2001-10-03 14:58:32# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[14:58]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það er ljóst að hefðbundinn vígbúnaður, eldflaugavarnir og gervihnattanjósnir af fullkomnustu tegund hefðu ekki dugað gegn illvirkjunum sem létu til skarar skríða í New York og Washington. Því má okkur vera ljóst að hryðjuverkahópar af þessu tagi verða ekki brotnir á bak aftur með hernaði einum saman. Á það hefur margoft verið bent í umræðum liðinna vikna en ég held að Rudolf Scharping, varnarmálaráðherra Þýskalands, hafi verið einn sá fyrsti til að benda á þessa staðreynd.

Eins má vera víst að margra ára, jafnvel áratugabarátta kann að vera fram undan svo að réttlætið megi sigra að lokum. En við skulum hafa það hugfast að sprengjuherferðir gegn saklausu fólki þjóna engum tilgangi öðrum en að auka á upplausn og hörmungar, ekki síst í Miðausturlöndum. Baráttan gegn hryðjuverkaöflunum má alls ekki festa þau hin sömu öfl í sessi. Á það hefur Wesley Clark, fyrrverandi yfirmaður herafla NATO í Evrópu, bent meðal annarra.

Hryðjuverkin í Bandaríkjunum mega heldur ekki slæva dómgreind ráðamanna á Vesturlöndum. Ég er þeirrar skoðunar að fórnarlömbum hryðjuverkanna sé sýnd mest virðing með yfirveguðum og ígrunduðum viðbrögðum. Stjórnvöld á Vesturlöndum hljóta að gera heiðarlega tilraun til þess að grafast fyrir um orsakir, um rætur, voðaverka sem þessara. Í slíku felst engin uppgjöf. Þvert á móti er það eina leiðin svo að hægt sé að draga einhvern lærdóm af þessum hrikalegu atburðum. Við verðum hreinlega að finna svörin og bregðast við í samræmi við þau því að hefnarþorstinn má ekki ráða ferðinni. Við megum heldur ekki beina reiði okkar gegn múslimum, hvorki hér á landi né annars staðar. Við megum ekki gefa fordómunum lausan tauminn og gera íslam að hinu illa. Það er bæði billegt og rangt.

[15:00]

Margir hafa orðað það sem svo að öryggiskenndin sem þeir höfðu áður sé horfin. Víst er að hertar öryggiskröfur verða gerðar og ferðafrelsi manna mun skerðast með beinum og óbeinum hætti í kjölfar hryðjuverkanna. Kröfur um aukið eftirlit með fólki hvar sem er og hvenær sem er fylgja í kjölfarið. Hætta er á að eftirlitssamfélagið blómstri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir hinn almenna borgara og við því ber að sporna.

Þessir hörmulegu atburðir hafa beint sjónum heimsbyggðarinnar að ógnarstjórn talibana í Afganistan. Það er þyngra en tárum taki, herra forseti, að þurft hafi hryðjuverkin 11. september sl. til þess. Ég hef oft velt því fyrir mér á undanförnum árum hvers vegna samfélag þjóðanna hafi látið talibanana óáreitta. Þeir hafa farið sínu fram. Þar eru mannréttindabrot daglegt brauð, aftökur án dóms og laga, ófrelsi til orðs og æðis og svo eru það konurnar. Það verður að segjast eins og er að allt of fáir hafa tekið upp málstað kvenna í Afganistan, kvennanna sem skrimta undir ógnarstjórn talibananna. En nú er að verða breyting á og það tækifæri ber að nýta.

Í þessu sambandi er umhugsunarvert að það er ekki fyrr en nú að pólitískur vilji skapaðist til þess í samfélagi þjóðanna að frysta innstæður talibananna á bankareikningum. Á dögunum voru t.d. frystar innstæður í Bretlandi að jafnvirði 9 milljarða kr. Einhverja seðla eiga þeir, þessir herramenn.

Herra forseti. Staðan í Afganistan var slæm fyrir 11. september. Þann 6. september sl. var sent út ákall um neyðaraðstoð vegna yfirvofandi hungursneyðar. Það er því afar lofsvert að ríkisstjórn Íslands skuli nú þegar hafa tekið ákvörðun um að veita 10 millj. kr. til þessarar neyðaraðstoðar. En betur má ef duga skal og ég er hrædd um að þetta sé byrjun á löngu og erfiðu ferli fyrir afgönsku þjóðina og finnst nú kannski einhverjum nóg komið.