2001-10-03 14:49:42# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Áhrif hinnar mannskæðu árásar hryðjuverkamanna á Bandaríkin þann 11. september sl. á öryggis- og varnarmál þjóða verða mikil og varanleg. Þeirra mun vafalítið sjá stað í starfsumhverfi og ferðatilhögun venjulegs fólks um veröldina.

Það er ekki nema rúmur áratugur síðan Berlínarmúrinn féll og gömlu Sovétríkin í austurblokkinni liðu undir lok, sem markaði endalok kalda stríðsins. Kalda stríðið einkenndist af kjarnorkuvígbúnaði og ógnarjafnvægi.

Vissulega var strax farið að tala um að ýmsar aðrar fyrirsjáanlegar hættur kæmu í stað kjarnorkuógnarinnar. Atlantshafsbandalagið, NATO, hefur á undanförum árum endurskilgreint öryggishugtakið og m.a. nefnt náttúruhamfarir, þjóðernisátök, umhverfisvanda, skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk sem hugsanlega ógnun við öryggi aðildarríkjanna.

NATO hefur þurft að bregðast við sumum af þessum nýju hættum, sérstaklega þjóðernisátökum á Balkanskaga sem hafa ógnað stöðugleika í Evrópu. En þau átök hafa átt sér stað utan landsvæðis aðildarríkja NATO. Almenningur í Vestur-Evrópu og í Ameríku hefur almennt ekki óttast hernaðarárás á heimaland sitt.

Frá og með 11. september síðastliðnum gjörbreyttist þetta. Öryggistilfinningin er horfin. Sjálfsmorðssveitir hryðjuverkamanna gerðu, að þeim finnst, vel heppnaða árás undir stefnu heilags stríðs á tvær helstu borgir Bandaríkjanna, öflugasta herveldis heims, án þess að nokkrum vörnum yrði við komið. Kynslóðin sem er að vaxa úr grasi og man ekki eftir öryggisleysi kalda stríðsins stendur nú skyndilega frammi fyrir því að hún er hvergi óhult fyrir þeim ógnaröflum sem stóðu að baki árásinni á óbreytta borgara í Bandaríkjunum.

Eins og önnur vestræn ríki þarf Ísland nú að endurmeta varnar- og öryggisstefnu sína með hliðsjón af því hversu nálæg ógnin af hryðjuverkum er skyndilega orðin. Ísland studdi samþykkt NATO um að veita Bandaríkjunum stuðning í baráttunni gegn hryðjuverkamönnunum. Slíkur stuðningur af hálfu Íslands felst væntanlega helst í því að við leyfum afnot af Keflavíkurflugvelli, leggjum friðargæslu lið, og við þurfum jafnframt að vera viðbúin því að auka verulega löggæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að fylgjast með ferðum manna og ekki síst að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt í farþegaflugi til og frá landinu.

Nú þegar hafa þessar árásir haft mikil áhrif á daglegt líf fjölmargra Íslendinga, m.a. vegna fjöldauppsagna flugfélaga. Þá þurfti ríkisvaldið einnig að tryggja áframhaldandi flugrekstur og var það sjálfsagt eins og málum er komið. Sú ógn sem fólki finnst steðja að sér í kjölfar árásanna hefur þegar haft gríðarleg áhrif. Þau áhrif á ferðaþjónustu hér á landi sem annars staðar geta orðið mikil og varanleg án þess að við getum nú þegar séð þær breytingar fyrir.

Af viðbrögðum Bandaríkjamanna og aðildarríkja NATO hingað til má ráða að þeir telji mikilvægt að ekki verði gripið til gagnaðgerða nema að vel yfirlögðu ráði. Það er einmitt kjarni málsins að varast blindan hefndarhug. Viðbrögðin við árásinni þurfa að beinast að hinum seku, annars eykst hættan á að hefndir kalli sífellt á endurteknar árásir hryðjuverkamanna.

Þá ber þess að gæta að aðgerðir Vesturlanda beri ekki keim af átökum siðmenninga. Líklegt er að aðgerðirnar beinist að ýmsum ríkjum múslima og araba, en það þarf að vera ljóst að baráttan beinist gegn hryðjuverkamönnum, ekki gegn þjóðum eða trúarbrögðum. Það er ekki tiltekin menning eða trúarbrögð, sem getur af sér hryðjuverkastarfsemi. Æskilegt er að halda beitingu hervalds í lágmarki. Ef árásir Vesturveldanna koma til með að valda stórfelldu mannfalli og tjóni á mannvirkjum í ríkjum araba, yrði sú hætta fyrir hendi að úr rústunum risu heiftúðugir menn sem væru efni í nýja hermdarverkamenn.