Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:22:59 (8733)

2002-05-02 23:22:59# 127. lþ. 135.21 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:22]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að Íslendingar eru mjög metnaðarfullur og kröfuharður neytendahópur og gera miklar kröfur til markaðarins um sína vöru. Það höfum við ekki síst séð í sambandi við, hv. þm., írskar nautalundir eða eitthvað slíkt sem komið hefur upp. Við eigum mjög kröfuharða neytendur sem eiga auðvitað því að venjast að hér sé mjög góð vara á markaðnum.

Ég ætla ekki að gera lítið úr lífrænu eða vistvænu. Lífræna hugsunin hefur mikil áhrif á búskap heimsins og er sú hugsun mjög hagstæð fyrir Íslendinga, dregur úr verksmiðjubúum, sóðaskap í landbúnaði, illri meðferð á dýrum o.s.frv. Hún hefur mjög mikil áhrif. Ég hef reynt sem landbrh. að sinna þessu viðhorfi innan lands eins og ég hef getað og komið upp lífrænni miðstöð á Hvanneyri. En gæðastýring þessi er fyrst og fremst auðvitað búskaparaðferð, ræktunarstarf, fyrst og fremst til að bæta tekjur bændanna, auka metnað þeirra og búskaparlag. Síðan hafa menn fullt val og verða að koma vöru sinni á markað eftir öllum þeim reglum sem gilda í heilbrigðismálum og því eftirliti, og ekkert síður að fylgja því eftir sem hv. þm. nefndi að neytandinn er mjög meðvitaður um hvað á borð hans kemur og hvað hann kaupir í versluninni. Það er mjög auðveldur hlutur. Hér er verið að stíga skref og því munu auðvitað fylgja mörg og fleiri skref í framtíðinni.