í þessa stöðu, ekki síst þegar um svo mikinn áhætturekstur er að ræða eins og hér hefur marg\-ítrekað komið fram. Fáar atvinnugreinar eru eins áhættusamar og mikil áhættufjárfesting í og í lyfjaiðnaðinum. Það er því sama hvar maður ber niður í þessu máli, herra forseti, það er fullkomlega óeðlilega að þessu staðið, fullkomlega óeðlilegt að setja þingmenn í þá stöðu að greiða atkvæði um að þjóðin veiti einu fyrirtæki ábyrgð upp á 20 milljarða kr. sem allar líkur eru á, að mati þeirra sem vel til þekkja, að geti fallið á skattgreiðendur. Það er þetta sem við gagnrýnum sem höfum lagst gegn þessu máli.

Hæstv. fjmrh. hefur sagt að þetta sé ekki fordæmisgefandi en nú þegar liggur fyrir beiðni frá lyfjaþróunarfyrirtæki, sem margir álíta að sé á sama sviði, um sambærilega fyrirgreiðslu.

Herra forseti. Ég vil aðeins fara inn á tvennt sem hefur nýlega komið fram. Ég hef skoðað það sem fram hefur komið í ársskýrslu deCODE fyrir árið 2000. Þar var gerður samningur við ótilgreindan aðila um kaup á hlutabréfum, 5 millj. á hlut, á genginu 7,5. Samningurinn gekk út á það að ef þessi aðili gæti selt yfir 50% bréfanna á hærra gengi en 15 dollara eða verð deCODE á Íslandi væri hærra en 15 seinni hluta ársins árið 1999 mundi þessi aðili greiða 15 dollara í stað 7,5 fyrir bréfin auk 6% ársvaxta en fengi 7% í söluþóknun. 8. ágúst 1999 tilkynnti síðan þessi aðili að hann hefði þegar gengið frá sölu meira en 50% hlutanna á genginu 15. Í árslok var svo gengið frá því að þessi aðili ætti að greiða tæplega 34 millj. dollara eða 2,4 milljarða kr. og greiðir hann það í febrúar árið 2000. Þóknunin sem hann fékk var 5 millj. 250 þús. dollarar eða um 380 millj. kr. Gengi deCODE fór hæst hér á landi á gráa markaðnum svokallaða í 60 í byrjun árs 2000. Ljóst er að þessi dularfulli aðili hefur hagnast verulega á þessum samningi, bæði þóknuninni, 380 millj., og svo söluhagnaðinum af bréfunum en hér á landi, eins og margir þekkja, töpuðu margir gríðarlega á þessu ævintýri. Fólk var í því að kaupa bréf í fyrirtækinu, tók meira að segja til þess lán, og allir þekkja margar sorgarsögur í kringum kaup á bréfunum. En þarna er dreginn upp einn aðili sem með mjög óeðlilegum hætti hefur grætt gífurlega á sölu þessara bréfa, bæði með sérstakri þóknun og svo söluhagnaði af bréfunum. Mér finnst málið sem hér er uppi á borðinu, og sem ég hef skoðað, þannig vaxið að Fjármálaeftirlitið ætti að skoða þetta allt.

Leyndin yfir þessum aðila, sem kallaður er ,,Buyer`` í ársskýrslunni þar sem samningsins er getið, er auðvitað mjög óeðlileg. Líklega er það vegna þess hversu strangt bandaríska fjármálaeftirlitið er sem þeir hafa orðið að tilgreina samninginn í ársskýrslu sinni. En þetta mál sem ég nefni hefði þurft að skoða alveg sérstaklega.

Eins vil ég áður en ég lýk máli mínu nefna að fram hefur komið að Skúli Sigurðsson, vísinda- og sagnfræðingur, hefur ritað grein í þýskt blað og þar kemur fram að vegna árangurstengdra greiðslna sem fyrirtækið samdi um við Hoffmann-La Roche höfðu 1,7 milljarðar kr. komið í formi slíkra greiðslna á fjórum árum en í samningnum átti að vera hægt að ná 10 milljörðum. Sá samningur hefur greinilega ekki gengið eins og til stóð. Bara þessi tvö atriði sem ég hef hér nefnt hefði þurft að skoða miklu nánar en tími og tök voru á í starfi nefndarinnar.

Herra forseti. Allt þetta mál er þannig vaxið að því ber að hafna. Hér er um að ræða gífurlega áhættu. Þjóðin er hreinlega sett í fjárhættuspil með þeirri áhættu sem hér er tekin. Það er ljóst að ríkisstjórnin sjálf verður að bera alla ábyrgð á þessu máli. Ég vísa því alfarið frá og tel að ríkisstjórnin geri gríðarlega mikil mistök með því að veita ábyrgðina. Reyndar er stór efi í huga mínum um að henni sé það heimilt, og ég tel að hér sé verið að ganga bæði gegn stjórnarskránni og samkeppnislögunum. Það sem verst er er að líklegt er að þessi ábyrgð muni falla á skattgreiðendur.