Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 21:20:25 (19)

2001-10-02 21:20:25# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, KolH
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[21:20]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í dag eru liðnar þrjár vikur frá voðaverkunum í Bandaríkjunum og sá atburður hefur varpað skugga á hvern einasta dag sem upp hefur runnið yfir þjóðir heims síðan þá. Forsrh. hóf mál sitt með því að ræða um ástandið í heimsmálunum eftir árásirnar á New York og Washington og hann ræddi um svör og hann ræddi um viðbrögð við þeim árásum. Hann fullyrti að enginn væri að tala um blindar hefndaraðgerðir í garð heilla þjóða. Við skulum vona að forsrh. reynist sannspár í þessum efnum og okkur takist að róa og hugga börnin okkar og sefa ótta allra barna á þessari jörð.

Friðarhreyfingar um allan heim sameinast nú í fordæmingu voðaverkanna en jafnframt í ákalli sínu um skynsemi og yfirvegun í aðgerðum stórveldanna. Fólk hræðist hefndarhug og fólk hræðist ofsa hvaðan sem hann er upp runninn og sendir öflugt ákall um réttlæti út um heimsbyggð alla.

Íslendingar eru sú þjóð sem lætur í ljósi hvað mestan friðarvilja í nýafstaðinni alþjóðlegri könnun. Aðeins 6% Íslendinga vilja að Bandaríkjamenn ráðist á það land eða önnur lönd sem hýsa hryðjuverkahópana er frömdu ódæðin í New York og Washington þann 11. september. Níu af hverjum tíu Íslendingum vilja frekar fá hryðjuverkamennina framselda og dregna fyrir dóm. Afstaða Íslendinga er svo afgerandi að hún staðfestir enn eina ferðina þá fullyrðingu að friðarbarátta sé meirihlutabarátta og það verða íslensk stjórnvöld að hafa í huga og sem næst hjarta sínu þegar þau mæla fyrir munn þessarar vopnlausu þjóðar norður við ysta haf.

Góðir áheyrendur. Málefni þau sem í brennidepli eru af innanlandsvettvangi eru af ýmsum toga. Verðbólga, vaxtamál, einkavæðingin, --- sem fer nú sennilega að verða búin, maður sér ekki að það sé mikið eftir til að selja --- væntanleg efnahagsdýfa og frjáls markaður. Boðun samkeppni á raforkumarkaði hefur hleypt miklu kappi í orkuframleiðslufyrirtæki og satt að segja er ástæða til að óttast það hvernig ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kemur til með að halda á málum í þeim efnum. Nú þegar blasa við ofstopafullar yfirlýsingar ráðherra varðandi Kárahnjúkavirkjun og fyrirliggjandi úrskurð um mat á umhverfisáhrifum. Virkjun við Kárahnjúka er mjög álitlegur kostur hvernig sem á málið er litið, segir ráðherrann. Í stað þess að leggja allt kapp á skynsamlega orkunýtingarstefnu til frambúðar, eins og rammaáætlun sjálfrar ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma gerir ráð fyrir, eru menn nú óðir og uppvægir að undanskilja fjölda virkjanakosta þeirri áætlun. Nú er meira að segja hafið matsferli Norðlingaöldumiðlunar sem mundi raska Þjórsárverum sem eru ein okkar allra dýrmætasta náttúruperla, perla sem stjórnvöld sjálf og ráðherrar úr ríkisstjórninni hafa svarið og sárt við lagt að verði ekki fórnað. Og stjórnvöld sjálf hafa tilgreint þessa náttúruperlu inn á lista Ramsar-samningsins um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. En þegar til kastanna kemur er ríkisstjórninni ekkert heilagt í þessum efnum. Ef stóriðjuna vantar raforku áður en við erum búin að meta virkjanlegt vatnsafl og forgangsraða virkjunarkostum af skynsemi, þá ber bara að beygja sig fyrir vilja stóriðjunnar jafnvel þó að ekki hafi verið sýnt fram á arðsemi orkusölunnar. Með valdsmannlegri raust skipar forsrh. þjóðinni að trúa á álið hvað sem það kostar, þó að fyrir það þurfi að fórna fegurstu náttúruauðlindum þjóðarinnar því að hvað gefa þær svo sem í aðra hönd?

Málflutningur forsrh. minnir á samtal úr Kristnihaldi undir Jökli þegar Jón Prímus spyr Umba: ,,Tökum við málstað jarðlífsins af því að það beri sig?`` Þegar stefnumál ríkisstjórnarinnar og framganga hennar eru skoðuð, þá gæti maður freistast til að halda að á þeim bæ yrði svarið við þessari einlægu spurningu: Já, við tökum einungis málstað jarðlífsins beri það sig.

Gildismat forsrh. og ríkisstjórnarinnar er undarlegt á flestum sviðum. Boðuð er samþjöppun og einhæfni í atvinnulífi en þeim sýnd fyrirlitning sem vilja leggja lóð á vogarskálar fjölbreytni. ,,Ég veit ekki á hverju við lifum en fegurðinni má ekki fórna þegar milljónir hugmynda og tækifæra bulla og krauma í heiminum,`` segir ungur rithöfundur í blaðagrein fyrir skemmstu.

Forsrh. boðar öflugt starf á sviði rannsókna og vísinda í ræðu sinni en hann gerir sér vonandi grein fyrir þeim veruleika sem ríkt hefur meðal íslenskra vísindamanna sem hafa þurft að reiða sig á innlenda rannsóknarstyrki til þessa. Veruleiki Vísindasjóðs hefur t.d. verið sá að hann hefur þurft að bregðast við hátt í 300 umsóknum sem samtals hafa hljóðað upp á um 600 millj. kr. en til skiptanna hafa verið 150 millj. Þessi er raunveruleikinn og vilji Davíð Oddsson í alvöru efla möguleika innlendra vísindamanna á rannsóknastörfum þá er bara eitt að gera: Hækka fjárframlögin. Ef slíkt verður gert verður kannski hægt að fara að tala um að búið sé vel að þeim sem stunda vísindi í þessu landi. En það er ekki margt sem bendir til þess. Í dag er okkur tilkynnt að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þurfi að skera niður og hvar á að byrja? Í setrum Rannsóknastofnunarinnar úti á landi. Sama og með náttúrustofurnar. Þar á líka að draga saman. Þar hafa þó örfáir vísindamenn störf úti á landsbyggðinni. Svona stefna svíkur byggðastefnu og svíkur yfirlýsta stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í málefnum vísinda. --- Góðar stundir.