Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:42:42 (8738)

2002-05-02 23:42:42# 127. lþ. 135.26 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál. 31/127, MF
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:42]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til lokaafgreiðslu afar merkileg tillaga um auknar forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi og öðrum sjúkdómum þeim tengdum, tillaga sem hv. þm. Árni Ragnar Árnason er 1. flm. að. Með honum er fjöldi þingmanna úr öllum þeim flokkum sem hér starfa. Ég fagna því sérstaklega að við skyldum ná að afgreiða þessa tillögu, við sem vorum mætt gerðum það auðvitað einróma en um málið var samstaða í heilbr.- og trn.

Virðulegi forseti. Þetta er fyrsta málið, sem er dálítið sérstakt, af átta þingmannamálum sem hér eru til afgreiðslu í kvöld á dagskrá þingsins, þ.e. sem eru afgreidd frá heilbr.- og trn. Ég vil nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, vegna þess að ég sé ekki ástæðu til að koma upp í hverju einasta máli til að lýsa ánægju minni með afgreiðsluna og samstöðu þingmanna. Þess í stað þakka ég fyrir samstöðna nú við þetta tækifæri. Öll þessi átta mál eru afar mikilsverð. Ég vil sérstaklega þakka fyrir afgreiðslu á 37. máli á dagskránni, sem er aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna, þar sem 1. flm. er Jóhanna Sigurðardóttir. Engu að síður er það þverpólitískt mál eins og reyndar öll þau sem við höfum verið að afgreiða og full samstaða er um.

Ég sé ástæðu til, vegna þess að ég hef nokkra þingreynslu og verið er að afgreiða fleiri mál þingmanna en ég man áður til að tekin hafi verið til afgreiðslu í þeim nefndum sem ég hef starfað í á hv. Alþingi, að þakka jafnframt fyrir samstarfið í nefndinni. Ég býst við að þetta sé okkar lokafundur. Nefndarmönnum þakka ég fyrir samstarfið en ekki síður starfsmönnum þingsins og starfsmanni nefndarinnar fyrir sérlega ánægjulegt og árangursríkt samstarf eins og dagskrá kvöldsins ber með sér.