2001-10-03 15:30:54# 127. lþ. 3.1 fundur 35#B hryðjuverkin í Bandaríkjunum og viðbrögð við þeim, skýrsla utanríkisráðherra# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka þessa umræðu og þá miklu samstöðu sem hefur komið fram hjá öllum þingmönnum, að fordæma þessar hræðilegu árásir sem hafa verið gerðar á saklaust fólk og eindreginn stuðning þingmanna við að vinna að því að slíkt geti ekki gerst aftur. Ég vil sérstaklega þakka formanni Samfylkingarinnar, Össuri Skarphéðinssyni, og reyndar formanni Frjálslynda flokksins jafnframt, Sverri Hermannssyni, fyrir eindreginn stuðning við það sem ríkisstjórnin hefur aðhafst fram að þessu. Ég lít svo á að þeir hafi lýst sig algjörlega sammála því. Ég hlýt jafnframt að leggja á það áherslu að reyna að varðveita sem besta samstöðu um áframhald þessa máls. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef kemur til sameiginlegra aðgerða Atlantshafsbandalagsins í þessu máli eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér inn á, þá er þar um meiri háttar utanríkispólitíska ákvörðun að ræða. Og samkvæmt þingsköpum ber að hafa um það samráð við utanríkismálanefnd og að sjálfsögðu ríkisstjórn. Það hefur engin slík ákvörðun verið tekin. Það hefur engin beiðni um það komið fram og það hafa engar umræður orðið um það mál enn sem komið er. En að sjálfsögðu er ekki hægt að útiloka það, sérstaklega með tilliti til þess að 5. gr. Atlantshafssáttmálans er nú orðin virk í fyrsta skipti síðan samningurinn var undirritaður.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði jafnframt hvernig varnir Íslands yrðu undirbúnar í þessu ljósi og allur viðbúnaður hér á landi. Það er atriði sem þarf að eyða mikilli vinnu í. Og eins og hann vitnaði til þá höfum við í utanrrn. þegar fyrir löngu síðan hugleitt þessar nýju aðstæður eins og kom fram í þeirri skýrslu sem hann vitnaði til. Ég vil minna á að í þau síðustu tvö skipti sem æfingin Norður-Víkingur hefur farið fram hefur hún farið fram undir þeim merkjum að um væri að ræða hryðjuverkaárás hér á Íslandi. Menn hafa því þegar hugsað út í það.

Þar sem hv. þm. spurði hvort þessar aðstæður yrðu hafðar að leiðarljósi í viðræðum við Bandaríkjamenn vegna þeirrar bókunar sem þarf að ræða við þá um þá liggur náttúrlega alveg ljóst fyrir að slíkar viðræður á undanförnum árum hafa ekki síst mótast af því hver væri ástættanlegur lágmarksviðbúnaður hér á landi í ljósi nýrrar heimsmyndar og þeirrar váar sem við stöndum frammi fyrir að því er varðar hryðjuverkastarfsemi, glæpastarfsemi og ýmsar aðrar aðstæður. Við höfum haldið því fram að hér væri um lágmarksviðbúnað að ræða. Við þurfum að sjálfsögðu að endurmeta það í ljósi þessara aðstæðna. En ég held að það sé alveg ljóst, miðað við þær aðstæður sem nú eru komnar upp, að enn frekar er rétt að halda því fram að um algjöran lágmarksviðbúnað sé að ræða. Og við þurfum að sjálfsögðu að ræða öryggishugtakið í þessu ljósi.

Ég vil taka það fram að við höfum sérstaklega beint augum okkar að Keflavíkurflugvelli og flugstöðinni þar. Það vill svo vel til að í gær kom bandaríska flugmálastjórnin mönnum að óvörum á Keflavíkurflugvelli til að gera þar úttekt, eins og bandaríska flugmálastjórnin gerir víða um heim. Ef niðurstaða úttektarinnar er sú að ekki sé um fullnægjandi aðstæður að ræða þá getur það þýtt að allt flug verði bannað frá viðkomandi flugstöð til Bandaríkjanna. Þessi yfirvöld voru mjög ánægð með aðstæður á Keflavíkurflugvelli þannig að það sýnir að við höfum brugðist þar rétt við.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hér nokkurra spurninga, í fyrsta lagi um túlkun á 5. gr., þ.e. varðandi öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og fyrirvara Íslands. Ég verð, herra forseti, vegna þess að ég sé að tími minn er útrunninn, að láta þessar spurningar bíða. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til þess að svara þeim. Ég er ósammála hv. þm. í mörgu því sem hann hefur haldið fram. Ég þarf hins vegar alllangan tíma til að svara hv. þm., en minni á að við hljótum að meta utanríkispólitíska hagsmuni okkar í ljósi núverandi aðstæðna en ekki aðstæðna 1945 og 1949.