Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 03. maí 2002, kl. 15:04:50 (8824)

2002-05-03 15:04:50# 127. lþ. 137.11 fundur 562. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðigjald o.fl.) frv. 85/2002, EOK (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 137. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Með lögfestingu þessa frv. er formlega verið að setja á auðlindaskatt á íslenskan sjávarútveg. Það er mjög mikið óhappaverk. Það er bæði ranglátt og hættulegt.

Þessi auðlindaskattur mun skerða samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar í landinu, fiskvinnslunnar fyrst og fremst sem er burðarás landsbyggðarinnar. Hann mun skerða möguleika fiskvinnslunnar til þess að borga kaup. Það er fiskverkunarfólkið úti um landið sem fyrst og fremst mun borga þennan skatt. Það er mjög óheppilegt, það er mjög rangt, það er skelfilegt eins og landsbyggðin stendur í dag að við skulum vinna þetta óhæfuverk. Því mun ég greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Ég sit hjá við brtt. um frumvarpið en í heild mun ég greiða atkvæði gegn því við lokaatkvæðagreiðslu.