Brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:35:22 (8736)

2002-05-02 23:35:22# 127. lþ. 135.17 fundur 564. mál: #A brottfall lagaákvæða um héraðslækna o.fl.# frv. 93/2002, MF
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:35]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. formanni heilbr.- og trn. í framsögu skrifum við hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir undir nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara.

Við erum út af fyrir sig sammála þeirri skipulagsbreytingu sem lögð er til að gerð verði, þ.e. að hlutverk héraðslækna verði lagt af og aðrar breytingar tengdar því gerðar á ýmsum lögum. Við erum sammála því að eðlilegt sé að gera þessa skipulagsbreytingu en hins vegar er stuðningur okkar háður því að veitt verði fjármagn til þeirrar starfsemi sem færa á yfir til heilsugæslunnar.

Það vekur nokkra furðu að í fskj. með frv., frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., er gert ráð fyrir sparnaði upp á 15 millj. kr. við að færa þau verkefni sem hafa verið hjá héraðslæknum yfir á heilsugæslustöðvarnar. Ætla mætti að þessum verkefnum sem hafa verið hjá héraðslæknum fylgdi enginn kostnaður eða að fyrirliggjandi væri slíkt fjármagn til heilsugæslunnar að hún gæti auðveldlega tekið við verkefnunum og ráðið starfsmenn til að sinna þeim. Það er augljóst að ef yfirlæknir heilsugæslu á að sinna verkefnum sem áður hafa verið hjá héraðslækni verður hann að hafa tíma til að sinna þeim. Það þýðir að hann hefur minni tíma til að taka á móti sjúklingum og sinna öðrum störfum á heilsugæslustöðinni. Þar af leiðandi má reikna með að þetta þýði eitt viðbótarstöðugildi á hverri heilsugæslustöð sem þessi verkefni færast til.

Ég held að þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar, virðulegi forseti, einkennist af vanþekkingu á því mikla starfi sem fram fer á heilsugæslustöðvunum. Eins og fram kemur í umsögninni er meiri hluti nefndarinnar á þeirri skoðun að fylgjast þurfi vel með þessari tilfærslu verkefna yfir á heilsugæslustöðvarnar og Alþingi sjái þá til þess að eðlilegt fjármagn fylgi með.

Fyrirvari okkar beinist fyrst og fremst að þessu. Það kemur fram í umsögnum sem borist hafa sem ég sé ekki ástæðu til að lesa frá orði til orðs, þ.e. umsagnir, m.a. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem minna á að framlög þurfi að fylgja þessari yfirfærslu. Einnig kom umsögn frá héraðslækninum í Reykjavík, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Er því brýnt að Heilsugæslunni verði tryggðir fjármunir til þess að ráða lækningaforstjóra til Heilsugæslunnar og honum sköpuð fullnægjandi starfsaðstaða með aðstoðarfólki.``

Það er umsögn frá heilsugæslunni í Kópavogi þar sem lögð er áhersla á að fjármagn fylgi með og segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt fylgiskjali virðist enn eiga að flytja verkefni yfir til heilslugæslu án þess að eðlilegt fjármagn fylgi. Vandi heilsugæslunnar er nægur þó ekki sé enn aukið þar á.``

Héraðslæknirinn á Suðurlandi leggur að sama skapi áherslu á að fjármagnið fylgi. Það gera reyndar flestir umsagnaraðilar. Þeir eru í sjálfu sér ekki á móti því að þessi verkefni séu færð til heilsugæslunnar. Þeir leggja áherslu á að fjármagið fylgi með og fyrirvari okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar í heilbr.- og trn., er fyrst og fremst til að hnykkja á að þarna verði vel að verki staðið og við munum að sjálfsögðu fylgjast með því við afgreiðslu fjárlaga í haust að heilsugæslan fái fjármagn til að sinna þessum verkefnum og vitanlega það fjármagn sem hún þarf til að sinna því mikilvæga hlutverki sem hún gegnir.