Forseti Íslands setur þingið

Mánudaginn 01. október 2001, kl. 14:15:00 (1)

2001-10-01 14:15:00# 127. lþ. 0.1 fundur 1#B forseti Íslands setur þingið#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 127. lþ.

[14:15]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 5. september 2001 var gefið út svofellt bréf:

,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman mánudaginn 1. október 2001.

Um leið og ég birti þetta, er öllum sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 5. september 2001.

Ólafur Ragnar Grímsson.

-------------------

Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman mánudaginn 1. október 2001.``

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett og óska þingmönnum velfarnaðar í vandasömum verkum.

Alþingi kemur nú saman við aðstæður sem breytt hafa heimsmyndinni meira en nokkurn gat órað fyrir. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum voru ekki aðeins atlaga að þjóðinni sem þar býr heldur einnig atlaga að mannkyni öllu og þeim gildum sem verið hafa burðarásar í samfélagi siðaðra manna. Á morgunstundu létu þúsundir saklausra borgara lífið og sárin í sálu þeirra sem eftir lifa eru svo djúp að þau munu aldrei gróa að fullu. Árásin var hræðilegri og miskunnarlausri en við höfum áður getað gert okkur í hugarlund og þeir sem glæpinn skipulögðu skýla sér enn bak við leyndarhjúp nafnleysis og þagnar, tilgangurinn er hulinn, markmiðin hjúpuð myrkri.

Íslendingar hafa einhuga vottað bandarísku þjóðinni samúð og hluttekningu og hugur okkar hefur dvalið hjá ættingjum og vinum þeirra sem lífið létu. Sú samstaða er ítrekuð hér þegar Alþingi Íslendinga, elsta stofnun þjóðar okkar, kemur saman á ný. Við biðjum og vonum að ódæðisöflin sem verkið frömdu verði í fyllingu tímans látin sæta dómi og dregin til ábyrgðar á þann hátt sem ótvíræður verður talinn. Aðeins með órofa samstöðu þjóða heims mun okkur takast að glíma við þessa nýju ógn.

Við sjáum nú skýrar en oftast áður hve samofin örlög þjóða eru orðin og hve mikilvægt er að sáttmálar alþjóðasamfélagsins séu virtir. Rætur vandans liggja víða og vafalaust mun taka langan tíma að komast fyrir þær að öllu leyti. Fáfræði og fátækt hafa löngum verið jarðvegur öfgaafla og gæðum heims er því miður svo misjafnlega skipt að hætta er á að hryðjuverkasamtök geti áfram náð að endurnýja raðir sínar. Því skiptir miklu að sýna þolinmæði og forðast að einfalda vandann um of.

Við Íslendingar höfum blessunarlega náð að festa hér í sessi opið og frjálst samfélag byggt á lýðræði og lögmálum réttarríkis og náð þeim árangri án þeirra mannfórna sem margar þjóðir heims hafa orðið að þola. Sjálfstæðisbarátta okkar var háð með orðsins brandi einum meðan aðrir urðu að beita vopnavaldi og við varðveitum enn þann þjóðarbrag að þeir sem fólkið felur trúnað eru frjálsir ferða sinna líkt og gildir um aðra landsmenn. Þannig hefur íslenskt samfélag löngum verið og verður vonandi um alla tíð. Við skiljum nú skarpar en nokkru sinni hvílík verðmæti eru í því fólgin.

Um leið og við leggjum baráttunni gegn hryðjuverkum það lið sem við megnum er mikilvægt að árétta að vonin um hið frjálsa og örugga samfélag er ekki draumsýn ein heldur getur einnig orðið veruleiki. Erindi Íslendinga meðal þjóða heims er einkum að árétta hin siðrænu gildi sem gera okkur frjáls, skapa með öllum mönnum öryggi og samkennd á grundvelli þess réttlætis sem í lýðræðinu felst.

Það hafa orðið vatnaskil í veröldinni og leiðin fram undan er okkur ókunn að flestu leyti. Hafin er vegferð sem enginn veit hvert leiða muni. Við erum öll, þjóðir heims, líkt og landkönnuðir á hættuslóðum staðráðin í að ná árangri í þörfu verki en án öruggrar leiðsagnar um hvort eða hvernig við munum ná heil heim á ný.

Við búum vissulega að góðu veganesti, lærdómum sögunnar og þeim lífsgildum sem eru órofa hluti af sjálfsvitund okkar og réttlætishugsjón. Samt hefur ógnin sem heiminum birtist á septembermorgni svipt okkur öryggi og fótfestu sem við áður nutum. Fram undan er tími óvissu og erfiðra ákvarðana, vegferð um slóðir sem þjóðir heims hafa aldrei þurft að feta áður. Ekkert okkar getur á þessari stundu skilið til hlítar eðli þeirra tímamóta sem hryðjuverkin mörkuðu. En eitt er víst, að veröldin verður aldrei söm og áður. Nú er því þörf á nýrri hugsun, handleiðslu þeirra siðrænu gilda sem verið hafa samfélagi okkar leiðarljós. Umburðarlyndi, samúð og skilningur eru samgróin vitund okkar og vissu um ágæti hins opna og frjálsa samfélags og í glímunni við hina nýju ógn má ekki kasta fyrir róða þeim eiginleikum sem gefið hafa frelsi og lýðræði sérstakt gildi. Það koma þeir tímar í lífi þjóða að fordómar og fjandskapur í annarra garð hljóta að víkja fyrir þeirri samstöðu sem nauðsynleg er, að átök um hagsmuni eða reipdráttur verða léttvæg fundin í samanburði við hin brýnu verk sem að höndum ber. Við lifum nú á slíkum tímum og vonandi munum við og aðrar þjóðir reynast þessum vanda vaxin.

Við höfum þegar fundið hvernig voðaverkin hafa með afgerandi hætti haft áhrif á efnahagslíf, hagsæld og lífskjör um heiminn allan. Enginn veit hve djúpstæð eða langvarandi slík áhrif kunna að verða og því er brýnt að við sýnum nú enn meiri varkárni og fyrirhyggju.

Íslenskt efnahagslíf hefur löngum haft tilhneigingu til að fara úr böndum þegar ytri áföll eða kappsemin í okkur sjálfum hafa skapað álag sem leitt hefur til verðbólgu og raskað viðkvæmu jafnvægi. Það má ekki gerast nú. Við verðum umfram allt að varðveita árangur og stöðugleika sem náðst hafði að festa í sessi á undanförnum áratug. Hið opna hagkerfi og alþjóðleg samskipti í fjármálum og viðskiptalífi hafa skapað stjórnvöldum aðstæður og skilyrði sem að mörgu leyti þrengja kostina til aðgerða á hverjum tíma og því er brýnt að samræma vel markmiðin sem að er stefnt, einkum þegar saman fara ýmis hættumerki hjá okkur sjálfum og mikill óvissutími í efnahagsmálum heimsins alls. Við þurfum nú að vega og meta á nýjan hátt hve langt má ganga í fjárfrekum fjárfestingum eigi verðlag og gengi að haldast stöðugt. Við þurfum að finna það meðalhóf sem fylgja má til að auka hagsæld og þjóðartekjur án þess að glata þeim stöðugleika sem tókst að ná með miklum fórnum. Í slíku mati verður ábyrgð Alþingis jafnan mikil og ég veit að þingheimur mun á komandi vetri vanda það verk og hafa í huga þær aðstæður sem nú hafa skapast um heiminn allan.

Það hefur verið okkar gæfa að hafa á umliðnum áratugum náð að leggja traustan grundvöll að velferð og hagsæld þjóðarinnar. Vonandi mun það lán áfram fylgja okkur þótt veröldin sé orðin vályndari.

Ég óska alþingismönnum velfarnaðar í vandasömum verkum sem bíða Alþingis á komandi vetri og bið þingheim að rísa á fætur og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Davíð Oddsson, mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þau orð með feröldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég Pál Pétursson, 2. þm. Norðurl. v., að ganga til forsetastóls.