Þingfrestun

Föstudaginn 03. maí 2002, kl. 15:46:58 (8833)

2002-05-03 15:46:58# 127. lþ. 138.95 fundur 582#B þingfrestun#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Forseti (Halldór Blöndal):

Háttvirtir alþingismenn. Ég mun nú gefa yfirlit yfir störf 127. löggjafarþings.

Þingið stóð yfir frá 1. október til 14. desember 2001 og frá 22. janúar til 3. maí 2002. Á þingtímanum urðu þingfundadagar alls 96. Þingfundir hafa verið 138 og stóðu þeir samtals í 619 klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í um það bil 18 klukkustundir. Mun ég nú fyrst gera grein fyrir úrslitum þingmála:

Lagafrumvörp voru samtals 215. Af þeim voru stjórnarfrumvörp 135 og þingmannafrumvörp 80.

Af stjórnarfrumvörpum voru 111 afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 24.

Þá urðu 8 þingmannafrumvörp að lögum, einu var vísað til ríkisstjórnarinnar, en 71 þingmannafrumvarp er óútrætt. Af 215 frumvörpum urðu alls 119 að lögum.

Þingsályktunartillögur voru alls 131. Af þeim voru stjórnartillögur 25 og þingmannatillögur 106.

Alls voru 39 tillögur samþykktar sem ályktanir Alþingis, fjórum var vísað til ríkisstjórnarinnar og 88 eru óútræddar.

Skýrslur voru samtals 28. Beiðnir um skýrslur frá ráðherrum voru þrjár og bárust tvær skriflegar skýrslur. Aðrar skýrslur lagðar fram voru 26.

Fyrirspurnir. Bornar voru fram 366 fyrirspurnir. Allar voru þessar fyrirspurnir afgreiddar nema 22. Munnlegar fyrirspurnir voru 177 og af þeim var 172 svarað, þrjár voru kallaðar aftur. Beðið var um skrifleg svör við 189 fyrirspurnum og bárust 172 svör, þrjár voru kallaðar aftur.

Alls var til meðferðar í þinginu 741 mál. Þar af voru 533 afgreidd og tala prentaðra þingskjala var 1.496.

Þá vil ég gefa yfirlit um nefndastarfið. Á þessu þingi voru 14 dagar eingöngu helgaðir nefndastarfi, fyrir utan reglubundna nefndafundi yfir þingtímann. Á yfirstandandi þingi hafa verið haldnir 367 nefndafundir og eru það 30 fundir að meðaltali á hverja fastanefnd. Alls stóðu nefndafundir í 621 klukkustund og er meðaltalið 52 klukkustundir á nefnd. Eru þá ekki taldir aðrir fundir, svo sem meirihlutafundir. Á fundi nefndanna komu 1.817 gestir.

Alls var 287 málum vísað til fastanefnda þingsins og afgreiddu þær frá sér 158 mál. Samtals voru 185 þingmál send til umsagnar utan þings. Bárust nefndum þingsins 2.100 erindi um þingmál. Auk þessa hafa nefndir fjallað um mál að eigin frumkvæði og nokkrar nefndir hafa farið í vettvangsferðir á þessu þingi.

Í dag lýkur fundum Alþingis, á krossmessu á vori. Þingfrestun er í fyrra lagi vegna sveitarstjórnarkosninga sem fara fram 25. þessa mánaðar. Alþingi vill sýna sveitarstjórnum þá virðingu að hin pólitíska umræða í landinu næstu vikurnar snúist fyrst og fremst um sveitarstjórnarmál og að landsmálin og Alþingi skyggi ekki þar á.

Það er eftirtektarvert að hlutur kvenna fer vaxandi í forustu þingstarfanna. Konur fara nú með formennsku í 5 af 12 fastanefndum Alþingis og er það hærra hlutfall en fjöldi þeirra í þingmannahópnum segir til um. Við upphaf þessa kjörtímabils tók Arnbjörg Sveinsdóttir við formennsku í félagsmálanefnd og Þorgerður K. Gunnarsdóttir við formennsku í allsherjarnefnd og í ársbyrjun 2000 varð Jónína Bjartmarz formaður heilbrigðis- og trygginganefndar. Með stuttu millibili hafa síðan tvö karlavígi fallið. Drífa Hjartardóttir varð fyrst kvenna til að taka við embætti formanns landbúnaðarnefndar á seinasta hausti og fyrir stuttu var Sigríður A. Þórðardóttir kjörin formaður utanríkismálanefndar og er hún einnig fyrsta konan sem gegnir því embætti. Óska ég þeim til hamingju.

Við lok þinghaldsins vil ég þakka alþingismönnum fyrir samstarfið á þessu þingi. Ég vil færa varaforsetum sérstakar þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þinghaldsins, svo og formönnum þingflokka fyrir gott samstarf á þessu þingi. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð og fyrir mikið og gott starf og ágæta samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í haust.