Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 20:23:54 (13)

2001-10-02 20:23:54# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[20:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Eftir atburðina í Bandaríkjunum 11. september sl. stöndum við frammi fyrir breyttri heimsmynd. Þúsundir saklausra borgara sem mættir voru til vinnu á ósköp venjulegum þriðjudegi urðu fyrir barðinu á nýrri tegund hryðjuverka. Okkur óskiljanlegur trúarhiti og fjandsemi teymdi ódæðismennina til þessara skelfilegu verka. Heimurinn er ekki samur eftir. Við hljótum á þessari stundu að velta því fyrir okkur hvað fái ungt fólk til að framkvæma árásir sem þessar.

Viðbrögð hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. vegna hryðjuverkanna hafa einkennst af styrk og festu. Íslendingum ber siðferðisleg skylda með alþjóðasamfélaginu að leggja sitt af mörkum til að uppræta þessa hryðjuverkahópa. Í samstarfi NATO-þjóða berum við ábyrgð, en eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. áðan var samþykkt fyrir tveimur árum að bandalagsþjóðirnar kunni að þurfa að berjast sameiginlega gegn hryðjuverkum.

Herra forseti. Öll erum við minnug þess þegar Framsfl. skar upp herör gegn atvinnuleysinu. Viðbrögð vinstri aflanna á sviði stjórnmálanna voru megn ótrú á að hægt væri að skapa 12 þúsund ný störf. Vantrú þeirra ásamt þeirri stöðnun sem ríkti þegar Framsfl. kom að ríkisstjórn 1995 átti eftir að breytast. Undir forustu núverandi stjórnarflokka hafa Íslendingar upplifað mesta samfellda hagvaxtarskeið sögunnar hér á landi. Framsóknarmenn hafa haft forustu um að fjöldi nýrra starfa hefur orðið til. Kaupmáttur almennings hefur aukist mikið. Tekjuskattur á einstaklinga hefur verið lækkaður. Velferðarkerfið hefur verið styrkt, svo sem með hækkunum bóta til ellilífeyrisþega og öryrkja. Forvarnir gegn neyslu vímuefna hafa verið auknar, fæðingarorlof lengt og bættur hefur verið hagur barnafjölskyldna með minni tekjutengingu bóta í samræmi við stefnu Framsfl. Flokkurinn hefur af festu staðið að baki þessum breytingum á vettvangi ríkisstjórnar og Alþingis.

Blikur eru nú á lofti í efnahagsmálunum. Við heyrum af uppsögnum starfsfólks. Hægt hefur tímabundið á efnahagslífinu. Vextir í landinu eru of háir og íþyngja heimilum og atvinnulífi. Séu atvinnuvegirnir reknir með tapi minnka skatttekjur ríkisins og atvinnuleysi eykst. Gegn þessari þróun viljum við vinna, m.a. með skattalækkunum á fyrirtæki.

Blómlegt atvinnulíf í landinu er undirstaða öflugs velferðarkerfis. Það er forsenda þess að hægt sé að verja auknum fjármunum til þeirra sem höllum fæti standa og til eflingar heilbrigðis- og menntakerfi. Mikið vantar upp á að margir þingmenn Samfylkingarinnar og þó sérstaklega Vinstri grænna átti sig á hinu augljósa orsakasamhengi á milli öflugra fyrirtækja og þess fjármagns sem til reiðu er í velferðarmálin. Núverandi stjórnarflokkar hafa náð góðum árangri og eru staðráðnir í að halda þannig á málum að hér verði áframhaldandi sókn til framfara og aukinnar hagsældar.

Herra forseti. Umræðan um umhverfismál hefur tekið miklum framförum hér á landi síðustu árin. Tilfinningahiti einkenndi umræðurnar oft og tíðum. Nú getum rætt um viðkvæm mál á yfirvegaðri hátt og án eins mikilla öfga og fyrr. Staða umhverfismála verður að teljast allgóð á Íslandi. Ný alþjóðleg umhverfisvísitala sýnir að við erum í einu af tíu efstu sætunum meðal þjóða heims. Staðan er því góð, bæði vegna þess að við erum heppin að búa við hreint loft og gnægð hreins vatns en einnig vegna þess að Íslendingar hafa sinnt umhverfismálunum vel.

Í umhvrn. höfum við lagt mikla áhersla á að vinna gegn mengun hafsins. Nýlega var undirritaður alþjóðasamningur sem Íslendingar áttu frumkvæði að og stóran þátt í að móta. Samningurinn lýtur að banni gegn notkun og losun þrávirkra lífrænna efna í hafið. Hér er um afar mikið hagsmunamál að ræða fyrir okkur vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir afkomu okkar.

Síðastliðinn vetur lagði ég til á umhverfisstjórnarfundi hjá Sameinuðu þjóðunum að starfshættir alþjóðlegra stofnana við mat á mengun hafsins yrðu bættir verulega. Nýlega var haldinn hér á landi alþjóðlegur fundur um málið og er endurskoðun starfsháttanna því hafin.

Geislamengun í hafinu er ógn. Við höfum þrýst mjög á Breta að taka á málefnum Sellafield-stöðvarinnar og höfum einnig lýst áhyggjum vegna ákvörðunar Rússa um að heimila innflutning á 20 þús. tonnum af geislavirkum úrgangi annarra landa til Rússlands. Hér heima höfum við verið að hreinsa hafið, m.a. með umfangsmestu hérlendri forvarnaaðgerð vegna hættu á olíumengun, þ.e. hreinsun á El Grillo.

Herra forseti. Á alþjóðavettvangi hafa Íslendingar tekið virkan þátt í að koma Kyoto-bókuninni í framkvæmd. Víðtækur skilningur er á því meðal ríkja heims að ekki sé eðlilegt að útiloka Íslendinga frá því að nota endurnýjanlega orku til að framleiða málma sem notaðir eru m.a. í vistvænum tilgangi. Höfum hugfast að framleiðsla slíkra málma með okkar aðferð losar áttfalt minna af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið miðað við framleiðslu þar sem notuð eru kol eða olía.

[20:30]

Allt bendir til þess að íslenska ákvæðið hljóti samþykki síðar í haust. Nú er svo komið að ríki heims átta sig á því að íslenska ákvæðið er lofthjúpnum í hag og því umhverfisvænt en stjórnarandstaðan heldur áfram að berja höfðinu við steininn og talar gegn ákvæðinu. Reyndar hefur verið ömurlegt að hlusta á þann málflutning að íslensk stjórnvöld hafi gætt íslenskra hagsmuna of vel í þessu ferli.

Fram undan eru mikil framfaramál, svo sem löggjöf um úrvinnslugjald sem byggir á hagrænum hvötum sem bæta mun meðferð úrgangs og auka endurvinnslu og endurnýtingu.

Stjórnvöld hafa einnig hafið stórsókn í uppbyggingu á aðbúnaði og þjónustu á fjölsóttum ferðamannastöðum, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Á næstu árum munu um 300 millj. kr. renna til þessarar uppbyggingar. Í náttúruvernd erum við einnig vissulega á krossgötum en eftir 28 ára hlé höfum við stofnað nýjan þjóðgarð á Snæfellsnesi og stefnt er að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, stærsta þjóðgarðs Evrópu, á næstunni.

Virðulegur forseti. Sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor munu setja mikinn svip á hina pólitísku umræðu á komandi vetri. Undanfarinn áratug hefur sveitarfélögum fækkað en þau stækkað og eflst að sama skapi. Um leið hefur átt sér stað mikill tilflutningur verkefna til sveitarfélaganna. Starf sveitarstjórnarmanna hefur því gjörbreyst á síðustu árum. Þá breytingu er nauðsynlegt að viðurkenna með því að kjör sveitarstjórnarmanna verði bætt þannig að þau endurspegli aukna ábyrgð og aukið starfsálag. Konur þurfa að láta meira til sín taka í sveitarstjórnum. Þeim þarf að fjölga en í dag eru konur tæplega þriðjungur sveitarstjórnarmanna. Framsfl. leggur mikla áherslu á eflingu sveitarfélaganna og telur það raunar lykilatriði í því að ná raunhæfum árangri í byggðamálum.

Herra forseti. Í upphafi máls míns gat ég um hina ógnvænlegu atburði sem orðið hafa á alþjóðavettvangi. Því er ekki að neita að hin stjórnmálalegu viðhorf hafa tekið nokkrum breytingum. Ýmsum hægri öflum hefur vaxið ásmegin sem og vinstri hreyfingum, byggðum á rústum gamla sovétsósíalismans. Framsfl. hafnar þessum leiðum. Stefna hans er traust miðju- og skynsemisstefna án öfga. Hann vill byggja á gildum lýðræðis og persónufrelsis þar sem lögð er áhersla á að tryggja atvinnu, skapa fjölskyldum góðar aðstæður og standa vörð um velferð og jöfnuð.

Við sjáum fram á spennandi tíma í stjórnmálum. Ný kjördæmaskipan gerir það að verkum að endurnýjun þingmanna gæti orðið veruleg við næstu alþingiskosningar. Viðfangsefni þeirra sem fást við stjórnmál breytast einnig hratt í upphafi nýrrar aldar. Alþjóðavæðing, fjarskiptabylting, togstreita milli frama á vinnumarkaði og fjölskyldulífs og önnur viðfangsefni framtíðarinnar munu lita stjórnmálaumræðuna. Framsfl. mun ekki láta sitt eftir liggja. Framsfl. er tilbúinn að takast á við nýja tíma. --- Góðar stundir.