Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)

Þriðjudaginn 02. október 2001, kl. 21:49:52 (24)

2001-10-02 21:49:52# 127. lþ. 2.1 fundur 34#B Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumræður)#, JB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 127. lþ.

[21:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Samkeppnishæf búseta og heimilishald krefst þess að hafa góðan aðgang að lágmarksþjónustu í sínu nánasta umhverfi. Það er á ábyrgð samfélagsins alls að tryggja að svo sé. Það kann að virðast einföld framkvæmd að loka pósthúsi eða bensínafgreiðslu, leggja niður bankaútibú og segja starfsmönnum upp, en með slíku er í raun verið að auka rekstrarkostnað bæði heimila og fyrirtækja svo um munar. Meint hagræðing kemur oft fram sem örlítil aukning á hagnaði en getur falið í sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þær byggðir sem eiga í hlut. Tökum bara lítið dæmi.

Í Árneshreppi á Ströndum er lítið en sterkt samfélag. Ferðafólk leggur þangað leið sína í auknum mæli að sumrinu og ferðaþjónusta er þar stuðningsbúgrein. Farsímasamband norður þar er lélegt og ekkert GSM-samband. Landssíminn rak þar símasjálfsala um skeið.

Fyrir nokkru spurði einn af ráðamönnum Símans heimamenn hvort ekki mætti láta taka niður þennan sjálfsala, hann bæri sig ekki. Oddvitinn svaraði því til að það væri ekki að þeirra vilja en þar á bæjum væri nú enn sú gestrisni að ferðalöngum yrði ekki meinað að fara í síma.

Póstkassi sem stóð á götuhorni rétt hjá Elliheimilinu Grund í Reykjavík var fjarlægður fyrir nokkrum vikum, væntanlega í sparnaðarskyni. Rekstur hans hefur ekki borið sig. Í báðum tilvikum er um að ræða lítilvægan sparnað sem þó hefur í för með sér stórvægilegar breytingar fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Til skamms tíma byggðist styrkur atvinnulífs hér á landi á dreifræði. Fyrirtækjum var stjórnað á þeim sama stað og þau störfuðu og ákvarðanir voru teknar af fólki sem þekkti staðhætti vel.

Herra forseti. Það er skoðun mín að helsta meinið í íslensku atvinnulífi í dag sé oftrú á hagkvæmni stærðarinnar. Í dreifbýlu landi hentar þessi sýn engan veginn. Stækkun eininga í atvinnulífi og samfélagsþjónustu, einkavæðing með tímabundna arðsemi fjármagns sem höfuðmarkmið á sér takmörk og getur leitt til þess að tengsl við umhverfið rofna, fyrirtækin trénast upp og tapa sveigjanleika og aðlögunarhæfni, enda hafa eigendurnir ekki lengur samfélagslega skírskotun.

Tökum dæmi af Goða hf. Þar átti hagkvæmni stærðarinnar allan vanda að leysa. Fjöldi sláturhúsa og kjötvinnslufyrirtækja voru sameinuð í stórfyrirtækinu Goða. Mörg þessara fyrirtækja stóðu þó vel fyrir og þjónuðu ágætlega hagsmunum framleiðenda og neytenda. Svo kom hin meinta hagræðing. Kjötvinnslur voru seldar og sláturhúsum var lokað á miðju sumri. Afkoma fjölda bænda og heilla byggðarlaga var tekin í gíslingu. Goði féll loks á eigin hugmyndafræði en samt var hann búinn að vinna mikið tjón og ekki útséð með það enn. Og sama ,,goðafræðin`` ræður ferð í sjávarútveginum. Stækkun fyrirtækja, kvótasala og áframhaldandi byggðaröskun.

Fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár hefur verið lagt fram og forsendur þess eru því miður afar veikar. Sala ríkiseigna á öllu að bjarga en gert er ráð fyrir sölu Landssímans þó þjóðin hafi í raun sýnt það í verki að hún er andvíg sölunni. Á sölu á ríkistekjum á að reyna að byggja fjárlögin. Ytri skilyrði efnahagsmála hafa verið einstaklega góð hin síðustu ár og eru í raun enn en samt virðist vera brýn nauðsyn að halda ríkisbúskapnum uppi með sölu eigna. Hvað gerum við ef harðnar á dalnum í alvöru? Ekki getum við selt sömu eignina tvisvar. Ríkisrekstur sem nærist á sölu eigna og viðskiptahalla stendur á veikum grunni.

Herra forseti. Það eru blikur á lofti og einkavæðingar\-áform ríkisstjórnarinnar eru háskaleikur með fjöregg þjóðarinnar. Það er mál að linni. Það er mál að keiluslætti þessarar ríkisstjórnar linni og hún fari frá. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur að leiðarljósi öryggi, velferð og hamingju fólks í landinu öllu. --- Góðar stundir.