2001-10-03 14:37:56# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:37]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um viðbrögð við þeim skelfilegu atburðum, þeim hræðilegu glæpum sem voru framdir í Bandaríkjunum þann 11. sept. sl. og aðgerðum sem dómsmrn. hugar að um þessar mundir af því tilefni. Um leið þakka ég hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og tek undir orð hans.

Það er alveg ljóst að hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafa hvarvetna í nágrannaríkjum okkar kallað á að lög og reglur um varnir gegn hryðjuverkum verði skoðuð í nýju ljósi. Það er algjörlega nauðsynlegt að leita nýrra úrræða til þess að takast á við þær ógnir sem stafa af hryðjuverkum. Þetta á sérstaklega við um refsilöggjöf, svo og lögreglu- og öryggismál sem heyra undir verksvið dómsmrh. Ég hef þegar sett af stað sérstaka vinnu í ráðuneytinu til þess að láta kanna lög og reglur á þessu sviði. Í því sambandi verður tekið mið af endurskoðun laga sem þegar er stefnt að á öðrum Norðurlöndum vegna þessara atburða svo og ályktun dóms- og innanríkisráðherra ESB um margháttaðar aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi.

Á fundi dóms- og innanríkisráðherra ESB 20. sept. sl. var samþykkt ályktun um margháttaðar aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi. Koma þessar aðgerðir verulega inn á samstarf Evrópuríkja samkvæmt Schengen-samkomulaginu. Samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 25. sept. var dómsmrn. og utanrrn. falið að yfirfara þessar tillögur sérstaklega út frá því til hvaða úrræða íslensk stjórnvöld geta gripið. Sú könnun hefur þegar farið fram og brugðist hefur verið við samkvæmt því.

Í ályktuninni er m.a. lagt fyrir Evrópuríki að taka upp strangara eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins en einnig að efla eftirlit innan lands, einkum með því að útlendingar dvelji löglega í landinu og beri nauðsynleg skilríki því til sönnunar. Eins er hvatt til sérstakrar varfærni við útgáfu skilríkja, einkum vegabréfa, og hertar allar kröfur um framvísun löglegra skilríkja í tengslum við útgáfu vegabréfsáritana. Loks er hvatt til skipulagðra upplýsingasamskipta við Europol þar sem starfa sérstakir vinnuhópar til að rannsaka hryðjuverkastarfsemi í Evrópu.

Fyrir örfáum vikum var gengið frá samstarfssamningi Íslands við Europol þannig að íslensk lögregluyfirvöld geta nú tekið fullan þátt í lögreglusamvinnu á þeim vettvangi, sem er afar mikilvægt. Ég hef lagt fyrir bæði ríkislögreglustjóra og Útlendingaeftirlitið að grípa til þeirra aðgerða sem kveðið er á um í ályktuninni eftir því sem þær eiga við um starfsemi þessara stofnana. En huga þarf að margvíslegum aðgerðum í alþjóðlegu lagaumhverfi til þess að uppræta hryðjuverkastarfsemi. Það er algjör forsenda fyrir árangri að ríki samræmi aðgerðir sínar á þessu sviði þar sem brotastarfsemin teygir anga sína til margra heimsálfa í senn.

Ég mun leggja mikið kapp á að fullgilda þá alþjóðlegu samninga sem eru nauðsynlegir til að takast á við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Þetta eru tveir samningar Sameinuðu þjóðanna, annars vegar alþjóðasamningur gegn hryðjuverkasprengingum frá árinu 1997 og alþjóðasamningur gegn fjármögnun hryðjuverka frá 1999. Loks er mikilvægt í þessu sambandi að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem samþykktur var á síðasta ári. Íslenska ríkið hefur undirritað alla fyrrgreinda samninga sem eru umfangsmiklir að efni til. Í kjölfar hryðjuverkanna óskaði ég sérstaklega eftir því við utanrrh. að hraða undirritun á samningnum gegn fjármögnun hryðjuverka og var brugðist hratt og vel við og hann undirritaður af hálfu íslenska ríkisins fyrir tveimur dögum síðan.

Þessir undirstöðusamningar geyma mikilvægar skilgreiningar á refsiverðri háttsemi í tengslum við hryðjuverkastarfsemi og skipulagða glæpastarfsemi henni tengdri, m.a. vopnasmygli, peningaþvætti og ýmsum fjármunabrotum og jafnvel fíkniefnaviðskiptum. Einnig er mjög mikilvægt að samningarnir veita mikilvæg úrræði í alþjóðlegri lögreglusamvinnu og rannsókn brota af þessu tagi sem fer fram í mörgum löndum í senn og kveða á um alþjóðlega réttaraðstoð til að flýta megi rannsókn.

Fullgilding fyrrgreindra samninga kallar á sérstaka skoðun ýmissa laga. Það á einkum við um almenn hegningarlög þar sem væntanlega þarf að endurskoða skilgreiningu á hryðjuverkabrotum og ýmsum hugtökum þeim tengdum, en einnig atriði eins og um refsiábyrgð þeirra sem fjármagna hryðjuverkastarfsemi og ábyrgð fjármálastofnana.

Á sama tíma og hugað er að breytingum á refsilöggjöfinni vegna hryðjuverka þarf að leita úrræða til þess að draga úr hættu á óeirðum og ofbeldi á alþjóðlegum fundum eins og finna má alvarleg dæmi um frá þessu ári þar sem hettuklæddir ofbeldismenn hafa hleypt upp fundum og ráðist á lögreglu með alvarlegum afleiðingum. Með því að leggja bann við að menn klæðist dulbúningi á mótmælafundum er hugsanlega mögulegt að stemma stigu við þeirri hættu. Þá þarf líka að skoða sérstaklega reglur um framsal þeirra sem grunaðir eru um hryðjuverk.

Vegna atburðanna í Bandaríkjunum og þeirra aðgerða sem nauðsynlegt er að grípa til hef ég kallað refsiréttarnefnd á minn fund og falið henni að fara yfir fyrrgreinda alþjóðasamninga og alla þætti refsilöggjafarinnar sem endurskoða þarf eða breyta vegna fullgildingar þessara samninga. Ég stefni að því að leggja fram frv. síðar á þessu haustþingi með (Forseti hringir.) fyrrgreindum breytingum.

Ég vil einnig leggja sérstaka áherslu á að samþykkt verði frv. til laga um útlendinga sem er endurflutt á þessu þingi þar sem það var ekki afgreitt á síðasta þingi. Í frv. er ráðgert að til staðar séu mun skýrari heimildir en í núgildandi lögum til þess að synja útlendingum um landgöngu eða dvalarleyfi vegna öryggis ríkisins. (Forseti hringir.)

(Forseti (GuðjG): Nú er tíminn löngu liðinn.)

Já, hæstv. forseti, þetta er vissulega stuttur tími þegar við erum að ræða um svo alvarleg mál, en að lokum vil ég undirstrika það að við Íslendingar munum leggja okkar af mörkum til þess að skera upp herör gegn þessari skipulögðu glæpastarfsemi, þessari ógn sem nú steðjar að mannkyni. (ÖS: Gilda aðrar reglur um ráðherra?)