Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:21:56 (8720)

2002-05-02 22:21:56# 127. lþ. 135.14 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv. 92/2002, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:21]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifa undir nál. meiri hluta með fyrirvara og einnig hv. þm. Samfylkingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir. Ég vil fylgja þeim fyrirvara úr hlaði með fáeinum orðum.

Fyrst vil ég segja að við glímdum við þetta mál í fyrravetur. Það kom þá mjög seint inn og var illa undirbúið. Má líkja því við málefni Umhverfisstofnunar sem nánast rak á fjörur okkar fyrir fáum dögum. En í fyrra endaði það þannig að þessu máli var frestað og fyrir mitt leyti get ég sagt að bæði hafa verið gerðar ákveðnar bragarbætur á málinu og skilningur þeirra sem eiga hlut að máli hefur aukist á málinu við þá umfjöllun sem hefur orðið.

Meiri fjármunir hafa fengist til náttúrustofanna, og sveitarfélögin una betur við málið núna en var fyrir ári. Ég tel, og við samfylkingarmenn, að það fyrirkomulag sem hér er verið að taka upp, að færa náttúrustofurnar til sveitarfélaganna með þessum hætti, sé rétta fyrirkomulagið. Ég verð hins vegar að segja að ég tel að framtíð náttúrustofanna sé ekki tryggð með þessari niðurstöðu, einfaldlega vegna þess að þær eru of litlar, of lítil starfsemi fer fram í náttúrustofunum. Nánast hver maður sem vinnur á þessum litlu vinnustöðum er upptekinn við rekstur viðkomandi stofu, og stjórnsýsla stofunnar er allt of stór hluti af rekstri hennar. Ég held að menn þurfi að skoða mjög vandlega í framtíðinni hvort ekki sé hægt að finna þessum náttúrustofum stærra hlutverk og veita til þeirra meiri fjármuni þannig að hver stofa geti haft meira umfang og fleiri starfsmenn. Það umhverfi sem þeir byggju við yrði þá þannig að meiri árangur næðist með þá krafta sem eru þar til staðar. Það er ekki hægt með því að einungis sé um einn eða tvo starfsmenn að ræða í þeim litlu náttúrustofum sem við erum að tala um.

Svo er ástæða til að velta því fyrir sér líka hvort náttúrustofurnar þurfi ekki að skilgreina sig með mismunandi hætti, eru þá ýmist stjórnsýslustofur eða við rannsóknir. Þetta var allt saman rætt við umfjöllun nefndarinnar, bæði í fyrravetur og aftur núna. Við teljum þann áfanga sem nú verður í þessu máli vera til bóta og þess vegna höfum við ákveðið að styðja þetta mál. Fyrirvarinn lýtur að því sem ég var að nefna.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð þó að ýmislegt mætti um það segja en ég vona sannarlega að sveitarfélögunum auðnist að byggja þessar stofur upp, samkomulag náist við fleiri sveitarfélög um að taka þátt í þessu. Því miður eru þau allt of fá sem taka þátt í þeim stofum sem um er að ræða og svo eru ákveðnir gallar sem mætti líka nefna, t.d. má segja að engin góð röksemd sé fyrir því að þessar náttúrustofur eigi að vera einmitt átta eins og hér er ákveðið. Það er sem sagt verið að ákveða að tvær náttúrustofur muni bætast við. Samt sem áður er ágreiningur um þær náttúrustofur sem eru til í landinu. Það er t.d. til náttúrustofa í Kópavogi sem greinilega er ekki gert ráð fyrir að falli undir þær skilgreiningar sem hér eru á ferðinni. Það er auðvitað umhugsunarefni vegna þess að sveitarfélagið þar hefur komið þessari starfsemi á fót. Ég þekki þá starfsemi ekki nægilega vel en hún er þó til staðar, og mér finnst ekki nógu gott ef það er ekki hægt að koma til móts við öflug sveitarfélög sem vilja reka einhverja starfsemi af þessu tagi. En þarna er dæmi um það.

Lokaorð mín eru þau að ég tel að þó að þessi áfangi sé kominn sé langt í frá að menn hafi tryggt framtíð þessarar starfsemi og ég vona að menn haldi vöku sinni og reyni að sjá til þess að hún geti eflst og aukist því að ég held að þær litlu stofur sem við erum að tala um eigi ekki langa framtíð fyrir sér ef mönnum tekst ekki að stækka þær og efla.