Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 21:58:01 (8710)

2002-05-02 21:58:01# 127. lþ. 135.1 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[21:58]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að gerast mjög skrautlegt. Þetta gerist allt með lögum, segir hæstv. ráðherra. Það er verið að víkja til hliðar lögum sem gilda um ríkisábyrgð. Það er gert með lögum og hvað segir í þeim lögum? Það segir að fjmrh. veiti þessa ábyrgð að uppfylltum skilyrðum sem hann metur gild. Og nú kemur hann hingað í ræðustól og segir: Þetta er allt löglegt. Það er löglegt að færa valdið í hendur hans á þennan hátt. Einhvern tíma var sagt: Löglegt en siðlaust. Að sjálfsögðu á það við um þetta efni.

Varðandi ríkisbankana hef ég spurt eftir því hvort ríkisstjórnin, einstakir ráðherrar, hvort sem það er hæstv. fjmrh. eða hæstv. viðskrh., hafi gefið þeim tilmæli um að kaupa bandarísku fjármálaáhættufjárfestana út. Þetta eru engar dylgjur. Ég sagði ekki að þetta hefði verið gert með það í huga að hafa fé af íslenskum almenningi. Ég hef aldrei dylgjað um það. Ég spurði um það eitt hvort þeim hefðu verið gefin þessi tilmæli vegna þess að ég hef grun um að það sem er að gerast í þessu máli sé einfaldlega þetta: Það eru talaðar upp væntingar hjá fjármálakerfinu og hjá ríkisstjórninni af hálfu forsvarsmanna Íslenskrar erfðagreiningar. Þess vegna kemur hæstv. fjmrh. fram og segir: Ég trúi. Ég trúi að fyrirtækið mundi standa sig að lánstímanum loknum. Á þessum forsendum er ætlast til þess að Alþingi Íslendinga afnemi lög um ríkisábyrgð og veiti einum ráðherra heimild að eigin mati til þess að framkvæma þennan óskapnað.