Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:40:11 (8737)

2002-05-02 23:40:11# 127. lþ. 135.26 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál. 31/127, Frsm. JBjart (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:40]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. heilbr.- og trn. um till. til þál. um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum, 44. mál, nál. á þskj. 1374. Í nál. eru tilgreindir þeir aðilar sem skiluðu umsögnum um þetta mál.

Nefndin tekur undir efnisatriði tillögunnar og þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð með henni.

Nefndin telur þó nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á tillögugreininni. Annars vegar bendir nefndin á að ráðherra verði ekki skyldaður með ályktun Alþingis einni saman til að hrinda umræddu forvarna- og leitarstarfi í framkvæmd. Í ályktun Alþingis felst hins vegar yfirlýsing sem eðlilegt er að handhafar framkvæmdarvaldsins taki tillit til. Leggur nefndin til breytingar á tillögutextanum í samræmi við þetta. Hins vegar leggur nefndin til að efni tillögugreinarinnar verði afmarkað með skýrari hætti þannig að sjónum manna verði fyrst og fremst beint að forvarna- og leitarstarfi hjá þeim sem teljast vera í áhættuhópi.

Nefndin bendir á að mikið starf hefur þegar verið unnið á þessu sviði og gerir nefndin ráð fyrir að á því verði byggt við þá tillögusmíð og undirbúning sem lagt er til að ráðist verði í.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri breytingu:

,,Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra í samráði við landlækni að gera tillögur um hvernig staðið skuli að forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi fyrir þá sem teljast vera í áhættuhópi og undirbúa framkvæmd starfsins. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttu við aðrar algengustu tegundir krabbameins hér á landi.``

Undir þetta álit rita auk framsögumanns hv. þm. Katrín Fjeldsted, Einar Oddur Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir og Ásta R. Jóhannesdóttir, en aðrir þingmenn heilbr.- og trn. voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.