Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 21:07:26 (8706)

2002-05-02 21:07:26# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[21:07]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að ítreka mjög afdráttarlausa andstöðu mína við þetta frv. Ég tel fyrir neðan virðingu Alþingis að afgreiða þetta mál frá sér sem landslög. Okkur er ekki gert kleift að meta áhættuna af þeirri ríkisábyrgð sem krafa er gerð um að Alþingi skrifi upp á, við fáum ekki aðgang að viðskiptaáætlunum fyrirtækisins, við fáum ekki sömu upplýsingar og starfsmenn fjmrn. fá og okkur er ekki gert kleift að leita til óháðra aðila okkur til ráðgjafar. Það höfum við hins vegar mörg reynt að gera, bæði sérfræðinga í fjármálaheiminum og þeirra sem þekkja vel til vísindarannsókna. Þegar upplýsingar frá þeim eru metnar má ljóst vera að áhættan er mikil.

Ég efast ekki um að þrátt fyrir mikinn og öran bruna á fjármunum í þessu fyrirtæki muni það eiga sér nokkurra mánaða og missira ágætt líf fyrir höndum fáist þeir peningar sem ríkið ætlar að skrifa upp á. En ég spyr um hina siðferðilegu ábyrgð sem hvílir á Alþingi og ríkisstjórn gagnvart þeim stóra vinnustað sem verið er að þenja út, hugsanlega á óraunsæjum forsendum. Hver verður staðan að þeim tíma liðnum sem lánveitingin tekur til? Mér finnst þetta vera stóra spurningin. Jafnvel þótt svo færi að þessir fjármunir glötuðust ekki er það skoðun mín að fyrirtækið sé með þessari ríkisábyrgð að vefa sig inn í samábyrgð samfélagsins til framtíðar. Þetta finnst mér vera hin stóra spurning sem ríkisstjórnin og Alþingi standa frammi fyrir.

Hér er talað um nýja starfsemi. En þegar gengið var eftir því við forstjóra fyrirtækisins og forsvarsmenn í efh.- og viðskn. hvort hér væri um aðgreindan þátt í starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar að ræða kváðu þeir svo ekki vera. Þeir sögðu að þarna væri að sjálfsögðu allt undir og á þeirri forsendu þurfa menn að beina sjónum sínum inn í fjárhirslur þessa fyrirtækis og að árangri af starfi þess. Einnig þar byggjum við á mjög veikum grunni.

Í greinargerð sem fylgir stjfrv. er að finna ýmsar upplýsingar um árangur fyrirtækisins en við eftirgrennslan kom í ljós að upplýsingarnar um ágæti fyrirtækisins eru komnar frá því sjálfu. Einnig sögðust þó starfsmenn fjmrn. hafa leitað fanga á vefnum. Og hvar á vefnum leituðu þeir fanga? Jú, hjá virtum fjármálafyrirtækjum. Og hver voru þessi virtu fjármálafyrirtæki? Þeir töldu þau upp: Morgan Stanley, Lehman Brothers og Robinson Stephens. Allt viðskiptaaðilar deCODE. Öll þessi fyrirtæki eru í viðskiptum fyrir deCODE og eiga hagsmuna að gæta.

En má ekki ætla að þau séu vönd að virðingu sinni og hugsi grannt um framtíðarviðskipti frekar en að sverta mannorð sitt með óheiðarlegum vinnubrögðum? Staðreyndin er sú að þessi ,,virtu`` fyrirtæki liggja undir grun og eru gagnrýnd fyrir að hafa uppi blekkingar gagnvart viðskiptaheiminum. Núna stendur yfir rannsókn á vegum eftirlitsaðila í Bandaríkjunum og ríkissaksóknara í New York á hugsanlegri sviksemi þessara fyrirtækja. Frá þessu hefur verið greint í fréttum í New York síðustu daga og vikur. Rannsóknin beinist gegn þessum svokölluðu virtu fjármálafyrirtækjum. Ég hef áður sagt að eitt þessara fyrirtækja, Morgan Stanley, sem er virt og annaðist sölu á hlutabréfum deCODE, bauð íslenskum lífeyrissjóðum að kaupa bréf á genginu 16--19 dollarar fyrir hvert bréf rétt áður en þau hrundu niður fyrir 10 dollara. Þetta eru staðreyndir. Síðan mæta menn á fund, fulltrúar fjmrn., til að upplýsa okkur í efh.- og viðskn. og segja okkur að hafa engar áhyggjur, það séu virtir aðilar úti í heimi sem hafi blessað þetta í bak og fyrir. Hvað viljum við upp á dekk með gagnrýni?

Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Nú er það sem betur fer að gerast að ýmsir aðilar sem láta til sín taka og þekkja til þessara mála eru farnir að kafa ofan í starfsemi þessa fyrirtækis og upplýsa okkur. Nú er málið að komast í þann farveg að menn geti farið að ræða þetta af einhverju viti. Það er rétt að byrja. Eftir því sem umræðan þróast gerist hún flóknari og stöðugt koma upp fleiri álitamál. Yfirleitt er því þannig farið með mál í þinginu að þau skýrast í meðförum þingsins og álitamálum fækkar. Þessu er hér þveröfugt farið. Málið verður flóknara og álitamálum sem uppi eru fjölgar.

Annað sem veldur því að ég get á engan hátt stutt frv. er allur umbúnaðurinn. Lögum um ríkisábyrgð er hreinlega vikið til hliðar. Hér voru sett lög árið 1997 um ríkisábyrgð. Þau yrðu afnumin með þessum lögum að undanskilinni einni grein, og það er ekki einu sinni frá því gengið hvernig hún verður framkvæmd. Hvernig sem á þetta mál er litið er það hið undarlegasta að því ógleymdu að sjálfsögðu að jafnræðissjónarmið eru virt að vettugi.

[21:15]

Í upphafi þingfundar í dag óskaði ég eftir því að efh.- og viðskn. þingsins yrði kölluð saman og á fund nefndarinnar mundu mæta fulltrúar frá fjmrn., viðsk.- og iðnrn. og síðan lögmaðurinn Ragnar Aðalsteinsson sem skrifað hefur grein í Morgunblaðið þar sem hann útskýrir hvers vegna hann telur þetta mál ekki standast stjórnarskrá landsins. Hann mætti á fund nefndarinnar og skýrði mál sitt. Hann bætti um betur og sagði að hann vildi vekja athygli okkar á því að ef einhverjir þeirra sem fjölluðu um þetta mál fyrir hönd þjóðarinnar í fjmrn. eða einhverjir sem greiddu atkvæði um þetta mál á Alþingi ættu hlut í fyrirtækinu þá yrðu þeir að upplýsa það. Það væri eðlilegt.

Skyldum við hafa fengið upplýsingar um hverjir eiga fyrirtækið sem við erum að gangast í ábyrgð fyrir? Nei. Einnig því er neitað. Þar skjóta menn sér á bak við einhverja lagasetningu. Við vitum ekkert hver á þetta fyrirtæki. Við vitum ekkert um eignarhlutina eða hvernig þeir skiptast. Ég vil koma því á framfæri í þingsal að lögmaðurinn benti á að ættu einhverjir þeir sem um þessi mál fjalla fyrir hönd þjóðarinnar eða taka ákvörðun á Alþingi hlut í fyrirtækinu væri eðlilegt að þeir upplýstu um það.

Við kölluðum eftir upplýsingum um leiðangur Brussel-faranna og árangur af þeirri för. Svo er mál með vexti að fulltrúar fjmrn. héldu til Brussel. Í sömu ferð voru einnig fulltrúar frá fyrirtækinu Íslenskri erfðagreiningu. Þeir voru ekki hluti af sömu sendinefnd, það var upplýst á fundinum, en ráðuneytismenn lögðu þar gögnin fyrir ESA-dómstólinn. Þess má vænta að hann komist að niðurstöðu, frá því að hann hefur fengið gögnin í hendur, innan tveggja mánaða. Það var tímasetningin sem nefnd var og við höfum oft sagt það í umræðunni að það væri eðlilegt að sú niðurstaða lægi fyrir áður en þingið tæki ákvörðun í þessu máli.

Ég bið menn hins vegar að íhuga eitt. Menn eru taugaveiklaðir og allt að því á hnjánum gagvart ESA og þeim skuldbindingum sem við höfum gert í tengslum við hið Evrópska efnahagssvæði. Gagnvart íslenskum lögum hafa menn hins vegar ekki hinar minnstu áhyggjur. Þeir afnema þau einfaldlega. Það var gert í þessu máli.

Við spurðumst fyrir um hvaða fyrirtæki önnur hefðu óskað eftir stuðningi af hálfu ríkisins. Þá voru nefnd Lyfjaþróun og Norðurljós. Þar er talað um ríkisstuðning almennt. Við gengum lengra og spurðum hvort einhver önnur fyrirtæki sem starfa á svipuðu eða skyldu sviði hefðu leitað hófanna gagnvart íslenskum stjórnvöldum um upplýsingar, ekki endilega stuðning en a.m.k. upplýsingum varðandi starfsemi hér á landi. Þess vegna voru kallaðir á fundinn fulltrúar iðn.- og viðskrn. Þar komu starfsmenn Fjárfestingarstofunnar en þeir hafa milligöngu um slíkar fyrirspurnir. Við vorum upplýst um að engar slíkar eftirgrennslanir hefðu verið gerðar.

Við spurðum hvort ráðuneytismenn hefðu farið í saumana á bókhaldi deCODE. Ég nefndi þar vissa þætti. Ég spurði t.d. út í lán eða samninga sem gerðir voru 30. júní 1999 um greiðslu til Lúxemborgar, til einhvers sem heitir ,,buyer``, kaupandi. Þá var sagt að það væri ekki eðlilegt að menn væru að fara í saumana á bókhaldinu með þessum hætti. Jú, það er eðlilegt. Við erum nefnilega sett í þessa stöðu og við viljum fá að vita hvað er að gerast þarna innan veggja. Þetta er sértækur stuðningur og við erum sett í þá stöðu að okkur ber að fara í saumana á þessum málum. Ég spurði sérstaklega um þessa tilfærslu.

Ég hef áður beint spurningum til hæstv. fjmrh., hvort hann hafi kannað lánskjör fyrirtækisins og hvernig það sé skýrt eða hvaða skýringar menn hafa á því, hvaða skýringar fyrirtækið hafi gefið á að lánskjörin virðast fara mjög ört versnandi. Ég vitnaði í lánveitingar í desember og undir lok síðasta árs og síðan aftur lánveitingar í marsmánuði með 6% álagi á Libor. Samkvæmt upplýsingum úr fjármálaheiminum er það mjög hátt hlutfall. Þar erum við að tala um mörg hundruð milljóna kr. lán svo ég vísi til lánveitingarinnar í marsmánuði. Að hluta til var einnig tekið lán sem samkvæmt upplýsingum deCODE, sem birtast á bandaríska verðbréfavefnum, voru vísitölutryggð með 12% vöxtum. Þetta er óheyrilega hátt ef rétt er en þetta eru upplýsingar frá fyrirtækinu sjálfu. Hefur hæstv. fjmrh. farið í saumana á þessum tölum? Hefur hæstv. fjmrh. kannað hinar árangurstengdu greiðslur deCODE? Fulltrúar fjmrn. komu galvaskir og sýndu okkur samninga sem námu 200 og 300 millj. bandaríkjadollara. Síðan kemur í ljós að þetta eru markmiðstölur, eins og samningur frá 1998 upp á 200 millj. dollara. Þar voru 70 millj. dollarar, ef ég man rétt, fastar greiðslur sem skiptust á fimm ár. Hitt var árangurstengt.

Þegar farið er að skoða málið hefur þetta aðeins verið greitt að hluta. Hefur þetta verið skoðað? Að hluta til mælist árangur fyrirtækisins í þessu en ekki í fjálglegum yfirlýsingum þess sem við fáum aldrei tækifæri til að láta óvilhalla aðila skoða. Hefur það verið kannað? Hefur verið farið rækilega í saumana á viðskiptum fyrirtækisins við íslenska ríkisbanka? Voru það tilmæli ríkisstjórnarinnar á sínum tíma til ríkisbankanna að kaupa bandaríska áhættufjárfesta út úr fyrirtækinu fyrir milljarða kr.? Ég óska eftir upplýsingum um þetta. Voru það tilmæli ríkisstjórnarinnar til ríkisbankanna að kaupa bandaríska áhættufjárfesta út úr fyrirtækinu? Var það svo?

Þegar spurt er út í samninga við ríkið kemur síðan í ljós að gagnagrunnurinn er ekki, eins og við vitum, frágenginn. Þess vegna er ekki farið að greiða neitt fyrir hann. En engu að síður, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að, eru gerðir aðrir samningar um að greiða fyrir útlagðan kostnað við upplýsingaöflun sem ekki hefur verið innt af hendi. Auðvitað þurfum við að fá upplýsingar og svör við öllum þessum spurningum.

Við óskuðum líka eftir nánari upplýsingum um viðskiptasamninga fyrirtækisins við Hoffmann-La Roche, svo að dæmi sé tekið. Þar kemur fram að búið er að gera samning um sölu á blóði og tilgreint hvað það á að kosta. Þetta er hægt að finna í gögnum sem hver og einn getur flett upp á í upplýsingum um bandaríska skjalið sem er vísað til sem 10K frá 27. mars. Á bls. 50 greinir frá þessum blóðsamningum, þ.e. 50 dollara fyrir einhverja einingu. Hvaða samningar eru hér á ferðinni?

Við spurðum fulltrúa heilbrrn. um þetta. Þeir sögðu að um þetta giltu almenn lög og það væri ekki eðlilegt að fara ofan í saumana hjá einstökum aðilum. Ef þeir færu að lögum gætu fyrirtækin gert sína samninga og síðan hlýddu þeir almennum landslögum. Ég vek hins vegar athygli á því að það er að verða æðimikill samruni, ríkisins annars vegar og þessa fyrirtækis. Þegar spurt hefur verið um það í þingsal hvaða samningar hafi verið gerðir milli íslenskra heilbrigðisstofnana og þessa fyrirtækis er því svarað á mjög loðin og óljósan hátt og ekkert fast að hafa í hendi. Þannig hefur það verið. Ég hef margoft beint spurningum til ríkisstjórnarinnar og til hæstv. heilbrrh. um þetta efni og alltaf fengið loðin svör.

Hitt vitum við vel að læknar í íslenska heilbrigðiskerfinu hafa tekið upplýsingar úr heilbrigðiskerfinu og farið með þær inn í þetta fyrirtæki. Þeir hafa gert það. Ég sagði einhvern tíma frá því að ég hefði upplýsingar um að óskað hefði verið eftir blóðsýni úr sjúklingum geðdeildar á Akureyri, fá það inn í fyrirtækið. Mér er kunnugt um að þeirri beiðni hafi verið hafnað af þeim sem réðu á því sjúkrahúsi. Þetta mál mun hafa verið rætt hjá landlæknisembættinu. En auðvitað vakna ýmsar spurningar þegar maður sér samninga eins og þessa. Sannast sagna finnst mér ekki nógu gott að heilbrrn. skuli ekki fara ofan í saumana á þessu þegar ítrekað er óskað eftir upplýsingum um þetta. Þær er ekki að hafa. Samningar standast ekki. Þeir ganga ekki upp en það er óskað eftir því að Alþingi Íslendinga skrifi upp á 20 milljarða tékka með bundið fyrir augun. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Nú birtast í blöðunum alls kyns sigurfréttir, eins og jafnan gerist þegar erfiðir dagar eru hjá fyrirtækinu eða ríkisstjórninni.

Nú er það styrktarsjóður fyrir börn. Það var mikil frétt um það í Fréttablaðinu í gær. Í hann var veittur stuðningur í formi hlutabréfa á sínum tíma. Þessi hlutabréf þöndu síðan sjóðinn út þegar þau voru seld á gráa markaðnum. Ég spyr um siðferðið í þessu öllu saman, siðferðið í þessum styrktarsjóði. Þótt hann verði notaður til góðra verka eru þetta hlutir sem við skulum fara að ræða í alvöru, þegar skapaðir eru styrktarsjóðir á þessum forsendum á hinum gráa markaði. Við skulum ræða það í alvöru og í samhengi við ríkisstjórn sem hefur skorið niður við öryrkja og þá sem standa höllum fæti, sem greiðir atvinnuleysisbætur í kringum 70 þús. kr. á mánuði og dæmir fólk til örbirgðar og fátæktar. Hún ætlar síðan að kaupa sér sálufrið með þessum hætti.

Mörgum spurningum er ósvarað í þessu máli. Inn á eitt atriði vil ég þó koma undir lokin. Það er spurningin: Að hvaða marki er úthugsuð kerfisbreyting á ferðinni? Íslendingar verja tiltölulega litlu fé til rannsókna og hefur verið svo um langt árabil. Hlutfall ungs fólks sem leggur stund á raunvísindi er tiltölulega lágt hér á landi. Árið 1999 vorum við í 16. sæti. Framlag okkar til rannsókna innan háskóla hefur líka verið af skornum skammti.

[21:30]

Ákveðin kerfisbreyting fer að gerast á síðasta áratug 20. aldarinnar og í hverju er hún fólgin? Hún er fólgin í því að hefja stuðning við fyrirtæki en draga úr stuðningi við opinberar stofnanir á borð við Háskóla Íslands. Ég vek athygli á úttekt sem gerð hefur verið af hálfu Steindórs J. Erlingssonar og birtist vonandi í fjölmiðlum á komandi dögum og vonandi sýna fjölmiðlar henni áhuga. Á sama tíma og styrkurinn og stuðningurinn við einkafyrirtækin þýtur upp dregur úr honum við háskólann. Hvaða punktur skyldi þetta vera í mannkynssögunni? Það er tilkoma deCODE. Ég minni á það sem áður hefur komið fram í umræðunni að allflestir þeir sem komu til nefndarinnar og voru ekki beinlínis undir hæl ríkisstjórnarinnar, voru tiltölulega frjálsir menn, auglýstu eftir allt öðrum áherslum. Þeir sögðu: Það sem við eigum að gera, það sem ríkið á að gera til þess að styrkja þennan vísindageira er að styrkja rannsóknir almennt, styrkja Háskóla Íslands og styrkja rannsóknir almennt. Þetta var ráðleggingin. Síðan ættu fyrirtækin að þróast á eðlilegum markaðsforsendum.

Ég hef aldrei verið andvígur því að stuðningur sé veittur fyrirtækjum, aldrei, og mér finnst að engar alhæfingar eigi að setja fram um það efni. Þó er mjög mikilvægt, tel ég, að um þetta gildi almennar skýrar reglur. Það sem tillagan gengur út á að við gerum er að stuðla með beinum hætti að atvinnuuppbyggingu á tilteknu sviði. Þetta er freistandi hugsun. Ef rétt er að málum staðið og jafnræðissjónarmiða gætt er þetta freistandi hugsun. En hvað segja hinir sem eiga í erfiðleikum, sá atvinnurekstur sem berst í bökkum? Hvað segja menn þar? Ég segi það alveg hiklaust að ég hef ekki síður samúð með þeim geira og þeim byggðarlögum sem eru að bugast vegna erfiðrar stöðu. Þar hefði ég haldið að ríkisvaldið ætti að beita sér og fjármálakerfið og við höfum talað fyrir því í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði. Þess vegna vildum við hafa til staðar í samfélaginu uppbyggingarsjóði atvinnulífsins til þess að jafna út sveiflur og aðstoða atvinnulífið við að taka áföllum en jafnframt verða nýttir til uppbyggingar. Þetta er sú stefna sem við höfum talað fyrir. En frv. ríkisstjórnarinnar og þær tillögur sem liggja hér fyrir þinginu ganga í þveröfuga átt.

Herra forseti. Ég gæti talað miklu lengur og rakið þá umræðu sem fram fer í Bandaríkjunum og víða um heim um fyrirtæki á þessu sviði þar sem ég hef hlustað á ýmsa sérfræðinga sem þekkja inn á þessi mál. Ég gæti líka fjallað um þá umræðu sem fram fer um fjármálaheiminn í Bandaríkjunum og það er mjög athyglisverð umræða. Ég er með greinar úr bandarískum blöðum um það efni og málarekstur sem nú fer fram á hendur fjármálafyrirtækjunum. Ég ætla ekki að gera það. Ég tel að flest þau sjónarmið sem ég hef viljað koma fram með í umræðuna séu komin fram og ég geri mér grein fyrir því að ríkisstjórnin er búin að festa sig í því að kýla þetta í gegnum þingið með offorsi og ofbeldi. En ég leyfi mér að beina því til hæstv. fjmrh. að fara varlega með þá heimild sem stjórnarmeirihlutinn hér á þingi kann að veita honum því að sú heimild er ekki vel fengin.

Herra forseti. Ég hef beint nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra, hvort hann hafi kynnt sér lánskjörin, hvort hann hafi kynnt sér skuldastöðu og bókhald fyrirtækisins. Ég nefndi nokkur dæmi þar um, samskiptin við fjármálamarkaðinn hér, hvort því hafi verið beint frá ríkisstjórninni til ríkisbankanna að kaupa bandarísku áhættufjárfestana út á sínum tíma og hvort hann deili með mér áhyggjum um það að með ríkis\-ábyrgð séum við að þenja út stóran vinnustað og gera hann hugsanlega helmingi stærri, með því móti séum við að takast á herðar fjárhagslega og siðferðilega ábyrgð sem hugsanlega verði illa risið undir.