Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:08:01 (8730)

2002-05-02 23:08:01# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:08]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þm. Þuríður Backman, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í landbn., hefur gert ítarlega grein fyrir því áliti sem hún stendur að um þetta frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Með nál. hennar fylgja einmitt samþykktir frá nokkrum félögum sauðfjárbænda og einnig einstaklingum sem vinna að sauðfjárrækt þar sem kemur fram að núgildandi sauðfjársamningur hefur alls ekki verið samkvæmt þeim væntingum sem þeir töldu sig vera búna að ganga frá á sínum tíma, og skora því á stjórnvöld að hann verði endurskoðaður. Ég tel því afar mikilvægt að það verði gert.

Jafnframt tek ég undir að stærsta mál sauðfjárræktarinnar er markaðsmálin, einkum innan lands, sem hafa því miður lent í lamasessi með hörmulegum afleiðingum eins og við upplifum nú. Það væri virkilega þarft að beina frekar kröftum sínum að því að styrkja og efla markaðsstarf á sauðfjárafurðum innan lands en að setja aukna klafa á bændur í sauðfjárræktinni sem ekki hafa sýnilegan tilgang.

Virðulegi forseti. Það sem ég ætlaði að spyrja um varðar úthlutun á þeim ærgildum sem Byggðastofnun var falið að úthluta á sínum tíma, einum 7.500 ærgildum sem átti að úthluta, og ef stjórnarformaður Byggðastofnunar væri í nálægð í húsinu ... (Landbrh.: Landbrh. er hérna.) Já, virðulegi forseti. Það er ágætt að hæstv. landbrh. er hér og hann fer kannski með það hlutverk sem var þá falið Byggðastofnun. Ég geri ráð fyrir að hann geti svarað því. En mér finnst mikilvægt að við fáum svar við því hvernig málin standa með úthlutun á þessum ærgildum sem hefur verið ætlað að úthluta til þeirra bænda sem mundu falla undir þau ákvæði sem væru tekin til viðmiðunar við úthlutun á þessum ærgildum. Það hefur lítið heyrst um framkvæmd á þessu en ég tel brýnt að okkur sé öllum gerð grein fyrir því hvernig þau mál standa.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti legg ég áherslu á að endurskoðun á sauðfjársamningum fari fram eins og hér hefur verið talað um og legg áherslu líka á að framsali á framleiðslurétti, greiðslumarki og öðrum slíkum aðgerðum verði frestað þangað til búið verður að endurskoða þennan samning aftur og átta sig betur á hvaða afleiðingar hann kunni að hafa fyrir byggð og búsetu í landinu og afkomu sauðfjárbænda þannig að Alþingi geti tekið á þessu máli í ljósi nýrra upplýsinga.