Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 21:00:35 (16)

2001-10-02 21:00:35# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[21:00]

Ásta Möller:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir þremur vikum varð heimurinn vitni að einu fólskulegasta ódæði allra tíma þegar fjöldamorðingar urðu þúsundum að bana í Bandaríkjunum. Ótti við frekari hryðjuverk vekur ugg í brjósti og óöryggi meðal fólks. Trúin á hið góða hefur beðið hnekki, traust hefur vikið fyrir tortryggni, heimsmyndin hefur breyst.

Til eru þeir sem halda því fram að varnarbandalög eins og Atlantshafsbandalagið séu tímaskekkja. Þeir sömu hljóta nú að endurskoða afstöðu sína. Við stöndum frammi fyrir ófriðartímum og vá af því tagi sem einungis órofa samstaða vestrænna ríkja getur varist. Vestræn ríki, í raun heimurinn allur, þarf að standa saman í að koma böndum yfir þá sem taka sér það vald að ógna lífi saklausra borgara með hryðjuverkum. Hinn harði lærdómur sögunnar hefur kennt okkur að ekki dugir að mæta hinu illa með linkind og undangjöf.

Margir hafa mynd Chamberlains, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, greypta í huga sér þegar hann steig hróðugur úr flugvél sinni, veifandi friðarskjali því sem hann hafði fengið Hitler til að undirrita. Það plagg reyndist ekki bleksins virði.

Lýðræðisríki byggja m.a. á hugmyndum um mannréttindi, ábyrgð og virðingu fyrir frelsi og lífi einstaklinga. Þau eru réttarríki þar sem brot á reglum samfélagsins leiða til refsingar. Stærri glæp en þann sem við urðum vitni að í beinni útsendingu er vart hægt að hugsa sér. Þeim sem ábyrgðina bera á að refsa --- ekki í þeim tilgangi að leita hefnda heldur til að þeir standi reikningsskil gerða sinna --- án þess þó að saklausir borgarar líði fyrir.

Vegir réttarríkisins og kristinnar trúar í þessa veru liggja hér samhliða. Guð kristinna manna er réttlátur, hann leitar ekki hefnda en refsar þeim sem brjóta gegn vilja hans.

Það er gæfa okkar Íslendinga við þá óvissu sem ríkir í heiminum í dag að traust ríkisstjórn situr hér að völdum. Ríkisstjórnin hefur markað ákveðna stefnu til framtíðar og fylgir henni fast eftir en lætur ekki stundarhagsmuni villa sér sýn. Hún tekur það meginhlutverk sitt alvarlega að tryggja öryggi og velferð þjóðarinnar allrar og standa vörð um velferðarkerfið. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Á síðustu árum höfum við Íslendingar lifað góða daga við mikinn hagvöxt og öfluga uppbyggingu atvinnulífs. Það hefur leitt til aukins kaupmáttar og velmegunar þjóðarinnar sem á sér vart fordæmi. Ýmis merki eru þó á lofti um samdrátt sem atvinnulífið og heimilin eru að bregðast við með ráðdeild og hagræðingu. Á sama tíma heyrum við af of mörgum dæmum þess að farið sé fram úr fjárlagaheimildum í opinberum rekstri. Það er áhyggjuefni. Leggja verður áherslu á að opinberar stofnanir bregðist við breyttum aðstæðum á sama máta og aðrir í samfélaginu, með ráðdeild og hagræðingu. Hér er nauðsynlegt að staldra við.

Skilgreina verður á ný og skerpa hvar hið opinbera þarf að vera þátttakandi í atvinnurekstri. Einkavæða á þau ríkisfyrirtæki sem hægt er og innleiða starfsaðferðir einkareksturs í stjórnun opinberra fyrirtækja í mun ríkari mæli en hingað til hefur verið gert, t.d. með þjónustusamningum eða með öðrum hætti sem leiðir til betri nýtingar opinberra fjármuna.

Öflugt atvinnulíf er undirstaða hagvaxtar, aukinnar atvinnu og kaupmáttar almennings. Það er jafnframt forsenda þess að við getum haldið úti velferðarkerfi í þeim gæðaflokki sem við eigum að venjast. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar og eitt brýnasta verkefni Alþingis nú að gera skattalegt umhverfi fyrirtækja samkeppnisfært við og helst hagstæðara en í nágrannalöndum okkar. Án þeirra breytinga munu fyrirtæki flytja starfsemi sína úr landi og möguleikar á auknum fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis skerðast. Lækkun skatta á fyrirtæki og afnám stimpilgjalda þarf að koma til framkvæmda sem allra fyrst. Auk þess má öllum vera ljóst að hvorki atvinnulífið né heimilin í landinu geta öllu lengur staðið undir hávaxtastefnu Seðlabankans.

Á sama hátt verður að huga að breytingum á skattlagningu einstaklinga og fjölskyldna. Þar skiptir mestu að fella niður eignarskatta. Eignarskatturinn er ranglátur skattur sem hefur verið aflagður í flestum ríkjum og tímabært að gera það einnig hér. Það sama gildir um hátekjuskatt, sem er í rauninni rangnefni, því að hann leggst jafnframt þunglega á duglegt fólk með meðaltekjur sem fráleitt teljast háar.

Afstaða stjórnmálaflokkanna til atvinnuuppbyggingar og efnahagslegra framfara endurspeglast í afstöðu þeirra til byggingar Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Stjórnarflokkarnir leggja áherslu á að renna frekari stoðum undir öflugt atvinnulíf, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Þeir munu áfram vinna ötullega að því að gera þetta verkefni að veruleika. Á meðan er Samfylkingin tvístígandi í afstöðu sinni og hefur engar raunhæfar tillögur um atvinnuuppbyggingu hér á landi. Vinstri grænir eru hins vegar hið sanna afturhald. Þeim er ávallt treystandi til að vera mótfallnir flestum hugmyndum sem leiða til hagsbóta.

Heilbrigðismál eru jafnan einn þyngsti þáttur fjárlaga. Heilbrigðisþjónustan snýst hins vegar ekki eingöngu um peninga heldur fyrst og fremst um rétt fólks til gæðaþjónustu þegar þörfin knýr á. Ég tel brýnt að skoða áherslur í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Til dæmis verður að skilgreina á ný hvaða meðferð á veita innan sjúkrahúsa og hvað utan þeirra. Jafnframt þarf að ákvarða ítarlegar rétt fólks til heilbrigðisþjónustu, þar með talda greiðsluþátttöku sjúklinga.

Herra forseti. Í upphafi ræðu minnar ræddi ég um breytta heimsmynd. Hún krefst nýrrar hugsunar í öryggismálum. Hæstv. dómsmrh. hefur að undanförnu kynnt hugmyndir sínar um mikilvægar aðgerðir til þess að takast á við ógnir sem stafa af hryðjuverkum. Ódæðin sem framin voru í Bandaríkjunum þann 11. sept. skutu heimsbyggðinni skelk í bringu. En ódæðismönnunum mun hins vegar ekki takast að breyta samfélögum okkar né þeim grunnreglum sem við byggjum á. Líf og starf okkar heldur áfram, sigurinn er ekki þeirra. --- Góðar stundir.