Óhefðbundnar lækningar

Fimmtudaginn 02. maí 2002, kl. 23:47:20 (8740)

2002-05-02 23:47:20# 127. lþ. 135.30 fundur 33. mál: #A óhefðbundnar lækningar# þál. 32/127, Frsm. JBjart (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur, 127. lþ.

[23:47]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti hv. heilbr.- og trn. á þskj. 1215 um 33. mál sem er till. til þál. um óhefðbundnar lækningar. Í nál. eru tilgreindir þeir sem skiluðu umsögnum um málið, sem allar voru jákvæðar, svo og þeir gestir sem nefndin fékk á sinn fund vegna þess.

Efni þessarar tillögu gerir ráð fyrir að Alþingi feli heilbrrh. að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og beri hana saman við stöðu mála annars staðar. Atriðin sem tillagan gerir ráð fyrir að verði könnuð sérstaklega eru þau hvaða menntun sé í boði á þessu sviði og hver sé menntun leiðbeinenda sem þar starfa, hvaða reglur gildi um viðurkenningu náms- og starfsréttinda og að hvaða marki samstarf eigi sér stað á milli þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar og hefðbundinna heilbrigðisstétta, að hvaða marki læknar og aðrar heilbrigðisstéttir nýti sér aðferðir óhefðbundinna lækninga og jafnframt hver sé staða þeirra með tilliti til skatta og þó einkum virðisaukaskatts.

Einnig er þessari nefnd ætlað að safna saman niðurstöðum rannsókna á áhrifum og virkni þessara aðferða og þeirri áhættu sem þeim fylgi og svo að kanna algengi þess að fólk leiti eftir slíkri þjónustu.

Það er álit hv. heilbrn. að brýnt sé að ráðist verði í þá vinnu sem tillagan gerir ráð fyrir og að ljóst sé að svokallaðar óhefðbundnar lækningar eru stundaðar hér á landi í talsverðum mæli með þegjandi samþykki yfirvalda.

Nefndin telur að tilfinnanlega skorti regluramma um þessa starfsemi svo að unnt sé að hafa eftirlit með henni og vernda hagsmuni notenda þessarar þjónustu sem og starfsöryggi og heiður þeirra sem sannanlega hafa aflað sér þekkingar til að veita hana. Þessi starfsemi hefur hingað til farið fram í einhvers konar lagalegu tómarúmi með afskiptaleysi yfirvalda og er mikilvægt að ráða bót á því vegna eðlis þjónustunnar. En áður en af því getur orðið verður þó að vinna ákveðna grunnvinnu og kortleggja þessa starfsemi sem fyrsta skref að því markmiði að mynda um hana lagaramma.

Nefndin bendir á að hugtakið óhefðbundnar lækningar er að mörgu leyti óljóst. Undir það falla mörg ólík meðferðarform og aðferðir sem eiga það fyrst og fremst sameiginlegt að falla ekki undir svokallaðar hefðbundnar lækningar. En nefndin áréttar annars vegar að þær aðferðir sem tillögugreinin getur um eru nefndar í dæmaskyni og ekki er um tæmandi talningu að ræða og hins vegar að samkvæmt þeim skilningi sem nefndin leggur í orðið óhefðbundnar lækningar eiga hnykklækningar ekki þar undir enda hefur frá 1990 verið í gildi reglugerð um starfsemi hnykkja eða kírópraktora og sú starfsemi því notið nokkurrar sérstöðu. Því leggur nefndin til að hnykklækningar verði felldar út úr tillögugreininni.

Nefndin gerir þó ráð fyrir að þessi grein lækninga verði skoðuð með tilliti til skyldra meðferðarúrræða og þeirra menntunarkrafna sem gerðar eru en afstaða nefndarinnar er jafnframt sú að ekki eigi að leggja áherslu á löggildingu starfsréttinda í þessum greinum heldur geti í flestum tilvikum verið nægjanlegt að viðurkenna nám og réttindi og í því felist nægjanleg neytendavernd.

Þá bendir nefndin á að heitið óhefðbundnar lækningar er misvísandi, bæði vegna þess að þessar aðferðir eru oft síður en svo óhefðbundnar en sérstaklega vegna þess að orðið lækningar vísar um of til lækninga sem læknar með læknaleyfi hafa nú lögum samkvæmt einir heimild til að stunda. Því mælist nefndin til að sú nefnd sem skipuð verður, verði tillagan samþykkt, skoði hvort ekki megi finna heppilegra samheiti á þessar aðferðir.

Sá tímarammi sem nefndinni er ætlaður samkvæmt tillögunni er að mati nefndarinnar of stuttur ef vel á að standa að verki og leggur nefndin því til að hann verði rýmkaður.

Hv. heilbr.- og trn. leggur til að þessi tillaga verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef þegar gert grein fyrir og tekur, að frátöldum þeim atriðum sem þær lúta að, undir efni tillögunnar og undir sjónarmiðin á bak við hana í greinargerðinni.

Að áliti þessu standa auk framsögumanns hv. þm. Ásta Möller, Einar Oddur Kristjánsson, Katrín Fjeldsted, Ásta R. Jóhannesdóttir, Þuríður Backman og Margrét Frímannsdóttir en aðrir hv. nefndarmenn í heilbr.- og trn., Lára Margrét Ragnarsdóttir og Ólafur Örn Haraldsson, voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.