Ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar

Föstudaginn 03. maí 2002, kl. 14:14:09 (8796)

2002-05-03 14:14:09# 127. lþ. 137.2 fundur 714. mál: #A ábyrgð skuldabréfa vegna nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar# frv. 87/2002, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ríkisábyrgð til eins fyrirtækis í einum mesta áhætturekstri sem til er, lyfjaþróun, sem ekki hefur verið stunduð hér á landi í neinum mæli, gengur þvert á þá stefnu ríkisstjórnarinnar að hverfa frá sértækum aðgerðum og skapa atvinnurekstri almenn skilyrði sem gefið hefur mjög góða raun á liðnum áratug. Þessi ríkisábyrgð gengur líka þvert á þá reglu í fjárfestingum að menn eigi að gera það sem þeir kunna best og að áhætturekstur eigi að fjármagna með áhættufé. Vegna skorts á upplýsingum um áhættudreifingu og gjaldtökulíkur hef ég reynt að meta hreint huglægt þá áhættu sem hér er um að ræða og met hana ekki undir 60% að þessi ríkisábyrgð falli til. En ég vona vegna þjóðarinnar og starfsmanna þessa fyrirtækis að ekki komi til þess, enda væri það skellur fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu upp á 277 þús. kr.

Ég vara eindregið við samþykkt þessa frv. og segi nei, herra forseti.