Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 22:27:40 (8721)

2002-05-02 22:27:40# 127. lþ. 135.14 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv. 92/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur er til 2. umr. Ég vil einmitt vekja athygli á því sem kemur fram í ágætu nál. minni hluta umhvn., hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að í rauninni liggur ekki fyrir skýrt markmið af hálfu löggjafans með rekstri og starfrækslu þessara náttúrustofa. Það hefði verið eðlilegt og miklu nær að farið hefði verið í nákvæma vinnu um hvert ætti að vera hlutverk þeirra og staða, bæði stjórnsýsluleg og verkefnaleg. En frekar er frv. hrist áfram í hálfgerðum óskilgreindum heimi. Þetta er einmitt afar gagnrýnisvert.

Jafnframt erum við að fjalla um frv. til laga um Umhverfisstofnun sem tekur að mörgu leyti á hliðstæðum verkefnum og verið er að ræða um að gæti verið hlutverk náttúrustofanna. Umhverfisstofnun á að verða miðlægt apparat, væntanlega á höfuðborgarsvæðinu, og draga á aftur inn á höfuðborgarsvæðið undir Umhverfisstofnun verkefni án þess að þar sé búið að skilgreina eða átta sig á hvert hlutverk og markmið með starfrækslu þeirrar stofnunar eigi að vera. Við erum því samtímis að ræða um tvö frv. sem fjalla að stórum hluta um sama málaflokkinn markmiðslítið. Það eru, virðulegi forseti, alveg dæmalaust léleg vinnubrögð, óvönduð og ómarkviss, sem við stöndum hér frammi fyrir í líki þeirra frv. sem umhvn. er að afgreiða að beiðni umhvrh. Frv. um Umhverfisstofnun fór meira að segja í gegn án þess að hafa farið til umsagnar.

Herra forseti. Það hefði þurft að taka þessi mál saman og skoða þau í samhengi. Það hefði t.d. verið hægt að taka mörg þeirra verkefna sem ætlunin er að fela Umhverfisstofnun og láta þau falla undir verkefni náttúrustofa úti um land. Með þessu frv. er verið að flytja náttúrustofurnar alfarið undir sveitarfélögin og þá má spyrja hver framtíðarþróun þar verði. Er ekki eins líklegt að hvert sveitarfélag, a.m.k. sveitarfélög sem hafa landfræðilegar hliðstæður eða liggja saman landfræðilega, komi sér upp slíkum stofum? Núna er fullkomlega handahófskennt hvernig þær eru settar niður. Gefin er talan átta meira eða minna út í loftið. Auðvitað ætti engin tala að vera þarna heldur ætti þetta þá að ákvarðast af verkefnum, verkefnastöðu og hlutverki á vegum sveitarfélaganna.

Ég sæi t.d. fyrir mér að önnur stofa gæti komið á Miðvesturlandið, á Borgarfjarðarsvæðið, og væri ekkert óeðlilegt að þar kæmi stofa. Nú er verið að sameina sveitarfélög þar sem leiðir til æ stærri sveitarfélagseiningar. Þá gætu verkefni sem gætu tilheyrt þessari náttúrustofu og einnig á vegum væntanlegrar Umhverfisstofnunar átt samleið og fallið undir verkefni viðkomandi sveitarfélags og gæti þar notið stuðnings ríkisins eins og hér er verið að gera tillögu um varðandi náttúrustofurnar.

Það er líka gagnrýnisvert að hér er verið að samþykkja lög um greiðsluþátttöku sveitarfélaganna, einhliða aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins, að samþykkja lög um útgjaldaskyldur sveitarfélaganna án þess að þau séu samþykk þeirri málsmeðferð, hvorki í heild sinni né að hluta. Sú vinna sem liggur á bak við er því öll í skötulíki, bæði hugmyndafræðilega, markmiðslega og jafnframt gagnvart þeim aðilum sem eiga að standa að framkvæmd á þessum verkefnum, standa ábyrg gagnvart þeim náttúrustofum sem hér er verið að leggja til.

Þess vegna er fullkomlega eðlilegt, herra forseti, að þessu máli verði vísað frá og það unnið betur. Ég ítreka það, og eins að fráleitt er að nefna töluna átta. Hvers vegna ekki tíu? Hvers vegna ekki tólf? Það ætti engin tala að standa þarna. Og hvers vegna er sett inn í frv. að eðlilegast sé að næstu stofur komi á Norðaustur- og Suðausturlandi? Þetta á að ráðast af því hvar verkefnalegar aðstæður eru fyrir hendi og hver markmiðin með þessari starfsemi eru en ekki bara handahófskennd vinnubrögð eins og þetta frv. ber vitni um. Ég ítreka að það ætti að vísa þessu frá eins og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í umhvn. leggur til.