Brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:27:43 (8735)

2002-05-02 23:27:43# 127. lþ. 135.17 fundur 564. mál: #A brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.# frv. 93/2002, Frsm. minni hluta ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:27]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Með frv. er lagt til að embætti héraðslækna verði felld niður. Embætti héraðslækna hafa verið í gildi frá árinu 1978 og hafa verið mikilvægur tengiliður heilbrigðisstjórnar við heilbrigðisstofnanir í héruðunum. Með stækkun heilbrigðisstofnana og ýmsum öðrum breytingum hefur hlutverk héraðslækna eðlilega breyst og fyrir nokkrum árum var á fundum héraðslækna með heilbrrn. og landlæknisembættinu rætt um mögulegar breytingar á héraðslæknisembættunum. Það sjónarmið var ríkjandi eftir því sem umræðan þróaðist að fækka ætti embættunum og stækka þau. Þessari umræðu var ekki fylgt eftir með formlegu nefndarstarfi sem leitt hefði til ákveðinnar niðurstöðu.

Þegar héraðslæknisembættin voru sett á var hugmyndin sú að styrkja opinbera stjórnsýslu innan heilbrigðisþjónustunnar úti um land og koma á meiri dreifingu starfa á vegum heilbrrn. og landlæknisembættis. Því miður fengu héraðslæknisembættin aldrei þann stuðning og fjármagn sem til þurfti til að fylgja þessu eftir og byggja upp raunverulegar þjónustueiningar úti um allt land. Störf héraðshjúkrunarfræðinga voru t.d. aldrei sett á laggirnar.

Starf héraðslæknis er fjölbreytt og tengist m.a. heilbrigðiseftirliti, málefnum fatlaðra, ýmsum málefnum lögreglu og almannavarna og skapar almenna yfirsýn yfir sérkenni og vandamál íbúa í ákveðnum landshluta. Héraðslæknir hefur ákveðið hlutverk sem sérstakur fulltrúi (ráðunautur) heilbrigðisstjórnarinnar í umdæminu og jafnframt talsmaður íbúa gagnvart yfirstjórn heilbrigðismála í Reykjavík. Það hefur veitt fólki þá tilfinningu að ekki þurfi að leita með öll erindi til höfuðborgarinnar heldur geti það fengið skoðun á sínum málum í heimabyggð.

Með frv. er í raun verið að leggja niður einu 100% embættislæknisstöðuna á landsbyggðinni. Í þessu sambandi má benda á að Reykjavík hefur hátt á annan tug embættislækna ef taldir eru saman þeir sem starfa við landlæknisembættið, heilbr.- og trmrn., Tryggingastofnun ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins. Eðlilegt hefði verið að stærstu héraðslæknaembættin hefðu fengið að halda sér, t.d. á Akureyri.

Í umsögn fjmrn. kemur fram að í fjárlögum fyrir árið 2002 hafi verið tekið tillit til þess að leggja eigi niður héraðslæknisembættin á þessu ári og útgjöld ríkisins lækki við það um 15 millj. kr. Framlag í fjárlögum til héraðslæknisembættisins á Norðurlandi eystra er 8 millj. kr. á þessu ári en hefði orðið 13,5 millj. kr. ef ekki hefðu komið til fyrirætlanir um að leggja embættið niður. Í frv. er gert ráð fyrir að rúmur þriðjungur af þessari fjárhæð, þ.e. 4,8 millj. kr., færist til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri á árinu 2003 og 3,2 millj. kr. færist til heilsugæslunnar í Reykjavík. Eftir standa 5,5 millj. kr. Samkvæmt þessu verður að gera ráð fyrir að þau verkefni sem eftir standa muni færast til ráðuneytis og/eða landlæknisembættis án kostnaðarauka fyrir þessa aðila sem verður að teljast vafasöm ályktun. Samkvæmt framansögðu færast rétt tæplega 2/3 hlutar núverandi verkefna héraðslæknisembættisins á Norðurlandi eystra burt af svæðinu og minnka fjárveitingar til heilbrigðisþjónustu á svæðinu að sama skapi um 8,7 millj. kr. Af umsögn fjmrn. og umfangi héraðslæknisembættanna er ljóst að niðurlagning embætta héraðslækna kemur fyrst og fremst niður á Norðurlandi eystra, bæði fjárhagslega og atvinnulega.

Héraðslæknum hefur verið ætlað að sinna því mikilvæga hlutverki að hafa yfirsýn yfir heilbrigðismál í héraði, samhæfa verkefni og tengja aðila saman innan héraðs. Ef á hinn bóginn er ætlast til þess að yfirlæknar einstakra heilsugæslustöðva á hverju svæði sinni hver fyrir sig þessum verkefnum verður erfiðara að ná fram þeirri yfirsýn og samhæfingu sem nauðsynleg er í málaflokknum innan héraðs.

Skv. 4. gr. frv. er kveðið á um að skipting landsins í heilsugæsluumdæmi skuli ákveðin í reglugerð. Eðlilegt hefði verið að þessi skipting lægi ljós fyrir þegar ætlunin er að flytja til verkefni og fjármagn eins og frv. gerir ráð fyrir.

Skv. 8. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, skulu héraðslæknar hafa eftirlit með því að lögum og reglum um heilbrigðismál sé framfylgt í héraðinu. Jafnframt hafa þeir haft á hendi ákveðið eftirlitshlutverk í umboði landlæknis samkvæmt erindisbréfi. Því er mikilvægt að efla þessa þætti í starfsemi landlæknisembættisins ef embætti héraðslækna verða lögð af. Að mati minni hlutans er mikilvægt að halda þeirri sýn að stjórnsýslunni sé sem mest sinnt í héruðum í stað þess að færa verkefnin til landlæknisembættisins og fjölga starfsmönnum þar.

Að undanförnu hefur ríkt mikil óánægja meðal heilsugæslulækna vegna ýmissa þátta sem lúta að kjaramálum og starfsumhverfi stéttarinnar. Þær hugmyndir sem í frv. felast og ganga út á það að bæta verkefnum héraðslækna á yfirlækna heilsugæslunnar án þess að fullar fjárveitingar komi á móti eru því algjörlega óraunhæfar. Hugmyndum af þessu tagi á ekki að hrinda í framkvæmd nema að undangengnum nauðsynlegum skipulagsbreytingum og mannaráðningum, sérstaklega hvað varðar héraðslæknisembættið á Norðurlandi eystra og í Reykjavík, og jafnframt verður að gera kröfu um að fyrir liggi kostnaðaráætlun. Verkefnin hverfa ekki og óvarlegt er að gera ráð fyrir minni kostnaði við framkvæmd þeirra án frekari rökstuðnings.

Minni hlutinn leggur því til að afgreiðslu málsins verði frestað og þegar skipuð samstarfsnefnd héraðslækna, heilbrrn. og landlæknisembættisins til að gera tillögur að skipulagsbreytingum innan heilbrigðisþjónustunnar með tilliti til breyttrar stöðu heilsugæslulækna og að málið verði tekið upp að fenginni niðurstöðu nefndarinnar.

Til vara leggur minni hlutinn til að gildistöku frv. verði frestað til 1. jan. 2003 svo að tími gefist til að vinna að undirbúningi að framgangi frv., bæði hvað varðar verkefnaflutning, ráðningarsamninga og skipulagsbreytingar innan heilsugæslunnar.

Herra forseti. Því legg ég fram brtt. á þskj. 1360 sem orðast svo:

,,38. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.``