2001-10-03 14:09:07# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og að hafa frumkvæði að umræðunni. Það er bæði rétt og skylt að Alþingi taki þessi stóru og mikilsverðu mál til umfjöllunar.

Hér hefur komið fram og undir það skal tekið að samúð okkar með Bandaríkjamönnum og öðrum þeim sem eiga um sárt að binda af þessum sökum er óskipt og hefur með margvíslegum hætti verið látin í ljós á undanförnum vikum. Sú samstaða þjóða í millum sem skapast hefur í kjölfar þessara atburða er ákaflega mikilsverð og í raun merkilegur atburður. Hún má teljast nánast alger en hitt er nauðsynlegt að hafa í huga að hún er líka mjög brothætt.

Að mínu mati er alveg ljóst að þessi samstaða og hvernig með hana fer í framhaldinu ræðst alfarið af því sem gerist á næstu vikum og mánuðum, þ.e. hvernig til tekst í yfirveguðum og skynsamlegum viðbrögðum, hvernig samfélagi þjóðanna gengur að vinna sig í gegnum og út úr þessum atburðum og að ekki rísi deilur um aðferðafræðina sjálfa. Sama gildir hygg ég hér á landi, herra forseti. Sú samstaða sem hér hefur að sjálfsögðu skapast, sem m.a. var gerð grein fyrir af formanni utanrmn., þ.e. varðveisla hennar er að sjálfsögðu háð því að ekki rísi deilur um þær aðgerðir eða þá atburði sem kunna að verða í framhaldinu.

Við erum öll sammála um að barátta eða aðgerðir gegn hryðjuverkum og annarri skipulagðri glæpastarfsemi í heiminum eigi að hafa algeran forgang. Það er þó í sjálfu sér ekki trygging fyrir því að menn verði, hvorki hér né annars staðar, á eitt sáttir um allt það sem menn telja sig kunna að þurfa að gera í þeirri baráttu. Ég held að það sé mjög mikilvægt, herra forseti, að menn ræði það eins og það er, að hryðjuverk, þ.e. ofbeldi og valdbeiting, eru alþjóðlegt og þekkt vandamál bæði úr sögunni, úr öllum trúarbrögðum og af öllum menningarsvæðum og hjá velflestum stærri ríkjum í heiminum. Við þurfum ekki að fara langt til að leita að dæmum um langvinn átök þar sem hryðjuverk koma við sögu. Á Spáni hafa aðskilnaðarsinnar í Baskahéruðum staðið fyrir hryðjuverkum um árabil. Á Ítalíu, í Frakklandi og í Þýskalandi er svipað uppi á teningunum. Svo nærri okkur sem á Norður-Írlandi hafa menn eða hópar þaðan beitt hryðjuverkum og í Bandaríkjunum sjálfum hafa hryðjuverk verið hluti af stjórnmálasögu þeirra eða innanlandssögu um langt árabil. Hreyfingar eins og Ku Klux Klan og Militant-sveitirnar, vopnaðar sveitir almennra borgara sem á síðari árum hafa m.a. verið sakaðar um að brenna kirkjur tiltekinna trúarhópa og þjálfa menn eins og Timothy McVeigh sem síðan gerðist sekur um skelfilegt hryðjuverk. Suður- og Mið-Ameríka á sér langa sögu hryðjuverka, bæði uppreisnarmanna, sérstakra minnihlutahópa og líka ríkisstjórna sem þar hafa leynt og ljóst beitt löglausum hryðjuverkum, gert út dauðasveitir o.s.frv. Lönd eins og Marokkó, Sri Lanka, að hluta til Indland, þ.e. Kasmír-hérað, og Japan hafa á löngum köflum meira og minna verið lömuð vegna langvinnra hryðjuverkaátaka.

Þetta er rakið hér, herra forseti, til þess að undirstrika að hryðjuverk, ofbeldisglæpir af því tagi og skipulögð glæpa\-starfsemi eru alþjóðlegt vandamál, þekkt um víða veröld. Við Vesturlandabúar gerðum því rangt í því ef við héldum að þetta vandamál væri einangrað og bundið við sérstök menningarsvæði eða sérstök trúarbrögð. Það er því miður ekki þannig því að þá væri væntanlega auðveldara að glíma við vandann. Þetta gerir það líka að verkum, herra forseti, að ekki er hægt að leita uppi og finna í efnislegum skilningi sem afmarkað fyrirbæri eitthvað sem heitir hryðjuverk og sprengja það í loft upp í eitt skipti fyrir öll. Það er ekki hægt vegna þess hvernig þetta djúprætta vandamál er vaxið og í ljósi þess sem ég fór yfir áðan, hvernig það er þekkt um veröld víða.

Það hlýtur líka, herra forseti, að fara svo að menn grafist fyrir um rætur þeirra voðaverka sem þarna voru unnin og annarra slíkra og beini sjónum að þeim kringumstæðum og þeim jarðvegi sem fóstrar hugarfar haturs og ofbeldis og fær jafnvel fjölmenna hópa til að ganga í opinn dauðann og fórna lífi saklausra borgara svo hundruðum og þúsundum skiptir. Þá neyðast menn til að horfast í augu við hluti eins og gríðarlega misskiptingu veraldargæða í heiminum, stöðu kúgaðra minnihlutahópa, ólýðræðislega stjórnarhætti, deilur um sjálfstæði eða stjórnskipulega stöðu landsvæða sem mjög víða í heiminum eru ein helsta undirrót hryðjuverkastarfsemi.

[14:15]

Ég held að við getum öll, herra forseti, verið stolt af viðbrögðum íslensku þjóðarinnar og þeim eindregna friðarvilja sem endurspeglast í afstöðu þess hluta þjóðarinnar sem þátt tók í skoðanakönnun, alþjóðlegri skoðanakönnun. Þær niðurstöður má draga saman á þann hátt að þar sé undirstrikað að íslenska þjóðin er áfram trú sinni arfleifð sem vopnlaus og friðelskandi smáþjóð sem vill friðsamlegar og lýðræðislegar aðferðir við lausn deilumála.

Herra forseti. Það fer ekki hjá því að hugur manna sé bundinn við það sem gerast kann í framhaldinu, jafnvel á allra næstu dögum. Ég vil leyfa mér að beina nokkrum spurningum til hæstv. utanrrh. sem því tengjast. Ég tel afar mikilvægt að þjóðréttarleg og lagaleg atriði í þessu máli séu höfð skýr. Það hefur ekki alltaf verið svo að menn hafi kannski nálgast þau atriði með nógu afdráttarlausum og skýrum hætti. Ýmsar spurningar vakna, m.a. út frá þeirri ákvörðun Atlantshafsbandalagsins að grípa að þessu sinni til svonefndrar 5. greinar. Hér stendur a.m.k. einn sá sem hafði efasemdir um þá túlkun og það leita á mig spurningar, t.d.: Hvar ætla menn í framtíðinni, ef hliðstæðir atburðir kunna að gerast en á smærri skala, að draga mörkin?

Pólitísk samstaða og þátttaka í aðgerðum, hvort sem þær væru leiddar af Bandaríkjunum eða af Sameinuðu þjóðunum eða öðrum aðilum, er síðan allt annað en spurningar um lögformlegt gildi þessarar 5. greinar, þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands og stöðuna í þjóðarétti, hvað varðar stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og annað slíkt.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. í fyrsta lagi: Á hæstv. ráðherra von á því að Bandaríki Norður-Ameríku lýsi ríkinu Afganistan stríði á hendur? Munu aðgerðirnar hefjast á þeim grundvelli að lýst verði yfir stríði, sem er lögfræðilegt hugtak og hefur gildi í þjóðarétti? Eða verða þessar aðgerðir réttlættar með vísan til 51. gr. stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna? Er það skoðun hæstv. utanrrh., afstaða hans, stefna hans eða ríkisstjórnarinnar, að fara ætti í þessar aðgerðir, ef til kemur, að undangenginni umfjöllun í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og samþykkt þar?

Um stöðu Íslands hljóta líka að vakna spurningar um hvort í gildi verði fyrirvari Íslands, þegar það gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum 1946, sem var ítrekaður af þáv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni, 1949 þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu, að Ísland muni aldrei lýsa annarri þjóð stríði á hendur.

Í ágætri bók um sögu utanríkisþjónustunnar er m.a. rakinn ágætlega aðdragandi þess að Ísland gekk í Sameinuðu þjóðirnar. Ísland sóttist eftir aðild að ráðstefnunni í San Francisco 1945 en fékk ekki og það strandaði á þeirri einörðu afstöðu Íslendinga að neita því að lýsa annarri þjóð stríð á hendur. Sameiginlega tók Alþingi á lokuðum fundi ákvörðun um að sitja heldur heima en að falla frá þessum fyrirvara. Utanrmn. og ríkisstjórn fjölluðu þá sameiginlega um málið og svipað má segja um þá afstöðu Íslands sem síðar hefur komið fram að við viljum vera vopnlaus smáþjóð og hvorki viljum né munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, eins og Bjarni heitinn Benediktsson utanrrh. orðaði það á sínum tíma í Washington 1949.

Gildir þessi fyrirvari enn og mun það þá leiða til þess að a.m.k. Ísland, hvað sem öðrum NATO-ríkjum líður, verði ekki aðili að slíku stríði?